Guð elskar ykkur eins og þið eruð – fermingarræða á hvítasunnu

Kæru fermingarbörn, fjölskyldur og vinir!

Gleðilega hátíð og til hamingju með þennan fallega dag, sem Guð hefur gefið okkur.  Hvítasunnan er runnin upp sem við erum búin að vera að horfa til í allan vetur með mikilli tilhlökkun.

Við komum saman hér í kirkjunni í haust til kynningarguðsþjónustu þegar fermingarstörfin voru að byrja.  Þá var beðið fyrir ykkur öllum með nafni og þið fenguð afhendar Biblíur sem gjöf frá söfnuðinum.  Þær bænir voru heyrðar því Guð hefur vakað yfir ykkur í allan vetur og vakið trú í hjarta ykkar og Biblíurnar hafa verið lesnar því við flettum upp í þeim í tímunum og lærðum að finna ritningarstaði.

Mikið vatn er runnið til sjávar síðan.  Þið hafið þroskast mikið, lært mikið og verið sérstaklega áhugasöm.

Í dag er hvítasunnudagur og síðast liðnar vikur allt frá páskum höfum við haldið gleðidagana hátíðlega í kirkjunni.  Fyrir 10 dögum var uppstigningardagur, en þá minntumst við þess að Jesús fór með lærisveina sína upp á hátt fjall og fól þeim þetta mikla hlutverk að fara út um allan heim, gera allar þjóðir að lærisveinum og kenna þeim það sem hann hafði kennt þeim.  Þessi orð köllum við skírnarskipunia, en þau voru einmitt lesin þegar þið voruð skírð.  Lærisveinar Jesú tóku þetta hlutverk alvarlega þó þau vissu reyndar ekki alveg hvernig þau ættu að fara að því að uppfylla þetta mikla hlutverk.

Svo gerist það tíu dögum síðar og heilagur andi kemur yfir þau svo þau finna sterkan kraft til að fara og sinna þessu mikilvæga verkefni.  Heilagur andi er ósýnilegur kraftur og við höfum talað mikið um ósýnilega hluti í vetur.  Undanfarna daga höfum við fundið sterkt fyrir ósýnilegum krafti en það er vindurinn sem hefur feykt jarðvegi um alla sveit í miklu moldroki.  Vindurinn er ósýnilegur, en við finnum fyrir krafti hans.  Eins er rafmagnið ósýnilegt og þræðir internetsins og svo auðvitað sá andi sem ríkir meðal okkar.  Við finnum hvort það er góður andi í hóp eða slæmur andi í hóp.

Þannig er líka heilagur andi.  Hann lætur okkur finna fyrir nærveru Guðs

Hann lætur okkur finna fyrir styrk í sorg.  Hann lætur okkur finna að við erum ekki ein.  Hann lætur okkur finna fyrir bænheyrslu.

Heilagur andi vekur trúna í hjörtum okkar.

Ég get kennt ykkur ýmislegt um Jesú Krist, en ég get ekki látið ykkur trúa á hann.

Það er heilagur andi sem vekur trú á Jesú Krist í hjörtum okkar.

Í dag er stór dagur í lífi ykkar.  Í dag verðið þið spurð að því hvort þið viljið hafa Jesú Krist að leiðtoga lífs ykkar.  Um leið og þið svarið þvi játandi að fylgja honum þá lofar Jesús ykkur því  að fylgja ykkur.

Í dag fáið þið líka að ganga til altaris.  Þið fáið að taka þátt í máltíð, sem Jesús stofnaði við hina síðustu kvöldmáltíð.  Í brauði og víni tökum við á móti Jesú Kristi sjálfum á táknrænan hátt.  Við finnum fyrir fyrirgefningu hans, við finnum fyrir nærveru hans og við finnum fyrir samfélagi okkar á milli.

Kæru fermingarbörn!

Ég bið fyrir ykkur í dag.  Ég bið fyrir því að þið megið varðveita trúna í hjörtum ykkar.  Ég bið fyrir því að þið haldið áfram að rækta trúna og ég bið fyrir því að Guð varðveiti ykkur frá öllu illu.

Ég vona að þið eigið skemmtilegan dag og að þið munið eftir deginum alla ykkar ævi.  Það gera 50 ára fermingarbörn sem hafa komið hingað í dag til að halda upp á fermingarafmælið sitt.  Þau fermdust hér á Möðruvöllum á hvítasunnu árið 1962.  Þau voru 14 sem fermdust þennan dag og 13 þeirra eru á lífi.  Hér eru sex þeirra og hafa þau meðferðis gjöf til kirkjunnar sem gefin er í minningu Valgeirs  Stefánssonar, en hann lést í flugslysi tvítugur að aldri.  Kirkjunni hefur verið gefin gjöf á þessum fallega degi og þið munuð fá gjafir í dag og það var skemmtilegt að rétt áður en við gengum til kirkju áðan þá sýndi hann Þórður frá Þríhyrningi eða Doddi hringjari fermingarbörnunum úrið sem hann fékk í fermingargjöf fyrir 50 árum, en það gengur hann með dags daglega og hefur gert s.l. 50 ár.

Ég óska ykkur öllum innilega til hamingju og munið alla ævi að Guð elskar ykkur eins og þið eruð.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s