Trúarjátning hjartans

Hugleiðing við fermingu í Bægisárkirkju sunnudaginn 15. apríl 2012

Kæra Hulda Kristín, fjölskyldur og vinir!

Gleðilega hátíð og til hamingju með þennan fallega dag.  Sólin skín á heiðum himni á alhvíta jörð þannig að varla getur orðið bjartara bæði úti fyrir og innra með okkur á þessum fallega degi.

Nú eru gleðidagarnir haldnir hátílegir í kirkjunni okkar, dagarnir frá páskum og fram að hvítasunnu.  Á gleðidögunum fáum við a heyra sögurnar af Jesú þegar hann birtist lærisveinum sínum upprisinn.  Þetta eru allt mjög fallegar sögur og væri gaman að segja þær allar hér í dag.  En þá er hætta á að því að athöfnin verði of löng.

Mig langar hins vegar að minnast á tvær þeirra.  Önnur þeirra segir frá lærisveinum Jesú sem voru á ferð hinn fyrsta páskadag á leið til lítils þorps sem heitir Emmaus.  Þeir voru niðurlútnir og sorgbitnir vegna aftöku Jesú.  Þeir voru ekki aðeins leiðir yfir því að hafa misst besta vin sínn, heldur höfðu þeir líka misst alla von.  Jesús hafði fyllt þá mikilli von í lífi sínu og starfi, en nú var öll sú von úti þar sem hann hafði verið handtekinn, krossfestur og deyddur.

Þeir voru svo sorgbitnir að þeir þekktu ekki Jesú þegar hann slóst í för með þeim og gekk með þeim upprisinn á veginum. Þeim leið hins vegar vel í návist hans, svo vel að þeir vildu endilega bjóða honum inn með sér þegar þeir voru komnir til Emmaus.  Þegar þeir settust niður þá tók Jesús brauðið og braut það á sama hátt og hann hafði gert við hina síðustu kvöldmáltíð.  Þá opnuðust augu þeirra og þeir þekktu hann.

Þetta sama kvöld birtist Jesús öllum lærisvinunum nema Tómasi sem ekki var með þeim.  Þegar Tómasi var sagt frá því vildi hann alls ekki trúa þeim og sagði að ef hann fengi ekki að sjá naglaförin og síðusárið þá myndi hann alls ekki trúa.

Svo leið vika, alveg eins og nú er liðin vika frá páskum.  Þá birtist Jesús þeim aftur, kallaði á Tómas og sýndi honum naglaförin og síðusárið.  Viðbrögð Tómasar létu ekki á sér standa:  Hann fór með stystu og einlægustu trúarjátninu sem við getum hugsað okkur, þegar hann sagði: “Drottinn minn og Guð minn.”

Fermingarbörnin þurfa að læra langa trúarjátningu utanbókar fyrir ferminguna, en þegar allt kemur til alls væri nóg fyrir þau að læra trúarjátningu Tómasar því hún er einlæg játning sem kemur frá hjartanu.

Við fermingu skiptir það ekki mestu máli að kunna eitthvað utanbókar heldur að játa með hjartanu, að vilja vera vinur Jesú og hafa hann með í öllu lífinu.

Það hefur verið gaman að fylgjast með þér undanfarin ár, Hulda Kristín.  Ég er búin að þekkja þig frá því þú varst tveggja ára og ert þriðja systirin sem ég fermi hér í Bægisárkirkju.  Þú hefur tekið þátt í kirkjustarfinu og fermingarstarfinu af miklum áhuga og ef til vill er rétt að minnast á það hér því það er ekki víst að fjölskylda og vinir viti að þú tókst þátt í passíusálmalestrinum á föstudaginn langa.  Allir passíusálmarnir eru lesnir í Möðruvallakirkju á föstudaginn langa, þegar við minnumst þjáningar og dauða Jesú Krists og Hulda  Kristín las tvo sálma af mikilli vandvirkni og einlægni.

Mig langar til að hvetja þig til að halda einlægni þinni áfram.  Þú skalt halda áfram að sækja kirkju, halda áfram að lesa í Biblíunni, sem söfnuðurinn gaf þér í haust og halda áfram að biðja, fela hvern dag og hverja nótt í Guðs hendur.

Í dag minnumst við Jesú á sérstakan hátt.  Við minnumst síðustu kvöldmáltíðar hans.  Við tökum á móti Jesú Kristi sjálfum í brauði og víni.  Við tökum á móti Jesú sjálfum á sérstakna hátt..

Það kann að vera efi í hjarta okkar eins og Tómasi því að stundum er erfitt að trúa, en í altarissakramentinu fáum við að snerta og koma við eins og Tómas.  Í altarissakramentinu opnast augu okkar fyrir því hver Jesús er eins og gerðist hjá lærisveinunum sem gengu til Emmaus.  Þess vegna vil ég hvetja þig til að taka þátt í altarisgöngu eins oft og þú hefur kost á.  Megi Guð blessa þig og fjölskyldu þína um alla framtíð í Jeús nafni.  Amen.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s