Greinasafn | apríl 2012

Jesús grillar á gleðidögunum

 

Jesús stendur á ströndinni og grillar.  Hann grillar fisk og brauð.  Nú er grilltíminn að fara í hönd og næstkomandi sunnudag munum við grilla eftir guðsþjónustu á Möðruvöllum.  

En er þetta í alvörunni satt, að Jesús hafi grillað?

Ein af stórkostlegu sögunum sem við fáum að heyra á gleðidögunum er frásagan af því þegar vinir Jesú voru farnir að snúa sér að daglegu verkum sínum eftir að hafa fylgt Jesú í þrjú ár. Þeir fóru út á Tíberíasvatn að veiða, en veiðin var dræm.  Þá birtist Jesús þeim á ströndinni, upprisinn, og sagði þeim að kasta netinu hinu megin við bátinn.  

Þá fylltust netin.

Svo hélt Jesús áfram að standa á ströndinni eftir þennan mikla fiskidrátt og þegar vinirnir komu í land var hann að grilla fisk og brauð.  Þarna áttu þau svo notalegt samfélag yfir matnum og enn á ný sannfærðust þau um að Jesús væri í raun og veru upprisinn.

Það sem mér hefur hins vegar fundist athyglisvert við þesa sögu er hvernig Jesús bendir vinum sínum á aðra leið til árangurs.  Við segjum stundum þegar illa gengur: “ þegar Guð lokar dyrum þá opnar hann glugga“.  Þetta geta margir vitnað um í lífi sínu.

Þegar illa gengur ættum við að líta upp úr vandræðum okkar og skoða hvort við getum gert þetta einhvern veginn öðruvísi.  Kastað netunum hinu meginn við bátinn svona í óeiginlegri merkingu og sjá hvort ekki gengur betur.  Við ættum að taka þetta upp sem máltæki í lífi okkar og minna á um leið að það er Jesús sem leiðir okkur í þessa átt.

Ég sé fyrir mér að nú muni kirkjan kasta netum sínum hinum megin við bátinn.  Með nýrri forystu og nýjum biskupum munum við finna nýjar leiðir til að boða fagnaðarerindið um að Jesús Kristur er upprisinn.  

Köstum netum okkar hinu megin við bátinn og horfum til Jesú sem leiðarljóss á þeirri vegferð, þá fáum við að taka þátt í mikilli grillveslu með honum.

Auglýsingar

Eflum Hóla

Á ferðum okkar um Norður- og Austuland hefur oft verið velt vöngum um nauðsyn vígslubikupsembættanna.  Ég hef miðlað þeirri bjargföstu skoðum minni að annað hvort eigi að leggja niður embættin eða efla þau mikið.  Eins og ég hef sagt áður í pistlum mínum er stórkostlegt tækifæri nú að endurskoða verkaskiptingu biskupanna þar sem þrír nýir biskupar eru að taka við á örfáum mánuðum.

Á ferð okkar um Skagafjörðinn í gær hittum við mjög marga áhugasama sóknarnefndarformenn og presta.  Það sem þau áttu sameiginlegt var áhugi þeirra á að efla Hóla.  Ég hef safnað öllum þessum hugmyndum í hugmyndabanka sem mun nýtast mér frábærlega vel þegar og ef Guð lofar að ég nái kjöri á Hólum.

Skagafjörður er mikið menningarsvæði og komumst við sannarlega að því þegar við sóttum tónleika í Miðgarði við upphaf sæluviku.  Guðrún Gunnarsdóttir, Álftagerðisbræður, unglingakór og ungir hljóðfæraleikarar og söngvarar, Herdís og Sigvaldi og söngsystur úr Skagafirði skemmtu gestum með fallegum og vönduðum söng.

Kórar eru margir í Skagafirði, karlakór, óperukór, blandaðir kórar, margir kirkjukórar og unglinga- og barnakórar.  Framtíðin er björt þegar svo margir eru tilbúnir að fegra það mannlíf sem lifað er í bæjum og sveitum á landsbyggðinni.

Með svo margt hæfleikaríkt og vel menntað fólk á svæðinu eru mikil tækifæri að efla Hólastað, sem býr yfir mikilli sögu og menningararfleifð fyrir utan að þar er öflugt mannlíf sem tengist Háskólanum á Hólum.  Það er dýrmætt veganesti sem ég tek með mér til eflingu staðarins.

Verkefnastjóri í áreiðanleikateymi

Á ferð minni um Austur- og Norðurland um liðna helgi hitti ég margt skemmtilegt fólk.  Ég hitti fólk við vinnu sína við ótrúlega fjölbreytt störf.  Atvinnuástand er misjafnlega gott eftir byggðarlögum og afkoma fólksins byggist auðvitað á því hvort einhverja atvinnu er að fá eða ekki.

Sum byggðarlögin byggja á landbúnaði, önnur á sjávarútvegi og enn önnur á iðnaði.  Á einum stað hitti ég unga og vel menntaða konu sem er verkefnastjóri í áreiðanleikateymi.  Þetta fannst mér afar athyglisvert.  Mér fannst starfsheitið innihaldsríkt og þrungið merkingu.

Ég hef sterka tilhneigingu til að  heimfæra allt sem ég sé og heyri á minn heimavettvang og því fór ég að hugsa um hvort kirkjan þyrfti ekki verkefnastjóra í áreiðanleikateymi.  Svo fór ég að heimfæra þetta upp á allt þetta frábæra fólk sem er að vinna í kirkjunni.  Erum við ekki öll í áreiðanleikateymi.  Erum við ekki öll sem unnum kirkjunni okkar að vinna að því að áreiðanleikinn sé hafður að leiðarljósi í öllu okkar lífi og starfi.

Ég sé nýja biskupinn okkar fyrir mér sem verkefnisstjóra í áreiðanleikateymi.  Hún hlustar á fólk og henni er annt um fólk.  Ég sé fyrir mér að hinir þrír nýju biskupar sem munu móta kirkjuna á næstu árum verði teymi, teymi sem vinnur saman að því að efla og styrkja kirkjuna og gera hana að þeim vettvangi áreiðanleika sem hún á að vera.

 

Þrír nýir biskupar

Nú voru þær fréttir að berast að sr. Agnes M. Sigurðardóttir verður næsti biskup Íslands.  Öll kirkjan gleðst yfir þessum tíðindum.  Sr. Agnes er einlægleglega trúuð kona, samvinnufús og elskuleg í alla staði.  Hún hlustar á fólk og tekur ákvarðanir af yfirvegun og ákveðni.

Í fyrra var kjörinn nýr Skálholtsbiskup.  Sr. Kristján Valur Ingólfsson er eins og Agnes hæfileikaríkur maður og miðlar einnig miklu trúartrausti bæði í orðum og athöfnum.  Í næsta mánuði verður kjörinn nýr Hólabiskup.

Ég sé það fyrir mér að þessir þrir nýju biskupar fái tækifæri sem ef til vill hefur aldrei gefist áður í kirkjunni okkar.  Ég sé það fyrir mér að hinir þrír nýju biskupar setjist niður og skipuleggi biskupsþjónustuna í landinu eftir þeim náðargáfum sem Guð hefur gefið þeim.

Sr. Kristján Valur er sérfræðingur á sviði tónlistar og helgisiða.  Þau svið gætu því t.d. fallið undir verksvið Skálholtsbiskups. Nái ég kjöri sem Hólabiskup sé ég fyrir mér að fræðslumálin gætu heyrt undir  Hóla. Þegar nýir biskupar taka við af okkur myndu þau skoða hvaða náðargáfur þeim hefur verið gefið og skipuleggja þannig þjónustuna upp á nýtt.

Kirkjan þarf að vera í stöðugri þróun og mótun. Nú er vor í kirkjunni eins og um allt land.  Nú er verið að plægja og undirbúa jarðveginn fyrir komandi sumar.  Tökum öll þátt í þeirri mótun sem kirkjan okkar er í núna.  Þá munum við líka sjá fallega uppskeru sem mun margfaldast á næstu árum.

Að ferðast um kirkjuna

Það er stórkostleg tilfinning að ferðast um kirkjuna á gleðidögunum.  Við hjónin erum að koma úr sex daga ferðalagi um kirkjuna á Austur- og Norðurlandi.  Höfum við heimsótt sóknarnefndarformenn og presta til að undirbúa Hólabiskupskjörið.  Alls staðar hefur verið tekið höfðinglega á móti okkur og gleði kirkjunnar um allt land hefur blasað við okkur.

Hvar sem litið er eru fallegar kirkju, sem er vel við haldið af þeim sem elska kirkjurnar sínar og verja drjúgum tíma af frítíma sínum til að hlúa að lifandi kirkjustarfi í sjálfboðaliðavinnu.  Það er hins vegar sorglegt að heyra að lækkun sóknargjalda bitnar helst á hinu lifandi starfi.  Víða hafa söfnuðir ekki efni á að borga organistum eða barnastarfsfólki.  Nú þurfa allir að taka höndum saman um að leiðrétta sóknargjöldin sem hafa lækkað mun meira en gert var ráð fyrir. Þegar því grettistaki hefur verið lyft verður aftur bjart yfir sóknum landsins.

Það sem eftir lifir í hugum okkar eftir þessa ferð er fyrst og fremst gleði og þakklæti til allra þeirra sem tóku á móti okkur.  Það er mikill fjársjóður sem verðandi Hólabiskup hefur í farteskinu að hafa kynnst öllu þessu dýrmæta fólki.  Flestir voru að undirbúa sauðburð, aðra hittum við við grásleppuverkun, í laxeldi, við störf á heislugæslu og í pósthúsum og sparisjóðum.  Alls staðar er kirkjunnar fólk virkt í samfélögum sínum.

Já, það er gaman að ferðast um kirkjuna sína á gleðidögum.  Næst munum við heimsækja kirkjuna á Norð-vesturlandi.  Það er mikið tilhlökkunarefni.

Beinum sjónum okkar til Jesú í sumar

Gleðilegt sumar, gleðilegt sumar!

Það er gaman að segja gleðilegt sumar á gleðidögunum þegar við beinum sjónum okkar til hins upprisna frelsara sem hefur reist alla sköpunina upp frá dauðum.

Í upphafi sumars leggjum við hjónin í austurför.  Stefnum við að því að hitta sem flesta sóknarnefndarformenn og presta á Austfjörðum á næstu dögum til að undirbúa Hólabiskupskjörið.  Það er einlæg tilhlökkun í hjartanu mínu að hitta allt þetta fólk sem hefur svo einlægan áhuga á kirkjunni sinni, kirkjunni í heimabyggð.

Það er svo gaman að tala um kirkjustarfið við fólk sem hefur framtíðarsýn og gleðst yfir því að það sé hlustað á það.  Það verður dýrmætt veganesti fyrir mig ef svo gleðilega vildi til að ég næði kjöri á Hólum.  Þá er það næringaríkt nesti í pokanum mínum að hafa hitt allt þetta fólk sem við erum nú að fara að hitta.

Þegar ég vaknaði í morgun fór ég inn á http://www.biblian.is og dró mér mannakorn eins og ég geri ævinlega á morgnana.  Ég bað Guð að gefa mér nú sérstaklega gott mannakorn sem gæti vísað okkur veginn á ferð okkar.  Ég dró þetta mannakorn:  „Beinum sjónum okkar til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar. Hann leið með þolinmæði á krossi og mat smán einskis af því að hann vissi hvaða gleði beið hans og hefur nú sest til hægri handar hástóli Guðs.“

Betra veganesti get ég ekki hugsað mér.  Að hafa Jesú í stafni eins og sjómennirnir í gamla daga og beina sjónum sínum að honum er góð áminning, vitandi það að hann þurfti að líða áður en hann gekk inn þeirrar gleði sem beið hans.  Þetta er einmitt gleði gleðidaganna og þetta er gleði sumarsins.

Nú eru fuglarnir farnir að fylla Hörgárdalinn, stelkur og lóa syngja hér suður á túninu og ég veit að fleiri fuglategundir bætast í hópinn á ferð okkar austur og suður um firðina.  Fulgarnir syngja og minna okkur á sigur sumarsins yfir vetrinum og sigur lífsins yfir dauðanum.

Gleðilegt sumar!

Trúarjátning hjartans

Hugleiðing við fermingu í Bægisárkirkju sunnudaginn 15. apríl 2012

Kæra Hulda Kristín, fjölskyldur og vinir!

Gleðilega hátíð og til hamingju með þennan fallega dag.  Sólin skín á heiðum himni á alhvíta jörð þannig að varla getur orðið bjartara bæði úti fyrir og innra með okkur á þessum fallega degi.

Nú eru gleðidagarnir haldnir hátílegir í kirkjunni okkar, dagarnir frá páskum og fram að hvítasunnu.  Á gleðidögunum fáum við a heyra sögurnar af Jesú þegar hann birtist lærisveinum sínum upprisinn.  Þetta eru allt mjög fallegar sögur og væri gaman að segja þær allar hér í dag.  En þá er hætta á að því að athöfnin verði of löng.

Mig langar hins vegar að minnast á tvær þeirra.  Önnur þeirra segir frá lærisveinum Jesú sem voru á ferð hinn fyrsta páskadag á leið til lítils þorps sem heitir Emmaus.  Þeir voru niðurlútnir og sorgbitnir vegna aftöku Jesú.  Þeir voru ekki aðeins leiðir yfir því að hafa misst besta vin sínn, heldur höfðu þeir líka misst alla von.  Jesús hafði fyllt þá mikilli von í lífi sínu og starfi, en nú var öll sú von úti þar sem hann hafði verið handtekinn, krossfestur og deyddur.

Þeir voru svo sorgbitnir að þeir þekktu ekki Jesú þegar hann slóst í för með þeim og gekk með þeim upprisinn á veginum. Þeim leið hins vegar vel í návist hans, svo vel að þeir vildu endilega bjóða honum inn með sér þegar þeir voru komnir til Emmaus.  Þegar þeir settust niður þá tók Jesús brauðið og braut það á sama hátt og hann hafði gert við hina síðustu kvöldmáltíð.  Þá opnuðust augu þeirra og þeir þekktu hann.

Þetta sama kvöld birtist Jesús öllum lærisvinunum nema Tómasi sem ekki var með þeim.  Þegar Tómasi var sagt frá því vildi hann alls ekki trúa þeim og sagði að ef hann fengi ekki að sjá naglaförin og síðusárið þá myndi hann alls ekki trúa.

Svo leið vika, alveg eins og nú er liðin vika frá páskum.  Þá birtist Jesús þeim aftur, kallaði á Tómas og sýndi honum naglaförin og síðusárið.  Viðbrögð Tómasar létu ekki á sér standa:  Hann fór með stystu og einlægustu trúarjátninu sem við getum hugsað okkur, þegar hann sagði: “Drottinn minn og Guð minn.”

Fermingarbörnin þurfa að læra langa trúarjátningu utanbókar fyrir ferminguna, en þegar allt kemur til alls væri nóg fyrir þau að læra trúarjátningu Tómasar því hún er einlæg játning sem kemur frá hjartanu.

Við fermingu skiptir það ekki mestu máli að kunna eitthvað utanbókar heldur að játa með hjartanu, að vilja vera vinur Jesú og hafa hann með í öllu lífinu.

Það hefur verið gaman að fylgjast með þér undanfarin ár, Hulda Kristín.  Ég er búin að þekkja þig frá því þú varst tveggja ára og ert þriðja systirin sem ég fermi hér í Bægisárkirkju.  Þú hefur tekið þátt í kirkjustarfinu og fermingarstarfinu af miklum áhuga og ef til vill er rétt að minnast á það hér því það er ekki víst að fjölskylda og vinir viti að þú tókst þátt í passíusálmalestrinum á föstudaginn langa.  Allir passíusálmarnir eru lesnir í Möðruvallakirkju á föstudaginn langa, þegar við minnumst þjáningar og dauða Jesú Krists og Hulda  Kristín las tvo sálma af mikilli vandvirkni og einlægni.

Mig langar til að hvetja þig til að halda einlægni þinni áfram.  Þú skalt halda áfram að sækja kirkju, halda áfram að lesa í Biblíunni, sem söfnuðurinn gaf þér í haust og halda áfram að biðja, fela hvern dag og hverja nótt í Guðs hendur.

Í dag minnumst við Jesú á sérstakan hátt.  Við minnumst síðustu kvöldmáltíðar hans.  Við tökum á móti Jesú Kristi sjálfum í brauði og víni.  Við tökum á móti Jesú sjálfum á sérstakna hátt..

Það kann að vera efi í hjarta okkar eins og Tómasi því að stundum er erfitt að trúa, en í altarissakramentinu fáum við að snerta og koma við eins og Tómas.  Í altarissakramentinu opnast augu okkar fyrir því hver Jesús er eins og gerðist hjá lærisveinunum sem gengu til Emmaus.  Þess vegna vil ég hvetja þig til að taka þátt í altarisgöngu eins oft og þú hefur kost á.  Megi Guð blessa þig og fjölskyldu þína um alla framtíð í Jeús nafni.  Amen.