Greinasafn | júní 2012

Mikilvægt að fyrsti kvenbiskupinn sé Biskup Íslands

Á morgun sunnudaginn 24. júní verður góð vinkona mín sr. Agnes M. Sigurðardóttir vígð Biskup Íslands.  Við kynntumst strax haustið 1976 þegar ég hóf nám við guðfræðideild Háskóla Íslands.  Hún var þá á öðru ári í deildinni.  Strax þetta haust kynntumst við einu konunni sem hafði verið vígð prestur á Íslandi, en sr. Auður Eir hafði verið vígð sem sóknarprestur á Suðureyri við Súgandafjörð tveimur árum áður.

Sr. Auður safnaði okkur kvenguðfræðinemum fljótlega undir vængi sína og kenndi okkur kvennaguðfræði sem hún hafði lært úti í hinni stóru Evrópu, en þar hafði hún búið um skeið.  Þessi fræði hafði hún numið hjá Lúterska heimssambandinu og Alkirkjuráðinu, en báðar þessar stofnanir hafa mikinn metnað fyrir hönd kvenna innan kirkjunnar.

Þegar sr. Auður fékk vígslu lagði hún mikla áherslu á að hún fengi stöðu sóknarprests.  Henni hafði boðist bæði sjúkrahúspreststaða og fríkirkjuprestsstaða, en hún sagði hátt og snjallt.  Fyrsti kvenpresturinn verður að byrja sem sóknarprestur, annars verðum við alltaf í einhverjum aukastörfum.  Þegar ég vígðist nokkrum árum síðar sem aðstoðarprestur sagði hún að ég gæti þetta því þær voru búnar að ryðja brautina fyrir mig, en ég var sjötta konan sem vígðist.

Mér hefur svo oft verið hugsað til þessara orða undanfarnar vikur, en þá yfirfæri ég þessa hugsun yfir á biskupsþjónustuna.  Það er svo mikilvægt að fyrsta konan sem vígist biskup á Íslandi skuli vera vígð biskup Íslands, en ekki vígslubiskup.  Þetta segi ég í fullri einlægni því ef fyrsta konan hefði verið vígð vígslubiskup er hætta á því að við hefðum þurft að bíða lengi eftir því að kona yrði biskup Íslands.

Því er það með óendanlega mikilli gleði sem ég mun aka suður í sólskininu á eftir til að taka þátt í athöfn sem við konur í prestastétt og karlar og kirkjan öll hefur beðið eftir í áratugi.  Sunnudagurinn 24. júní verður mikill gleðidagur í íslensku Þjóðkirkjunni.  Guð blessi Agnesi. Guð blessi kirkjuna.

Auglýsingar

Halló Grímsey, halló Vestmannsvatn, halló Siglufjörður!

Hver verða fyrstu verk þín í embætti?   Þetta er spurning sem oft er spurð þegar stefnt er á nýtt starf. Ég var ákveðin í því allan tímann meðan ég var að ferðast milli söfnuða  Hólastiftis að ég myndi láta það verða mitt fyrsta verk að heimsækja söfnuðinn í Grímsey ef ég næði kjöri því þangað náði ég aldrei í kosningabaráttunni og hef reyndar aldrei komið þangað.

Það mun sem sagt verða eitt af mínum fyrstu verkum að heimsækja Grímsey, sem skartaði sínu fegursta við sjóndeildarhringinn í gærkveldi þegar við hjónin fórum í miðnætursólarferð til Siglufjarðar.

Í Hólastifti eru þrjú prófastsdæmi og í hverju prófastsdæmi eru kirkjumiðstöðvar, sem við höfum allar heimsótt og skoðað.  Þær eru til fyrirmyndar og stórkostlegt starf sem í þeim er unnið.  Við allt þetta starf hyggst ég styðja og leggja mitt af mörkum til að efla.  Það er hins vegar áberandi að Vestmannsvatn þarfnast mestrar lagfæringar við til að hægt sé að bjóða öllum aldurshópum að dvelja þar allan ársins hring.  Kirkjumiðstöðin á Vestmannsvatni verður 50 ára eftir tvö ár og tel ég mikilvægt að fyrir afmælið verði búið að gera þær lagfæringar sem miðstöðin þarfnast.  Mun ég leggja mitt af mörkum til að svo megi verða.

Dagurinn eftir kjörið var hins vegar ekki liðinn þegar mér barst fyrsta formlega erindið en það var að vera við kirkjuafmæli á Siglufirði sunnudaginn 2. september, en ef Guð lofar mun ég taka við embætti þann 1. september.

Siglufjörður skartaði sínu fegursta þegar við ókum þangað seint í gærkveldi.  Himinninn var heiður og fjörðurinn spegilsléttur.  Grímsey blasti við.  Miðnætursólin blindaði okkur við sjóndeildarhringinn.  Hvílík fegurð!  

Þakklæti til Guðs og frábærs fólks

Þakklæti er mér efst í huga þegar ég vakna til þessa sólríka dags hér á Möðruvöllum.  Ég þakka Guði fyrir að hafa leitt mig allt mitt líf.  Ég er þakklát fyrir að hafa átt foreldra sem leiddu mig í heimi bænarinnar og trúðu á að ég gæti tekist á við allt.  Þegar ég hóf nám við guðfræðideildina sagði pabbi: Þú verður Hólabiskup.  Þá var mikið hlegið.

Nú hefur hins vegar sá kirkjusögulegi atburður gerst að meiri hluti starfandi biskupa verða konur.  Ég er sannfærð um að það mun sjálfkrafa hafa breytingar í för með sér.  Hvaða breytingar það verða er ekki gott að segja.  Við sáum ekki fyrir hvaða breytingar yrðu á kirkjunni við það eitt að konur komu í prestastétt, en nú eru allir sammála um að það hefur breytt miklu.

Ein af þeim breytingum sem átt hafa sér stað í kirkjunni á undanförnum árum er að hún er að færast í átt að auknu lýðræði.  Nú hafa sóknarnefndir fengið að taka þátt í kjörinu og í því ferli sem fór fram fyrir vígslubiskupskosningarnar  kynntist ég öllu því stórkostlega fólki sem er að vinna fyrir kirkjuna um allt land.  Það er fyrst og fremst þeim að þakka að nú hafa tvær konur valist sem biskupar á Íslandi.

Takk, kæru kjörmenn fyrir góða þáttöku í kjörinu, en hún var 96%.  Takk fyrir að treysta mér til að starfa með ykkur á hinum kirkjulega vettvangi heima í héraði.  Takk fyrir að treysta mér til að starfa sem vígslubiskup heima á Hólum.

TTT-sumardvöl á Vestmannsvatni

Nú teljum við dagana þangað til við förum með TTT-krakkana okkar í sumardvölina á Vestmannsvatni.  Þetta er orðinn árlegur viðburður hjá okkur í samstarfi við Akureyrarkirkju og Laufásprestakall.  Dvölin hefst mánudaginn 11. júní og verður til föstudagsins 15. júní.  Löngu er orðið yfirfullt í sumardvölina, enda afar vinsælt og skemmtilegt að dvelja á þessum fallega stað.

Yfirskrift dvalarinnar í ár er náungakærleikur.  Við munum vinna með sögur guðspjallanna um miskunnsama Samverjann, Sakkeus og týnda soninn.  Börnin munu læra þessar sögur, leika þær og vinna með þær allan tímann, en dvölinni lýkur með guðsþjónustu í Þorgeirskrikju föstudaginn 15. júní kl. 12:30.  Þá munu börnin sýna afrakstur vinnunnar í leik og söng. Þangað eru allir velkomnir, en Þorgeirskirkja er í alfaraleið í Ljósavatnsskarði.

Barna- og unglingastarf kirkjunnar er það sem mér finnst mest gefandi af öllu því fjölbreytta starfi sem kirkjan vinnur.   TTT- starfið er þar efst á blaði því krakkar á aldrinum tíu til tólf ára eru á skemmtilegum aldri og svo móttækileg fyrir boðskapnum.

Vestmannsvatn er kjörinn staður fyrir slíka sumardvöl.  Þar er fallegt umhverfi, þar er vatn þar sem hægt er að fara út á báta og gróðursælt til að fara í gönguferðir með nesti og nýja skó.  Mér finnst afar mikilvægt að kirkjan hlúi að þessum fallega stað, en endurnýja þarf margt á staðnum svo hægt sé að nýta hann fyrir alla aldurshópa árið um kring.  Ég hef mikinn áhuga á að leggja mitt af mörkum þannig að svo megi vera.

Vestmannsvatn er kirkjumiðstöð á Norðurlandi sem við þurfum öll að hlúa að og þau sem hafa átt þar góðar stundir geta orðið vinir Vestmannsvatns, en sérstök síða er á facebook sem ber yfirskriftina Vinir Vestmannsvatns.  Þegar við hugsum um staðinn, biðjum fyrir honum og leggjum okkar að mörkum við uppbygginguna þá verður draumur okkar um betri kirkjumiðstöð á Vestmannsvatni að veruleika.

Kærar þakkir fyrir stuðninginn

Nú er fyrri umferð vígslubiskupskjörsins á Hólum lokið og niðurstöður komnar.  Eftir niðurstöðuna er mér efst í huga innilegt þakklæti fyrir þann mikla stuðning sem mér hefur verið sýndur.  Ég fékk 76 atkvæði, sr. Kristján 57 og sr. Gunnlaugur 27. Því verður kosið aftur milli mín og sr. Kristjáns.  Kjörseðlar fara í póst í næstu viku, skiladagur er 13. júní og talið verður 20. júní. Þá verður bjartur dagur, sumarsólstöður og stutt í að fyrsta konan verði vígð til biskupsembættis á Íslandi, en sr. Agnes verður vígð þann 24. júní n.k.

Kjörsókn var góð í fyrri umferð eða 93%.  Þó vakti athygli hversu margir seðlar voru ógildir.  Það stafaði af því að annars vegar lagði fólk kjörseðilinn beint í brúna umslagið eða setti staðfestingu um kosningu með í atkvæðaumslagið.  Til að forðast þetta í seinni umferðinni er mikilvægt að fólk lesi leiðbeiningarnar sem fylgja atkvæðaseðlinum mjög vel.

Nú þegar seinni umferð er hafin bið ég fólk að lesa vel þá pistla sem ég hef skrifa hér á heimsíðu mína.  Hér hef ég skrifað um mikilvægi Hólastaðar, áherslu mína á að hlúa vel að því góða starfi sem unnið er í söfnuðum í hinum dreifðu byggðum stiftisins og hversu mikilvægt það er að standa fast á þeim kærleiksboðskap sem Kristur hefur kallað okkur til að flytja í heiminum.

Auk þess er velkomið að senda mér tölvupóst á srslara@ismennt.is eða hringja í mig í síma 462 1963 eða 898 4640.

Guð geymi ykkur og blessi ykkur öll.