Greinasafn | júlí 2012

Friðarsinninn og mannréttindafrömuðurinn Bob Dylan

Það er sumarkvöld í sveit. Við njótum þess að grilla með fjölskyldu og vinum í fallegum skógi. Á netinu er auglýst Bob Dylan messa í Þorgeirskirkju á sunnudagskvöldi.  Sumarkirkjan lifandi að starfi.  Í kvöldsólinni ökum við sem leið liggur að þessari óvenjulegu kirkju.  Bílastæðið er fullt og þegar við stígum út úr bílnum ómar kunnugleg tónlist.

Kirkjuklukkum er hringt og presturinn les hugleiðinga Bob Dylan um kirkjuklukknahljóm.  Meira er sungið og lesnir ritningarlestrar sem hafa innblásið ljóðalist friðarsinnans og mannréttindafrömuðarins.  Listamenn í heimsklassa leika tónlist Bob Dylan undir dyggri stjórn Snorra Guðvarðarsonar, sem tengsit kirkjunni sterkum böndum bæði sem tónlistarmaður og kirkjumálari.

En af hverju Bob Dylan messa? Bob Dylan er gyðingur sem tók kristna trú.  Hann á í hjarta sér lifandi trú á frelsarann Jesú Krist.  Hann hefur samið mörg trúarljóð og gefið út plötu sem eingöngu var með trúarljóðum.  En Bob Dylan er ekki aðeins frægur fyrir ljóð sín og tónlist.  Hann er friðarsinni og mannréttindafrömuður.

Kristin trú hefur áhrif á allt líf okkar.  Trúin mótar hugsjónir okkar og áhugamál.  Jesús boðaði frið í samskiptum fólks og lagði mikla áherslu á að við öll erum sköpuð jöfn inn í þennan heim og erum öll jafndýrmæt í augum Guðs.  Kristin trú er því grundvöllur mannréttindabaráttu og baráttu fyrir friði í heiminum.

Þessi boðskapur var skýr í messunni í Þorgeirskirkju í gærkveldi.  Þar lagði sr. Bolli Pétur Bollason prestur Þorgeirskirkju áherslu á þetta samhengi trúar og hugsjóna.

Að lokinni messu var sólin enn á vesturhimninum og fólksfjöldinn sem fyllti bæði kirkjuna og safnaðarheimilið gekk léttstígt út í sumarkvöldið og ég fylltist þeirri sannfæringu að þau sem fengu að njóta þessarar sérstöku stundar væru staðráðin í að gera heiminn örlítið betri í dag en hann var í gær.

Auglýsingar

Sumar á Hlíð

Það er hæð yfir landinu og heil sól um allt land.  Hægur vindur alls staðar og börn og fullorðnir njóta veðurblíðunnar. 

Ég byrja daginn snemma og ek inn á Akureyri og stöðva bílinn fyrir utan Dvalarheimili aldraðra, Hlíð.   Þar er helgistund alla miðvikudaga kl. 11:00 og vel mætt.  Starfsfólk er á þönum við að koma sínu fólki fyrir í salnum.

Við hefjum stundina á að syngja Dýrðlegt kemur sumar, við signum okkur og biðjum.

Ég les guðspjall síðasta sunnudags um fiskidrátt Péturs í Lúkasarguðspjalli 5. kafla, fyrstu 11 versin.

Það er margt sem kemur í hugann við lestur þessa guðspjalls.  Fyrst er það kraftaverkið.  Vinir Jesú höfðu stritað alla nóttina og ekki orðið varir.  Jesús segir þeim að leggja netin aftur og þá fyllast þau.

Ég segi þeim:

Stundum er þetta svona í lífinu.  Við erum að glíma við erfið verkefni.  Við höfum áhyggjur af  heilsunni eða erum að stríða við verki og gigt um allan kroppinn.  Það eru svo mörg vandamálin og viðfangsefnin sem við erum að glíma við svona dags daglega. 

Ég segi vinum mínum að guðspjallið minni okkur á að leggja hvern dag og hvert verk í hendur Jesú og þá verði það svo miklu auðveldara.  Við gleymum því svo oft að Jesús er með okkur og er tilbúinn að hjálpa okkur.  Það eitt að vita af nærveru hans gerir lífið léttara.

Ég spyr þau hvort orð Jesú úr guðspjallinu hljómi ekki kunnuglega:  “Legg þú á djúpið”. 

Munið þið ekki eftir sálminum fallega sem hefst á þessum orðum?  Var hann ekki sunginn í fermingunni ykkar?  Sumir kinka kolli.

Ég minni þau á að í þá daga hafði fermingin ennþá dýpri merkingu því þá markaði hún upphaf fullorðinsáranna í alvöru.  Ég sagði þeim frá því að fyrir nokkrum árum jarðsöng ég mann sem hafði fengið undanþágu til að fermast einu ári fyrr svo hann gæti farið að vinna fyrir sér.  Já, við ferminguna urðu börn að vinnuafli.

Nú er þessu háttað á annan veg.  Í vor var ég við skólaslit Þelamerkurskóla.  Þar talaði skólastjórinn til 10. bekkinga sem voru að yfirgefa skólann og fara í framhaldsskóla í haust.  Hún sagði eitthvað á þá leið og krakkarnir skyldu muna það að þau gætu mótað framtíðina.  Framtíðin kæmi ekki bara yfir þau eins og alda, heldur hefðu þau hana í hendi sér og bæru ábyrgð á að móta hana.

Ég varpaði þeirri spurningu til vina minna á Hlíð hvort þau skyldu hafa gert sér grein fyrir því þegar þau fermdust að þau gætu mótað framtíð sína.  “Alla veganna, held ég að þið hafið ekki getað ímyndað ykkur þegar þið fermdust að lífið yrði eins og það hefur verið” sagði ég við þessa kynslóð sem hefur upplifað meiri breytingar heldur en nokkur önnur kynslóð hingað til.

Eftir þessa litlu hugleiðingu sungum við fleiri sálma og báðum örlítið meira. Fólkið þáði blessun Drottins og svo gekk ég út að dyrunum og kvaddi.

Ég sá gamlan vin minn spjalla við konu í hjólastól og aka henni síðan til mín.  Hann sagði:  “Ég hitti hérna gamla fermingarsystur mina. Við fermdumst lýðveldisárið 1944. Bráðum eigum við 70 ára fermingarafmæli.” Svo hlógu þau bæði og ég gekk út í sólskinið.  Ég fór heim að taka upp rabbarbara í sultu af því að á morgun ætla ég að baka hjónabandssælu.  Þá verður erindi í Leikhúsinu á Möðruvöllum um garðablómin í sveitinni.  Kaffi og glæný hjónabandssæla á eftir.

Opnið kirkjur allar

Opnið kirkjur allar!

Svona hefst fallegur lofgjörðarsálmur eftir Gylfa Gröndal og er í sálmabókinni okkar.
Opnið kirkjur allar!
Opnið huga minn!
Kristur til mín kallar:
Kom þú hingað inn.
Mér verður oft hugsað til þessara orða sálmsins þegar ferðafólk þakkar mér fyrir að hafa kirkjuna á Möðruvöllum opna. Þar er mikill ferðamannstraumur fólks af öllum þjóðernum. Fyrst fannst mér algengast að Íslendingar og Þjóðverjar væru á ferð, fólk sem þekkti sögu staðarins og langaði að koma á þennan sögufræga stað.
Nú koma í auknum mæli  fólk frá öllum heimshornum  sem vilja skoða helgidóma okkar, njóta kyrrðar og nærveru Guðs á sérstakan hátt.
Þegar við erum í sumarleyfi höfum við meiri tíma en endranær til að íhuga líf okkar og hvaða stefnu það er að taka.  Til þeirrar íhugunar er tilvalið að koma til kirkju.
Allt of oft fáum við að heyra að sorglegt sé hve margar kirkjur séu læstar á Íslandi. Varðandi þetta þurfum við að gera átak.  Við þurfum að finna fólk í söfnuðunum vítt og breitt um sveitir sem er tilbúið til að verja hluta úr degi í kirkjunni sinni til að sýna hana og vakta.
Kirkjurnar okkar út á ystu nesjum og inn í þröngum dölum eru mikil gersemi og varðveita  muni sem eru allri þjóðinni dýrmætir. Þeim má ekki glata eða taka þá áhættu að þeim verði stolið.  En við verðum að leyfa þjóðinni að njóta þeirra.
Því skulum við taka höndum saman um að hafa kirkjurnar okkar opnar einhvern hluta dagsins eða í það minnsta hafa sýnilegar upplýsingar um hver geti opnað fyrir ferðafólki.
Opnum kirkjurnar því það er Kristur sem kallar okkur til fundar við sig.
Kristur til mín kallar:
Kom þú hingað inn.

Íslenska sumarkirkjan til sveita

Nú er sumar og við gleðjumst öll yfir hlýjum vindum og sólskini allan sólarhringinn.  Sum okkar eru komin í sumarfrí og njóta því íslenska sumarsins enn betur en við hin.  Alltaf eru einhverjir sem fara til útlanda yfir sumarið, en þó eru fleiri og fleiri sem njóta íslenska sumarsins og skoða nýja og gamla staði.

Á ferð um landið er margt í boði.  Bæjarhátíðum fer fjölgandi, boðið er upp á veiði og golfvelli, hestamannmót og íþróttamót.  Afþreying er endalaus og svo eru það auðvitað margir sem elska að ganga á fjöll og njóta kyrrðar hálendisins.

Kirkjan okkar hefur upp á mikið að bjóða allan ársins hring.  Þau sem ferðast um landið hafa gaman af því að skoða kirkjur og kirkjugarða, en það er líka furðumargt í boði af lifandi starfi í kirkjunum yfir sumartímann.  Í kirkjum í þéttbýli er messað allan ársins hring og þar er líka boðið upp á fjölbreytt starf fyrir börn.

Kirkjan til sveita hefur líka fjölbreytt sumarstarf.  Ef  við skoðum aðeins örlítið brot af því, má sjá að í gær var menningarstund í Laufási þar sem minnst var skáldanna frá Laufási http://laufasinn.is/2012/06/kveðskapur-laufassklerka/ . Í lítilli torfkirkju Grafarkirkju í Skagafirði var kvöldmessa í gærkveldi þar sem vígslubiskup predikaði og boðið var upp á kirkjukaffi undir kirkjuvegg á eftir í kvöldsólinni.  Söfnuðir Ólafsfjarðar, Siglufjarðar, Dalvíkur og Hríseyjar messuðu saman í Hóladómkirkju, en þar hafa verið barokkdagar undanafarna daga.

Sumarkirkjan býður ferðafólk velkomið í vegkirkjuna í Þorgeirskirkju alla daga kl. 10-16.  Þar er tónlist allan daginn, kveikt á kertum og boðið upp á kaffisopa og leiðsögn. Í Illugastaðakirkju í Fnjóskadal eru helgistundir fyrir sumarhúsagesti öll þriðjudagskvöld kl. 20:00.

Þetta er aðeins brot af því sem sumarkirkjan er að gera til sveita.  Þegar við ferðumst um landið skulum við fylgjast með og sjá hvað þær kirkjur eru að bjóða upp á þar sem við finnum okkur gististað.