Að segja já við Jesú

Ávarp við fermingu í Bakkakirkju í Öxnadal 7. apríl 2012

Kæri Davíð Heiðmann fjölskyldur og vinir!

Nú er stóri dagurinn runninn upp í lífi þínu, dagurinn sem við erum búin að vera að undirbúa í allan vetur.  Og þetta er sérkennilegur dagur, laugardagurinn fyrir páska.  Á þessum degi erum við með annan fótinn í myrkri föstudagsins langa og hinn fótinn í ljósi páskanna og upprisunnar. Þannig er lífið einmitt oft sambland ljóss og myrkurs.  Ef við göngum í gegnum myrkur erfiðleika er svo gott að eiga von og það er einmitt trúin sem gefur okkur vonina um að allt verði gott á ný.

Það er mikið drama í gangi dagana þegar við ryfjum upp atburðarásina frá því að Jesús og lærisveinar hans standa upp frá hinni síðustu kvöldmáltíð á skírdagskvöld og ganga út ú garðinn Getsemane.  Svo heldur atburðarásin áfram þegar Jesús er leiddur frá Heródesi til Pílatusar og loks dæmdur til dauða og krossfestur.  Við fylgdumst með þessari atburðarás í gær þegar passíusálmar Hallgríms Péturssonar voru allir lesnir í Möðruvallakirkju.  Svo heldur atburðarásin áfram á morgun þegar við fögnum upprisu hans á páskadag, fögnum sigri lífsins yfir dauðanum og sigri kærleikans á hatrinu.

Í dag í miðri þessari atburðarás komum við til kirkju hér á Bakka af þessu gleðilega tilefni að þú hefur ákveðið að eiga Jesú Krist að vini þínum um ókomin ár.  Þegar þú varst skírður voru orð Jesú lesin sem við köllum skírnarskipunina eða kristniboðsskipunina.  Þá voru foreldrar þínir minnt á þá miklu ábyrgð sem allir foreldrar sem bera börn sín til skírnar, taka að sér, en það er að ala þau upp í kristinni trú, kenna þeim að biðja og elska náungann.

Ég veit að foreldrar þínir tóku þetta hlutverk alvarlega því ég þekki þau vel.  Þú ert fjórða barn þeirra sem ég fermi og ég hef fylgst með þér frá því að þú varst lítill.  Ég veit að þú hefur ýmsa góða hæfileika og ég vil hvetja þig til að rækta þá hæfielika.  Þú hefur ýmsar góðar náðargáfur, enda einn af máttarstólpunum í Leikfélagi Hörgdæla.  Þú skalt skoða það vel hvaða náðargáfur Guð hefur gefið þér sérstaklega og rækta þær því Guð hefur gefið þér eitthvað sértstakt sem hann hefur ekki gefið neinum öðrum.

Eins og foreldrar þinir voru minnt á skírnarskipunina þegar þú varst skírður þá minni ég þig á hana líka núna.  Og mundu að hún endar á fyrirheiti.  Hún endar á loforði Jesú um að hann sé með okkur alla daga allt til enda veraldarinnar.  Jesús hefur lofað að vera með okkur, -alltaf.  Og hann vill að við viljum það líka.  Þess vegna er fermingin svo mikilvæg bæði fyrir okkur og Jesú.  Jesús segir já við okkur og við segjum já við hann.

Í dag á þessum hátíðisdegi minnumst við sérstaklega síðustu kvöldmáltíðar Jesú.  Þá sagði hann við vini sína: Svona skuluð þið minnast mín.  Í dag færð þú að taka þátt í þessari máltíð með fjölskyldu þinni og vinum.  Mundu það, Davíð, að alltaf þegar þú átt þess kost að ganga til altaris þá skalt þú taka þátt í henni, því að í altarisgöngunni njótum við samfélags við Jesú á sérstakan hátt.  Við tökum á móti fyrirgefningu hans áþreifanlega og við tökum á móti kærleika hans í brauði og víni.

Guð blessi þig alla daga og megir þú ganga á Guðs vegum.

Auglýsingar

Ein hugrenning um “Að segja já við Jesú

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s