Viðtal í Feyki

Dreymir um að sjá fólk flykkjast til kirkju

Sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir.

Sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir.

Kjör til vígslubiskupsembættisins að Hólum fer fram um miðjan mánuðinn. Solveig Lára Guðmundsdóttir sóknarprestur á Möðruvöllum í Hörgárdal er ein af þeim sem gefur kost á sér til embættisins en hún hefur verið á ferðalagi um landið undanfarnar vikur. Blaðamaður Feykis hitti Solveigu Láru þegar hún átti leið um Skagafjörð á dögunum og spurði hana út í ævistarfið og draumsýn hennar fyrir Þjóðkirkjuna.  

„Ég er búin að starfa sem prestur í kirkjunni í 29 ár og nú langar mig að víkka út þjónustu mína fyrir kirkjuna,“segir Solveig Lára aðspurð um framboð hennar.

Hún starfaði sem prestur í Reykjavík og Seltjarnarnesi í 17 ár áður en hún tók við Möðruvallaprestakalli fyrir 12 árum síðan og segir að þessi starfsreynsla hennar í borg og í sveit muni nýtast henni vel í að þjóna vígslubiskupsembættinu á Hólum.

„Nú er að koma upp skemmtilegt tækifæri til að breyta verkaskiptingunni innan kirkjunnar og þá koma fram ýmis ný sóknartækifæri,“ segir Solveig Lára og vísar til þeirrar miklu endurnýjunar sem á sér nú stað innan Þjóðkirkjunnar þegar þrír nýir biskupar  taka við embætti, þ.e. vígslubiskup á Hólum og á Skálholti, og biskup Íslands.

„Ég myndi t.d. gjarnan vilja flytja ákveðin verkefni sem unnin eru á Biskupsstofu í Reykjavík aftur á gömlu biskupsstólana, þannig að starfið í stiftunum eflist og styrkist,“segir hún og tekur sem dæmi að hún telur að fræðslumálin væru vel geymd í höndum biskupsins á Hólum.

„Ég sé einnig fyrir mér að Hólar gætu hentað vel sem nokkurskonar miðstöð fyrir starfsfólk kirkjunnar. Þar gætu þau sótt fræðslu og þjálfun til að undirbúa þau undir hið mikla sjálfboðastarf sem þau hafa fyrir höndum,“ útskýrir Solveig Lára en hún segist leggja megináherslu á að hlúa vel að starfsfólki kirkjunnar og fjölskyldum þeirra, sem og sóknarnefndunum.

Sem fyrr segir hefur Solveig Lára verið á ferðalagi en hún hefur verið að heimsækja sóknarnefndarformenn vítt og breitt um landið. Þá hefur hún farið um alla Austfirðina, Norðausturland, Eyjafjörðinn og var stödd í Skagafirði í síðustu viku. Í þessari viku heimsækir hún sóknarnefndarformenn í Húnavatnssýslunum.

„Það hefur verið meiriháttar tækifæri fyrir mig að hitta allt þetta fólk og fá að skoða aðstæður á hverjum stað fyrir sig,“ segir Solveig Lára. Ferðalagið segir hún vera frábært veganesti fyrir hana yrði hún kjörin í embættið, bæði vegna þess að þá þekkir hún til fólks og aðbúnaðar í kirkjum af eigin raun. „Líka vegna þess að þá veit fólk sem hefur hitt mig að ég er af holdi og blóði og að þau geti leitað til mín,“ bætir hún við.

Solveig Lára segist lengi hafa fundið þessa köllun hjá sér og að hún sé reiðubúin að takast á við starfið. „Ég á mér draum að sjá fólk flykkjast brosandi til kirkju, syngja og klappa, og fara heim til sín aftur fyllt af gleði yfir því að Guð elskar það og er með því í öllu sem það tekur sér fyrir hendur.“

Solveig Lára hvetur fólk til að skoða heimasíðu sína sem er á slóðinni:www.solveiglara.net.

 
Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s