Greinasafn | maí 2012

Guð elskar ykkur eins og þið eruð – fermingarræða á hvítasunnu

Kæru fermingarbörn, fjölskyldur og vinir!

Gleðilega hátíð og til hamingju með þennan fallega dag, sem Guð hefur gefið okkur.  Hvítasunnan er runnin upp sem við erum búin að vera að horfa til í allan vetur með mikilli tilhlökkun.

Við komum saman hér í kirkjunni í haust til kynningarguðsþjónustu þegar fermingarstörfin voru að byrja.  Þá var beðið fyrir ykkur öllum með nafni og þið fenguð afhendar Biblíur sem gjöf frá söfnuðinum.  Þær bænir voru heyrðar því Guð hefur vakað yfir ykkur í allan vetur og vakið trú í hjarta ykkar og Biblíurnar hafa verið lesnar því við flettum upp í þeim í tímunum og lærðum að finna ritningarstaði.

Mikið vatn er runnið til sjávar síðan.  Þið hafið þroskast mikið, lært mikið og verið sérstaklega áhugasöm.

Í dag er hvítasunnudagur og síðast liðnar vikur allt frá páskum höfum við haldið gleðidagana hátíðlega í kirkjunni.  Fyrir 10 dögum var uppstigningardagur, en þá minntumst við þess að Jesús fór með lærisveina sína upp á hátt fjall og fól þeim þetta mikla hlutverk að fara út um allan heim, gera allar þjóðir að lærisveinum og kenna þeim það sem hann hafði kennt þeim.  Þessi orð köllum við skírnarskipunia, en þau voru einmitt lesin þegar þið voruð skírð.  Lærisveinar Jesú tóku þetta hlutverk alvarlega þó þau vissu reyndar ekki alveg hvernig þau ættu að fara að því að uppfylla þetta mikla hlutverk.

Svo gerist það tíu dögum síðar og heilagur andi kemur yfir þau svo þau finna sterkan kraft til að fara og sinna þessu mikilvæga verkefni.  Heilagur andi er ósýnilegur kraftur og við höfum talað mikið um ósýnilega hluti í vetur.  Undanfarna daga höfum við fundið sterkt fyrir ósýnilegum krafti en það er vindurinn sem hefur feykt jarðvegi um alla sveit í miklu moldroki.  Vindurinn er ósýnilegur, en við finnum fyrir krafti hans.  Eins er rafmagnið ósýnilegt og þræðir internetsins og svo auðvitað sá andi sem ríkir meðal okkar.  Við finnum hvort það er góður andi í hóp eða slæmur andi í hóp.

Þannig er líka heilagur andi.  Hann lætur okkur finna fyrir nærveru Guðs

Hann lætur okkur finna fyrir styrk í sorg.  Hann lætur okkur finna að við erum ekki ein.  Hann lætur okkur finna fyrir bænheyrslu.

Heilagur andi vekur trúna í hjörtum okkar.

Ég get kennt ykkur ýmislegt um Jesú Krist, en ég get ekki látið ykkur trúa á hann.

Það er heilagur andi sem vekur trú á Jesú Krist í hjörtum okkar.

Í dag er stór dagur í lífi ykkar.  Í dag verðið þið spurð að því hvort þið viljið hafa Jesú Krist að leiðtoga lífs ykkar.  Um leið og þið svarið þvi játandi að fylgja honum þá lofar Jesús ykkur því  að fylgja ykkur.

Í dag fáið þið líka að ganga til altaris.  Þið fáið að taka þátt í máltíð, sem Jesús stofnaði við hina síðustu kvöldmáltíð.  Í brauði og víni tökum við á móti Jesú Kristi sjálfum á táknrænan hátt.  Við finnum fyrir fyrirgefningu hans, við finnum fyrir nærveru hans og við finnum fyrir samfélagi okkar á milli.

Kæru fermingarbörn!

Ég bið fyrir ykkur í dag.  Ég bið fyrir því að þið megið varðveita trúna í hjörtum ykkar.  Ég bið fyrir því að þið haldið áfram að rækta trúna og ég bið fyrir því að Guð varðveiti ykkur frá öllu illu.

Ég vona að þið eigið skemmtilegan dag og að þið munið eftir deginum alla ykkar ævi.  Það gera 50 ára fermingarbörn sem hafa komið hingað í dag til að halda upp á fermingarafmælið sitt.  Þau fermdust hér á Möðruvöllum á hvítasunnu árið 1962.  Þau voru 14 sem fermdust þennan dag og 13 þeirra eru á lífi.  Hér eru sex þeirra og hafa þau meðferðis gjöf til kirkjunnar sem gefin er í minningu Valgeirs  Stefánssonar, en hann lést í flugslysi tvítugur að aldri.  Kirkjunni hefur verið gefin gjöf á þessum fallega degi og þið munuð fá gjafir í dag og það var skemmtilegt að rétt áður en við gengum til kirkju áðan þá sýndi hann Þórður frá Þríhyrningi eða Doddi hringjari fermingarbörnunum úrið sem hann fékk í fermingargjöf fyrir 50 árum, en það gengur hann með dags daglega og hefur gert s.l. 50 ár.

Ég óska ykkur öllum innilega til hamingju og munið alla ævi að Guð elskar ykkur eins og þið eruð.

Auglýsingar

Helstu stefnumál mín í vígslubiskupskjörinu

Nú er komið að því að kjósa í vígslubiskupskjörinu.  Kjörseðlar fara í póst á morgun föstudaginn 18. maí.

Því tel ég mikilvægt að taka saman helstu stefnumál mín, en þau eru:

– Umhyggja fyrir prestum , sóknarnefndum og starfsfólki kirkjunnar í stiftinu
Ég tel brýna þörf fyrir að hlúa þurfi vel að því góða starfi sem unnið er í söfnuðum
kirkjunnar í bæjum og sveitum.  Sé ég það sem verkefni vígslubiskups að annast
sálgæslu presta og starfsfólks kirkjunnar, bæði þeirra sem eru launaðir og þeirra
sem vinna sjálfboðin störf

– Efling Hólastaðar
Hólar eru mikill sögu- og menningarstaður.  Þar starfar Háskólinn á Hólum og þar
er góð ferðaþjónusta sem ég sé fyrir mér að muni eflast í framtíðinni.
Ég tel mikilvægt að ýmis þau verkefni sem nú eru unnin á biskupsstofu færist út
til stólanna þannig að vinna megi þau störf á landsbyggðinni í tengslum við söfnuði
á svæðinu.

– Lifandi upplifun af sögu staðarins með tónlist, myndlist og bókmenntum.
Auðunarstofa á Hólum er sýnishorn af byggingarlist miðalda.  Þær listgreinar sem
tengjast sögu staðarins eins og tónlist, myndlist, prentlist og bókmenntir má
setja upp á lifandi átt þannig að þau sem sækja staðinn heim fái tilfinningu fyrir
þeirri menningu sem verið hefur á Hólum frá upphafi til dagsins í dag.

– Kyrrðardagar, fræðsla, námskeið
Ég tel mikilvægt að á Hólum verði boðið upp á andlega næringu fyrir presta, sóknarnefndarfólk
og starfsfólk kirkjunnar.  Hlusta þarf vel eftir þörfum hvers og eins í því sambandi.
Einum kann að hugnast kyrrðardagar, þar sem boðið er upp á kyrrð, íhugun og útiveru.
Öðrum kann betur að líka að vera boðið upp á fræðslu um kristna trú eða annað sem tengist
því að rækta trúna í okkar daglega lífi.
Svo eru aðrir sem þiggja myndu námskeið um ýmisa þætti sem tengjast kirkjunni og uppbyggingu
hennar eða njóta samfélags við aðra sem eru að vinna að svipuðum þáttum.
Þannig gætu Hólar orðið vettvangur sóknarnefndarfólks og annarra sem tengjast kirkjulegu starfi  til að bera saman bækur sínar og tala saman.

Vígslubiskupskjörið að fara í gang

Nú hefur verið ákveðið að kjörseðlar vegna vígslubiskupskjörsins á Hólum verða sendir út föstudaginn 18. maí og kjörinu lýkur viku síðar eða föstudaginn 25. maí.  Atkvæði verða talin fimmtudaginn 31. maí.

Á vef kirkjunnar http://kirkjan.is/ er kominn hlekkur sem vísar á kjörið.  Þar segi ég í kynningu:

Ég gef kost á mér til vígslubiskupsembættisins á Hólum í Hjaltadal vegna þess að ég hef fengið köllun frá Guði til að víkka út þá þjónustu sem ég hef ynnt af hendi innan kirkjunnar s.l. 30 ár.
Ég fékk ung að árum köllun til prestsþjónustu á höfuðborgarsvæðinu þar sem ég þjónaði í 17 ár og síðan í sveit s.l. 12 ár.
Ég finn að sú mikla reynsla sem ég hef af sálgsæslu muni nýtast mér vel til starfsins eins og mér finnst það þjóna kirkjunni best.
Nú eru mikil tímamót í kirkjunni þar sem þrír nýir biskupar eru að taka við á skömmum tíma.  Einnig er það kirkjusögulegur stórviðburður að fyrsta konan skuli nú hljóta biskupsvígslu og tel ég afar mikilvægt að hún sé vígð til biskups Íslands.  Vil ég óska sr. Agnesi hjartanlega til hamingju með kjörið og óska henni allrar Guðs blessunar. 
Verði ég kjörinn vígslubiskup á Hólum mun ég fyrst og fremst leitast við að hlúa að starfsfólki kirkjunnar og fjölskyldum þeirra svo og sóknarnefndum  og því góða starfi sem unnið er í söfnuðum landsins.  Á Hólum er unnið mikið menningarstarf og mun reynsla mín af menningar- og fræðslustarfinu sem ég hef komið að hér á Möðruvöllum undan farin ár nýtast mér vel til að koma að því starfi.
Vígslubiskupsstarfið hefur hingað til mótast mjög af þeim sem þjónar starfinu hverju sinni þar sem starfinu eru enn ekki markaðar nákvæmar skorður.  Sé ég fram til þess að í framtíðinni mótist biskupsþjónustan í landinu mjög af því fólki sem nú tekur við.  Þar finnst mér eðlilegt að ákveðin verkefni sem unnin eru á Biskupsstofu flytjist að einhverju marki til stólanna í Skálholti og á Hólum þannig að starfið eflist og styrkist.


Þrjár spurningar frá ritstjóra Orðsins

Frambjóðendum til vígslubiskups á Hólum hafa borist þrjár spurningar frá Arnaldi Mána Finnssyni ritstjóra Orðisins.

Fyrsta spurningin er: Hvernig sérð þú fyrir þér að kirkjan komi að uppbyggingu ferðaþjónustunnar á Hólum í samstarfi við heimafólkið þar?

Svar: Á Hólum er gróskumikil ferðaþjónusta, sem ég sé fyrir mér að eigi aðeins eftir að aukast í framtíðinni.  Með tilkomu Héðinsfjarðargangna verður „Vesturhringurinn“ vinsælt ferðasvæði þar sem farþegar úr skemmtiferðaskipum munu bjóðast dagsferðir frá Akureyri, um Ólafsfjörð og Siglufjörð með viðkomu á Hólum.  Kirkjan og sagan talar þar sterkt til fólks og mun það geta orðið skemmtilegt samvinnuverkefni alls þess hæfileikríka fólks sem þjónar staðnum að taka á móti ferðafólki sem vill lifandi upplifun af staðnum t.d. með tónlist og helgihaldi.  Tröllaskaginn mun í framtíðinni verða heillandi vetrarparadís og þurfa Hólar að koma að þeim hugmyndum sem eru að fæðast varðandi þá þjónustu.  

Ég á mér þann draum að Hólar geti orðið miðstöð fræðslustarfs kirkjunnar.  Þangað gæti sóknarnefndarfólk og aðrir sem vinna sjálfboðin störf fyrir kirkjuna leitað næringar og fræðslu.  Þetta yrði að vera í samstarfi við Háskólann á Hólum svo samnýta mætti það húsnæði sem fyrir er á staðnum.

Önnur spurning varðar þá uppbyggingu sem hefur orðið um starf hr. Jóns Aðalsteins varðandi Hóla sem miðstöð miðaldatónlistar, Ríkinifélagið heldur þar árþing sitt og tónleikahaldi hefur verið sinnt allar helgar yfir sumartímann. Merkilegir fornleifauppgreftir bæði á staðnum og við Kolkuós styrkja þessar þreifingar – en um leið er þetta svipuð stefna og í Skálholti. Á Hólum eru merkir munir sem tengjast kaþólskum sið o.s.frv.
Hverjar eru þínar hugmyndir um stöðu Hóla í menningarlífinu?

Svar: Hólar eiga stóran þátt í allri Íslandssögunni, bæði frá miðöldum, eftir siðaskipti og í nútímanum.  Mikilvægt er að lyfta þeirri sögu upp bæði á sviði tónlistar, myndlistar, byggingarlistar og bókmennta.  Auðunarstofa er dæmi um afar vel heppnað tilgátuhús og gefur það innsýn inn í söguna hvað byggingarlist varðar.  Þannig má halda áfram að vinna eftir því sem hugmyndir fæðast við að gera söguna lifandi á staðnum og byggja ofan á það lifandi starf sem sr. Jón Aðalsteinn hefur byggt upp á staðnum

Þriðja og síðasta spurningin að þessu sinni varðar dreifðar byggðir Norðurlands og Austfjarða og allar þær kirkjumiðstöðvar sem raunar falla undir tilsjón biskups á svæðinu. Hvernig á að byggja þær upp í þessu árferði – eða hverja þeirra á að slá af svo að hinar verði byggðar upp með nokkrum sóma?

Svar: Kirkjumiðstöðvarnar í stiftinu eru lífæðar kirkjunnar, þó með ólíku móti sé.  Það hefur verið gaman að heyra hvernig Langamýri er að nýtast sem safnaðarheimili fyrir allan Skagafjörð.  Þar eru einnig haldin námskeið fyrir miklu stærra svæði og mikilvægt er að halda vel utan um það starf.  Vestmannsvatn þarfnast gagngerra endurbóta til að nýtast sem heilsárs kirkjumiðstöð allan ársins hring.  Hugmyndir hafa komið fram um að nýta kirkjujarðir í nágrenningu sem tekjulind til að byggja upp kirkjumiðstöðina.  Kirkjumiðstöðvarnar á Eiðum og á Eskifirði nýtast öllu Austurlandi þó á ólíkan hátt sé og haf þær verið reknar af heimsfólki af miklum myndarleik og sóma. Kirkjan þarf að hlúa vel að því starfi sem þar er unnið.

Viðtal í Feyki

Dreymir um að sjá fólk flykkjast til kirkju

Sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir.

Sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir.

Kjör til vígslubiskupsembættisins að Hólum fer fram um miðjan mánuðinn. Solveig Lára Guðmundsdóttir sóknarprestur á Möðruvöllum í Hörgárdal er ein af þeim sem gefur kost á sér til embættisins en hún hefur verið á ferðalagi um landið undanfarnar vikur. Blaðamaður Feykis hitti Solveigu Láru þegar hún átti leið um Skagafjörð á dögunum og spurði hana út í ævistarfið og draumsýn hennar fyrir Þjóðkirkjuna.  

„Ég er búin að starfa sem prestur í kirkjunni í 29 ár og nú langar mig að víkka út þjónustu mína fyrir kirkjuna,“segir Solveig Lára aðspurð um framboð hennar.

Hún starfaði sem prestur í Reykjavík og Seltjarnarnesi í 17 ár áður en hún tók við Möðruvallaprestakalli fyrir 12 árum síðan og segir að þessi starfsreynsla hennar í borg og í sveit muni nýtast henni vel í að þjóna vígslubiskupsembættinu á Hólum.

„Nú er að koma upp skemmtilegt tækifæri til að breyta verkaskiptingunni innan kirkjunnar og þá koma fram ýmis ný sóknartækifæri,“ segir Solveig Lára og vísar til þeirrar miklu endurnýjunar sem á sér nú stað innan Þjóðkirkjunnar þegar þrír nýir biskupar  taka við embætti, þ.e. vígslubiskup á Hólum og á Skálholti, og biskup Íslands.

„Ég myndi t.d. gjarnan vilja flytja ákveðin verkefni sem unnin eru á Biskupsstofu í Reykjavík aftur á gömlu biskupsstólana, þannig að starfið í stiftunum eflist og styrkist,“segir hún og tekur sem dæmi að hún telur að fræðslumálin væru vel geymd í höndum biskupsins á Hólum.

„Ég sé einnig fyrir mér að Hólar gætu hentað vel sem nokkurskonar miðstöð fyrir starfsfólk kirkjunnar. Þar gætu þau sótt fræðslu og þjálfun til að undirbúa þau undir hið mikla sjálfboðastarf sem þau hafa fyrir höndum,“ útskýrir Solveig Lára en hún segist leggja megináherslu á að hlúa vel að starfsfólki kirkjunnar og fjölskyldum þeirra, sem og sóknarnefndunum.

Sem fyrr segir hefur Solveig Lára verið á ferðalagi en hún hefur verið að heimsækja sóknarnefndarformenn vítt og breitt um landið. Þá hefur hún farið um alla Austfirðina, Norðausturland, Eyjafjörðinn og var stödd í Skagafirði í síðustu viku. Í þessari viku heimsækir hún sóknarnefndarformenn í Húnavatnssýslunum.

„Það hefur verið meiriháttar tækifæri fyrir mig að hitta allt þetta fólk og fá að skoða aðstæður á hverjum stað fyrir sig,“ segir Solveig Lára. Ferðalagið segir hún vera frábært veganesti fyrir hana yrði hún kjörin í embættið, bæði vegna þess að þá þekkir hún til fólks og aðbúnaðar í kirkjum af eigin raun. „Líka vegna þess að þá veit fólk sem hefur hitt mig að ég er af holdi og blóði og að þau geti leitað til mín,“ bætir hún við.

Solveig Lára segist lengi hafa fundið þessa köllun hjá sér og að hún sé reiðubúin að takast á við starfið. „Ég á mér draum að sjá fólk flykkjast brosandi til kirkju, syngja og klappa, og fara heim til sín aftur fyllt af gleði yfir því að Guð elskar það og er með því í öllu sem það tekur sér fyrir hendur.“

Solveig Lára hvetur fólk til að skoða heimasíðu sína sem er á slóðinni:www.solveiglara.net.

 

Stuðningur við barna- og æskulýðsstarf

Á síðast liðnu kirkjuþingi samþykktum við tillögu um að koma á fót Æskulýðsnefnd Þjóðkirkjunnar og nú er búið að skipa nefndina og ákveða fyrsta fundardaginn í lok maí.  Því ber að fagna á þessum fallegu vordögum sem við nú erum að upplifa.

Hlutverk nefndarinnar er fyrst og fremst að vera vettvangur fyrir umræðu um barna- og unglingastarf kirkjunnar um land allt, stöðu þess og þróun. Nefndin er biskupi, prófastsdæmum og öðrum þeim sem eiga fulltrúa í nefndinni til ráðgjafar og stuðnings um stefnu og mótun í æskulýðsstarfi kirkjunnar.

Nefndin á að leggja mat á stöðu starfsins heima í héraði sem og á landsvísu og skoða hvaða leiðir séu færar til að efla æskulýðsstarfið um land allt, hvort heldur það sé í gegnum samstarf við ýmsa aðila, gerð fræðsluefnis, námskeiðahald, fundi eða með hverjum þeim leiðum sem nefndarfólk sér færar. Þingsályktunin í heild sinni er aðgengileg á vef Kirkjuþings: http://kirkjuthing.is/gerdir/2011/21

Barna- og æskulýðsstarf er lang mikilvægasta starf sem kirkjan vinnur.  Þar er lagður grunnur að því gildismati sem einstaklingar samfélags okkar byggja á um alla framtið.  Sílækkandi sóknargjöld hafa því miður bitnað víða á barna- og æskulýðsstarfi og allt of mörg dæmi eru um að æskulýðsfulltrúum hefur verið sagt upp eða starfshlutfall þeirra dregið saman.

Það er von mín og bæn að hin nýskipaða nefnd sem í eru 20 fulltrúar 12 konur og 8 karlar og langflest af yngri kynslóðinni muni standa vörð um þetta mikilvægasta starf okkar.

Hvað eiga hrossamerkingamaður og hjúkrunarfræðingur sameiginlegt?

Fjárbóndi, kúabóndi, hrossabóndi, hrossamerkingamaður, kornræktandi, smiður, verkefnastjóri, aðstoðarskólastjóri, leikskólastjóri, verslunarkona, kennari, verkfræðingur, skólabílstjóri, hljóðfæraleikari, sjómaður, trillukarl, grásleppukarl. bifvélavirki, aðstoðarskólameistari, húsmóðir, organisti, póstur, laxeldi, skrifstofukona, verktaki, skólaliði, hótelstjóri, ferðaþjónustubóndi, safnvörður, kirkjuvörður, hjúkrunarfræðingur.

Hvað á allt þetta fólk sameiginlegt?

Það á það sameiginlegt að vinna í sjálfboðaliðavinnu fyrir kirkjuna sína og vera formenn sóknarnefnda sinna. Nú er ferð okkar að verða lokið milli sóknarnefndarfólks í Hólastifti. Við erum búin að koma inn á mörg heimili, en við erum líka búin að koma á marga vinnustaði.  Þá fáum við að sjá hversu ólík störf fólk er að vinna, þó þau eigi sér öll þetta sameiginlega áhugamál að vilja vinna fyrir kirkjuna sína.

Í gær hófum við daginn við morgunverðarborð á prestsetrinu á Melstað í Miðfirði, fórum svo í heimsókn í glæsilegt skrifstofuhúsnæði í safnaðarheimilinu á Hvammstanga.  Næst hittum við hrossabónda, sem vinnur í Straumsvík, þá komum við inn á mikið menningarheimili á kirkjustað í Svarfaðardal og enduðum daginn á því að fara ofan í glæsilegan mjaltabás í sama dal.

Alltaf hugsa ég eftir hvern dag:  Mikið er kirkjan rík af mannauði.