Sjálfskilningur – siðfræði og sjálfsmynd

 

 

Hugleiðingar um 4. kafla bókarinnar Kristin trú eftir Halvor Moxnes.

 

Þegar spurt er um grundvöll kristinnar siðfræði er gjarnan litið til fjallræðunnar og þá aðallega hinnar svo kölluðu gullnu reglu:  Allt sem þið viljið að aðrir menn gjöri ykkur það skulið þið og þeim gjöra og til orða Krists í 25. kafla Matteusarguðspjalls þegar  Jesús segir: Það allt sem þið gerið einum minna minnstu bræðra og systra það gerið þið mér.

Þannig er annars vegar áhersla á að gera ekkert sem við vildum ekki að okkur væri gert og hins vegar að sjá alltaf Jesú í þeim sem er hjálpar þurfi.  Einnig er í kristinni siðfræði lögð áhersla á tvöfalda kærleiksboðorðið um að elska Guð og náungann.  Þannig er horft til tákns krossins, bæði hins lóðrétta áss, sem táknar samband okkar við Guð, bænasamfélagið og hins lárétta áss, sem táknar samband okkar við náungann.  Svo er hægt að spyrja endalaust um það hver sé náungi okkar.  Jesús svaraði þeirri spurningu með sögunni um miskunnsama Samverjann og bendir þannig á að náungi okkar séu öll þau sem eru hjálpar þurfi.  Í þeirri dæmisögu svarar hann ekki spurningunni um það hvort við eigum að elska óvini okkar, en segir það þó fullum fetum í fjallræðunni.

 

En lítum þá á efnistök Halvor Moxnes:

Hann bendir á að Jesús hafi valdið uppnámi í samfélagi sínu með boðskap sínum sem allur var á skjön við ríkjandi hefðir.  Hann kallar fólk til fylgdar við sig, fólk sem var í önnum hvers dagsins við að afla sjálfum sér og fjölskyldunni lífsviðurværis.  Hann kalla á fiskimenn og segir þeim að láta af iðju sinni og hann muni láta þá veiða menn. Þetta hlýtur að hafa hljómað byltingakennt í eyrum þeirra sem á hlýddu ef ekki næstum brjálæðislegt. Hann kallar konur til að hlusta á boðskap sinn sem var algerlega gegn ríkjandi hefðum og segir þeim að nauðsynlegra sé að hlýða á hann en að þjóna þörfum karla eins og sagan af Mörtu og Maríu sýnir okkur svo greinilega.  Hann hvetur fólk til að afneita sjálfum sér, taka upp kross sinn og fylgja sér. 

Sennilegt er að þessi setning Jesú sé skrifuð af guðspjallamanninum í ljósi þeirrar staðreyndar og Jesús dó á krossi.  Kristin siðfræði hefur ekki lagt mikla áherslu á þennan þátt eftirfylgdarinnar  og reyndar hvergi lögð áhersla á þennan þátt í neinum kirkjulegum athöfnum nema biskupsvígslunni, þegar tákn krossins er lagt um háls vígsluþega þá eru höfð eftir þessi orð:  Drottinn Jesús segir: Sá sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki upp kross sinn og fylgi mér.

Þessi orð beinast að sjálfsmyndinni sem vísar til þess að þegar við fylgjum Jesú, þá verði breyting á okkur, við verðum nýjar manneskjur,  eins og sagt er við vígsluþegann: Íklæðist Drottni Jesú Kristi, endurnýist í anda hugskots yðar og íklæðist hinum nýja manni, sem er skapaður eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.

 

Að fylgja Jesú mótar manneskjuna á alla lund og verður til nýr sjálfsskilningur segir Moxnes. Að taka upp kross sinn vísar eins og áður sagði til þess að Jesús bar krossinn á aftökustað sinn.

Þannig er lögð áhersla á að við það að öðlast kristinn mannsskilning þá breytist allt lífið.

Páll postuli lagði áherslu á það í bréfum sínum að það að vera Kristin manneskja væri að trúa og lagði þar með áherslu á trú sem andstæðu verkanna.  Þar sem Páll var farísei en það var hópur manna sem lögðu aðaláherlsuna á að fylgja lögmálinu og gera allt rétt, þá setur Páll fram hinn nýja mannskilning þannig að áherslan er á trúna sem andstæðu verkanna.

 

En hvað þýðir þá sögnin að trúa?

1. Telja eitthvað vera satt

2. Treysta á einhvern

3. Að heyra eða hlusta eftir – tileinka sér eitthvað

 

Þýski guðfræðingurinn Friedrich Schleiermacher skrifaði bók sem heitir Kristin trú og var reyndar kveikjan að bók Moxnes.  Hann leit  þannig á að kjarni kristindómsins væri persónuleg trú en ekki kenning og er þar af leiðandi á línu Páls postula, nema andstæðurnar sem Schleiermacher setur fram eru persónuleg trú og áhersla á helgisiði.  Þetta hafa ýmsar heittrúarstefnur tekið upp á sína arma eins og indre missionin í Noregi sem leggur áherslu á að vera “personelig kristen” og söfnuður í Ameríku sem tala um “born again Christians”. 

Í kaþólsku kirkjunni og rétttrúnaðarkirkjunni er mikil áhersla á helgisiði og einnig hefur sú þróun orðið í mótmælendakirkjum víða á Norðurlöndum, sem hafa orðið hákirkjulegar.  Það má rekja til þessarar þróunar að margir Íslendingar hafa farið að líta á það sem íslenskan sið að skíra börnin sín og láta ferma þau þó þau myndu ekki kalla sig trúuð.  Þarna skiptir formið máli þó innihaldið sé á reiki.  Eins er með allan þann fjölda sem fer í kristnar útfarir og jafnvel þau sem ekki eru kristin óska eftir þvi að vera kvöldd frá kirkju.  Umræður hafa líka skapast um það hvernig eigi að mæta þörfum folks sem vill gifta sig í kirkju og fá prest til athafnarinnar, en vill ekkert hafa með kristinn boðskap eða bænahald að gera.  Öllum slíkum þörfum þarf að mæta af sanngirni og skilningi án þess að við fletjum út allt það sem kirkjan stendur fyrir.  Hyggilegast væri að skoða hvernig Kristur sjálfur hefði brugðist við slíkum aðstæðum og fylgja síðna honum, en það er kjörorð Moxnes í siðfræði hans: að fylgja Jesú.

En skoðum betur hvað það þýðir að fylga Jesú.  Það er ekki eitthvað sem gerist í eitt skipti fyrir öll, heldur er líkara hreyfingu sem stefnir í ákveðna átt og við það vakna ögrandi spurningar eins og : Hver viljum við vera? Hvert viljum við fara? Og að síðustu: Hvar er Jesús sem kallar okkur til þessarar fylgdar?

 

Áskorun fjallræðunnar.

Eins og ég gat um í upphafi hefur oft verið bent á fjallræðuna þegar spurt er um kristna siðfræði.  Fjallræðan er í öllum hinum samstofna guðspjöllum, Mattheusi, Markúsi og Lúkasi, en í Mattheusarguðspjalli er hún heillegust og því er oftast vísað til 5, 6. og 7. kafla þess guðspjalls þegar talað er um fjallræðuna..

Hún hefst á sæluboðunum sem eru svo byltingarkennd samfélagslega séð að við þurfum helst að gleyma því að við höfum lært þau sem börn.  Sæluboðin snúast nefnilega um það hvernig heimurinn geti snúið við af braut sinni, en það verður að gerast til að réttlætinu verði fullnægt gagnvart fátækum, syrgjendum, hógværum, hungruðum, hjartahreinum og friðflytjendum.  Í sæluboðunum kemur fram sýn um hvernig Guð muni skapa nýjan heim…þar sem möguleiki er á því að vera fullkomin og miskunnsöm eins og Guð sjálfur.

Fjallræðan grípur á gyðinglegum málefnum og svarar ýmsum deilumálum sem uppi voru á dögum Jesú.  Þannig er þung gagnrýni á yfirboðslega hlýðni við lögmálið og gagnrýni á form án innihalds.  Þessa gagnrýni verðum við að taka til okkar og tilhneigingu okkar til leggja áherslu á form og helgisiði í stað þess að líta á orð Jesú sem gagnrýni á gyðinga og þeirra yfirborðsmennsku.

Jesús beinir athyglinni að því sem honum finnst skipta mestu máli, en það snýr að hugsunum, tilgangi og hjartanu og þar með tilfinningunum.

Athyglin beinist frá eigin hag að hinu hreina hjarta.  Áherslan er á ábyrgð gagnvart öðrum og þá erum við koma að tvöfalda kærleiksboðorðin um að elska Guð og náungann.

Afstaðan sem við verðum að taka er ekki gagnvart lögum, reglum og helgisiðum heldur gagnvart annarri manneskju.  Inntakið í orðinu að elska hjá Jesú snýst ekki um samúð, heldur að koma raunverulega til hjálpar eins og sagan um miskunnsama Samverjann felur í sér.

Moxnes orðar þetta á þennan hátt: Þegar manneskja stendur fyrir framan mig, manneskja af holdi og blóði þá get ég ekki haldið henni í fjarlægð, nema að svíkja um leið sjálfa mig.

Köllun hins kristna manns er alltaf þessi.  Aðrir eiga kröfu á hendur mér!

Og krafa Jesú er að elska réttláta og óréttláta.  Þessi óskiljanlega krafa um að elska óvini okkar (Matt. 5:44)

Þetta er hugsýn sem þau ein geta tileinkað sér sem þiggja þann kraft sem Jesús gefur þeim og breytir þannig sjálfsskilningi þeirra..

Þetta ásamt fleiri fyrirmælum úr fjallræðunni sýnir að ekki er hægt að setja upp eftir þeim siðfeðissreglur.  Það er ekki hægt að fara eftir þeim nema orðin “fylg þú mér” séu manni ljós.

Fyrirmæli fjallræðunnar eru þó ekki sett þannig fram að þau séu ætluð hópi útvaldra, heldur eru þau hvatning til allra.

 

Helgisiðir og nýr sjálfsskiningur

 

Þegar kristindómurinn varð til eftir upprisu Jesú og hvítasunnuundrið sem oft er kallað upphaf kristinnar kirkju þá urðu smám saman til helgisiðir, alveg nýir helgisiðir, ólíkir hinum gyðinglegu og lögðu hinir nýju siðir áherslu á hinn nýja sjálfsskilning sem þau höfðu öðlast sem tóku orðin alvarlega um að fylgja Jesú.  Mjög snemma voru það aðallega tvær athafnir sem áherslan var lögð á og voru alveg nýjar.  Það voru skírn og heilög kvöldmáltíð. Þessar athafnir eru enn það dag í dag þungamiðja í kristnum trúfélögum.

Næstu kynslóðir, sem ekki höfðu haft tækifæri til að taka áskorun Jesú um að fylgja sér gátu gert það með táknrænum hætti með því að umbylta lífi sínu, breyta lífsháttum sínum og samlagast nýjum félagsskap í fylgd með Jesú.  Þarna kom skírnin sterk inn sem táknrænn atburður í lífi manneskjunnar sem markaði upphaf fylgdarinnar við Jesú.

Á fyrstu áratugunum var áhersla á niðurdýfingarskírn til að leggja áherslu á að upp úr vatninu stígi nýr maður.  Þá var áherslan á að hinni gamli maður mundi deyja og vera greftraður með Jesú og rísa upp úr skírnarlauginni sem nýr upprisinn maður.  Þannig urðu þau trúuðu eitt í Kristi og voru skírð til Krists Jesú.

Þetta dulúðuglega tungutak er algerlega óskiljanlegt kristnu fólki í dag.  Að reyna að útskýra það fyrir foreldrum skírnarbarna þegar undirbúningur skírnar fer fram að barnið deyi í skírninni og rísi upp aftur með Kristi er ógerlegt.  Þessi hugsun er okkur svo fjarlæg að finna verður nýtt tungutak til að útskýra fyrir fólki hvað það er sem gerist í raun og veru í skírninni.  Að segja fólki að Jesús taki barnið að sér og verndi það alla tíð er fólki miklu skiljanlegra.  Að segja fólki að signingin sé merki Jesú á barninu höfðar til reynsluheims þeirra sem merkja sér eigur sínar í þessu samfélagi.  Mikilvægt er að þau sem annast skírnarfræðslu séu sér meðvituð um þetta til þess að skírnin verði ekki innihaldslaus siður sem tengist nafngift, en verði heldur ekki svo torskilin að merkingin fari fyrir ofan garð og neðan.  Ef við notum óskiljanlega hugtakanotkun er meiri hætta á því að fólk festist í forminu og innihaldið fari lönd og leið.

En víkjum okkur þá að hinni heilögu kvöldmáltíð.  Í henni hefur alla tíð verið lögð áhersla á samfélagið.  Kvöldmáltíðin er framhald hinnar síðustu kvöldmáltíðar Jesú þar sem hann segir:  “Gerið þetta þegar þið minnist mín”.  Páll postuli fer síðan í bréfum sínum að tala um samfélagið sem líkama þar sem við erum öll með mismunandi hlutverk, eyru, augu, hendur og fætur.  Þetta yfirfærir Páll á samfélagsmáltíðina og segir brauðið veita hlutdeild í líkama Krists og þau sem taki þátt í máltíðinni verði limir á þessum líkama.  Hópurinn verður í máltíðinni hluti af líkama Jesú.  Hér verðum við einnig að vanda tungutakið svo innihaldið verði skiljanlegt.  Þegar við erum öll limir á saman líkama þá verðum við að bera umhyggju hvert fyrir öðru.  Fóturinn getur ekki án eyrans verið og höndin án augans.  Þetta var þekkt samlíking um samfélag á dögum Páls.  Sterk mynd til að leggja áherslu á einingu samfélagsins.

Þessi samfélagslegi þáttur kvöldmáltíðarinnar er misjafnlega mikið áhersluatriði hjá kristnum kirkjudeildum.  Hjá mörgum þeirra er meginþunginn á efnunum, brauðinu og víninu, sem tákni um líkamalegan dauða Jesú, fórnardauðann, sem svo erfitt er að skilja fyrir fólk sem ekki er alið upp í samfélagi þar sem sláturfórnir og brennifórnir voru hluti að helgihaldi samfélagsins.

 Með þessari áherslu á fórnardauðann í kvöldmáltíðinni er fyrirgefning syndanna í brennipunkti, en ekki samfélagið.  Ef við lítum til kirkjulífs á Íslandi var það einmitt þessi skilningur á kvöldmáltíðinni sem varð til þess að kvöldmáltíðin nánast lagðist af í íslenskum kirkjum nema um fermingar.  Þetta var líka aðalástæða þess að þátttaka í kvöldmáltíðinni er ekki ennþá almenn, þó fólk komi til kirkju þar sem kvöldmáltíðin er höfð um hönd.  Sagnir eins og: “ég þarf nú ekki alltaf að vera að fá fyrirgefningu synda minna” heyrast oft og eins:  “það þarf nú að vera sérstaklt tilefni til að ég komi til altaris” og “hátíðleikinn hverfur af kvöldmáltíðinni ef alltaf er verið að ganga til altaris”.

Sú áhersla sem hefur verið í íslenskum söfnuðum síðustu áratugina á samfélagið hefur gert það að verkum að þátttaka í hinni heilögu kvöldmáltíð er orðin almennari.  Fólk kemur til altaris til að taka þátt og styrkja trú sína á Guð, skilja eftir áhyggjur sínar og fá kraft til áframhaldandi lífs í nýrri vinnuviku.  Þetta er innihald kvöldmáltíðarinnar sem fólk skilur.

 

Manneskja frá skírn til greftrunar.

 

Afhelgun eða veraldarhyggja er það sem einkennir samfélag okkar í stórum dráttum.  Hinn trúarlegi þáttur er ekki í brennidepli í stjórnmálum eða fjölmiðlum.  Þrátt fyrir það að við séum nýlega búin að fara í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem meiri hluti þjóðarinnar vill hafa ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskránni, þá getum við öll verið sammála um að veraldarhyggjan hefur verið ríkjandi í samfélagi okkar síðustu áratugi.  Hvað varðar vilja folks með stjórnarskrárákvæðið þá felur það fyrist og fremst í sér formið og um innihaldið vitum við lítið.  Hvað það merkir í hugum fólks að það vilji hafa þjóðkirkjuna í stjórnarskránni sýnist mér snúast um það að fólk vill hafa kirkjuna á sínum stað og geta leitað til hennar þegar það þarf á að halda.  Meiri hluti þjóðarinnar villa ð þjóðkirkjan þjóni allri þjóðinni og dekki allt landið og það eru góð skilaboð til kirkjunnar þó við starfsfólk hennar hefðum viljað sjá þessu 53% aktívari í kirkjustarfinu. 

En hvað þýðir þá afhelgun eða veraldarhyggja.  Afhelgunin felst í því að fólk alla jafna tekur ekki þátt í reglubundnu helgihaldi og skólar kenna ekki upp til hópa kristin fræði.  Það hefur það í för með sér að börn alast upp við það að þekkja ekki biblíusögur, sögur sem sýna okkur hvernig við eigum að koma fram við náunga okkar.  Meginástæða afhelgunar er ekki að önnur trúarbrögð hafi rutt sér til rúms í okkar kristna menningarheimi, þó fjöldi fólks hafi flutt til Evrópu frá löndum þar sem Islam, Búddatrú og hindúismi eru ríkjandi.  Ástæðuna má miklu frekar rekja til ákveðinnar tæknihyggju, rof frá náttúrunni og hugmynda um að hver sé sjálfum sér nógur.

En hvað einkennir samfélag okkar sem hefur kristna þætti í uppbyggingu í stjórnarskrám og lögum, en þjóðfélagsþegnarnir eru afhelgaðir?  Ef við skoðum heiminn sjáum við að hinn vestræni kristni heimur eru heimur velfeðar en um leið heimur velmegunar og ofneyslu.  Hann er heimur þar sem tryggingar og samhjálp skattborgarana  á að sjá um menntun og heilbrigði, en samt sem áður blasir við fátækt víða í okkar heimi. 

Eitt af því sem við þurfum að skoða vel þegar talað er um merkingu í vestrænum heimi og það er orðfæri fjölmiðla.  Orðfæri stjórnmálamann og hagfræðinga er oft illskiljanlegt venjulegu fólki.  Við þurfum á því að halda að skilja og túlka heiminn eins og Moxnes segir:   “Keisarinn er ekki í neinum fötum”.  Að við með öðrum orðum þorum að viðurkenna að við sjáum hlutina með okkar eigin augum, hugsum gangrýna hugsun og þorum að koma henni á framfæri. 

Það var það sem gerðist þegar Jesúbarnið fæddist að Guð afhjúpaði þig sem lítið barn, en lítil börn eru í raun og veru eina von heimsins um frið á jörðu en ekki einhverjar stjórnmálastefnur eða hagfræðiformúlur um framboð og eftirspurn. 

Til að finna merkingu í heiminum þurfum við að horfa til listarinnar, leiklistar, tónlistar, ljóðlistar, myndlistar og kvikmyndagerðar.  Þetta eru þeir kraftar sem tjá okkur hið dulmagnaða og tilfinninguna fyrir lífinu og lífsreynslunni sem hvert og eitt okkar býr yfir.  Þegar við heyrum eða sjáum eitthvað í listinni sem höfðar til lífsreynslu okkar og tilfinninga þá verður til kraftur innra með okkur sem engin orð fá lýst.  Hér þarf kirkjan að vera vel vakandi því listgreinarnar ná eyrum og augum fólks og þar er auðvelt að koma hinum kristna boðskap um lífsfyllingu, náungalærleika og von til skila.

Við verðum að passa okkur á því að leggja ekki áherslu á að helgisiðir kirkju okkar séu eina leiðin til að koma hinum kristna boðskap á framfæri.  Það eru svo ótal margar aðrar leiðir sem verið era ð nota og við sjáum ef við höfum augun opin.  Sem dæmi um leið sem höfðað hefur til fólks á undanförnum árum eru pílagrímagöngur þar sem möguleikinn opnast fyrir því að líta á líf okkar og heiminn öðrum augum en við gerðum fyrir ferðina.

Eins og við getum mótað ferðina á mismunandi hátt þótt endastöðin sé hin sama eins og þau sem ganga Jakobsveginn í átt að Santiago de Compostella þá höfum við frelsi til að móta lífsleiðina okkar á okkar eigin hátt þó endamarkið sé hið sama..

Í þessu ljósi ættum við að skoða helgisið okkar sérstaklega við skírn og greftrun, en einnig hjónavígsluna.  Enskur prestur Alan Billings hefur skrifað bókina Secular lives Sacred hearts en hún fjallar um hlutverk kirkjunnar í trúlausum heimi.  Þar er rætt um það hvernig manneskja sem tekur á engan hátt þátt í kirkjulegu lífi og lifir að eigin sögn engu trúarlífi geti samt sem áður upplifað lífið sem heilagt.

Þetta tel ég afar mikilvægt að þjónar kirkjunnar séu sér meðvitaðir um eins og fram kom áðan varðandi skírnarathöfnina.  Við sem tilheyrum hinni Lútersk- evangelísku kirkju verðum að leggja aðaláherslu á að í skírninni taki Guð barnið að sér.  Það er þess vegna sem við leggjum áherslu á ungbarnaskírnina. Það eru engin skilyrði fyrir skírninni.  Það er ekki langt síðan íslenskir prestar boðuðu það að óskírð börn færu ekki til himna ef þau dæju óskírð og því var áhersla lögð á skemmri skírn ef barnið var dauðvona.  Ennþá eimir eftir af þessum skilningi.

Og þann misskilning verðum við að leiðrétta.  Samt sem áður kemur fram í skírninni að barnið þurfi vernd og hjálp í þessum hættulega heimi.  Barnið er komið inn í heim þar sem átök eiga sér stað en Jesús verndar það gegn öllu illu.  Á Norðurlöndum er enn farið með afneitun gegn djöflinum við skírn, en það var tekið út úr handbók íslensku kirkjunnar árið 1910.  Áherslan á afneitun á djöflinum er til að vekja athygli á andstæðum góðs og ills í heiminum.  Þar tekur Kristur alltaf afstöðu með hinu góða og afstöðu með lífinu gegn dauðanum. 

Andstæður góðs og ills, lífs og dauða er áberandi í kvikmyndum eins og í ofurhetju myndum um köngulóarmanninn og superman.  Kristin trú forðast slíka einföldun og leggur alltaf áherslu á fylgdina við Jesú.

Eins er við upphaf lífsins við skírnina, þá er lögð áhersla á samfylgd Jesú með barninu.

Varðandi útfarir í menningarheimi okkar og þá sérstaklega á Norðurlöndum, þá eru langflestar útfarir kirkjulegar og nánast undantekning hér á landi ef útför fer ekki fram í kirkju.  Dauðinn er eitt sem við eigum öll vísan og því hefur dauðinn á öllum öldum verið túlkaður út frá þeim hugmyndaheimi sem hefur verið við lýði hverju sinni.  Næstum alls staðar hefur dauðinn einhvern tilgang.  Í búddisma og er dauðinn ferð til nýrrar tilveru og þar gegnir endurholdgun lykilhlutverki .  Í kristinni trú þróuðust hugmyndir um stað dauðans allt eftir heimsmyndinni hverju sinni.  Himinn og helvíti voru notuð sem myndir til að útskýra fyrir fólki hvað gerðist eftir dauðann.  Þó hugmyndir okkar um himinn og helvíti séu úreltar í huga okkar, þá lifir samt enn þessi hugsun sem segja má að birtist í huga barnsins sem spurði ömmu sína eftir lát náins ættingja: “er Guð maður eða staður?!!”

 

Hér þurfum við á nýjum túlkunum að halda.

Þýski guðfræðingurinn Werner Jeanrond setur fram kristnar hugmyndir andspænis hugmyndum um dauðann.  Hann segir:  “Hún er von okkar um að dauði okkar sé tvennt í senn, nefnilega hið róttæka rof á lífi okkar (þ.e. við erum ekki lengur til) og þar sem nýjum dyrum er lokið upp mót fullgerðu nýju sambandi við Guð sem þegar er hafið á meðan við lifum”.  Einfaldara orðalag finnst mér vera á þessari túlkun að eilífa lífið sem hefst hér og nú í samfélagi við Guð heldur áfram þrátt fyrir það að líkaminn deyi.

Til þess að þessi túlkun komist til skila þarf í útfararathöfninni að bregða kastljósinu fram og tilbaka frá hinum látna til syrgjendanna sem eftir lifa.

Lífi hins látna er lokið og því ber að minnast hans/hennar með virðingu og þakklæti og þau sem eftir lifa fá huggun og styrk inn í þær aðstæður að hinn látni er horfinn, samfylgdin er rofin, en syrgjendur halda áfram að lifa með minningarnar og því er oft nauðsynlegt að minna á fyrirgefningu og sátt.  Fyrirgefning og sátt leggja grunn að von um framtíð og úrvinnslu úr því tilfinningaflæði sem við köllum sorgarferli.  Í  útfararsiðum okkar er  fastur liður sem við köllum moldun, sem bæði getur farið fram í kirkjugarði og inni í kirkjunni.  Þar sem ég var prestur á höfuðborgarsvæðinu í 17 ár var ævinlega moldað í kirkju.  Það var ekki fyrr en ég flutist í sveitina og fór að molda í garði sem mér varð ljós mikilvægi þessarar athafnar.  Þegar gröfin blasir við köld og dimm er mikilvægt að fá orð vonarinnar.  Því eiga orð moldunarinnar svo vel við í kirkjugarði þar sem sagt er : “Af jörðu ertu komin, að jörðu skaltuaftur verða, af jörðu skaltu aftur upp rísa”.  Það er mikilvægt að snúa heim frá gröfinni með þessi orð í huga að dauðinn er ekki endalok alls.  Molduninni fylgja líka orðin: “Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, sem eftir mikilli miskunn sinni hefur endurfætt okkur til lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum”.  Hér kemur til sögunnar sýnin á hið nýja líf, vonin um eilíft líf.  Þó alltaf sé farið með þessi orð við moldunina tel ég afar brýnt að í ræðu prestsins sé ævilega boðuð upprisa Jesú Krists.  Allt of oft hef ég veið við útfarir þar sem ekki er minnst á upprisuna í útfararræðunni..  Ástæðan fyrir því að ég tel það mikilvægt er sú að syrgjendur setja sig í persónulegar stellingar þegar farið er með minningarorðin, en hugurinn er ekki á eins persónulegum nótum þegar farið er með helgisiði sem hafðir eru við allar útafarir.   Því talar upprisuboðskapurinn á persónulegan hátt við syrgjendur þegar hann er boðaður í minningarorðunum sjálfum.

Upprisutrúin á að vera kjarninn í boðun allra kirkna sem kenna sig við Krist. 

En hver er upprisutrú okkar?  Hér birtast margar myndir.

Ein er : Upprisa við lok sögunnar

Önnur er: Tafarlaus ferð hins látna til himna

Þriðja: Sálin lifir áfram þar til að upprisu komi.

Allar þessar myndir stinga í stúf við reynsluheim okkar mannfólksins þar sem ekkert okkar hefur dáið eða hefur reynslu af dauðanum.

En ef við setjum þetta í samhengi þess sem við hófum för okkar með sem er fylgd við Jesú þá er hægt að gera þetta skiljanlegt.  Hugmyndir Íslendinga um hvað gerist eftir dauðann er um margt litaður af þeirri rótgrónu hugmynd síðustu aldar sem kennd er við spíritisma.  Varðandi þær hugmyndir tel ég mikilvægt að ekki sé gert lítið úr hugmyndum fólks um það hvað gersit eftir dauðann.  Þó við göngum ekki svo langt að fara á miðilsfundi eða reyna að ná sambandi við framliðna þá er mikilvægt að sýna skilning og bera virðingu fyrir þeirri sýn sem fólk hefur á dauðann.  Mikilvægast af öllu er að komast að því samkomulagi við syrgjendur að við getum falið góðum Guði hinn látna hvað sem skoðunum okkar um líf eftir dauðann líður.

 

Virðing fyrir því sem er frábrugðið.

Að bera virðingu fyrir hugmyndum fólks um trúna er mikilvægt í allri boðun.  Kristin siðfræði birtir  fyrst og fremst kristinn sjálfskilning, sem mótaður er af trúnni.  Þetta er mikilvægt að gera sér grein fyrir í fjölhyggju samtímans þegar saman eru komin í sama samfélaginu fólk úr mörgum menningarheimum sem aðhyllast mismunandi trúarbrögð.  Alltof oft hefur sjálfskilningur fólks þar sem trú og þjóðerni hafa leitt til mismununar, skapað spennu og jafnvel styrjaldir.  Þess vegna er mikilvægt að kristinn sjálfsskilningur sé meðvitaður um að bera virðingu fyrir öðrum en útiloka ekki þau eða líta smáum augum á þau sem hafa annan sjálsskilning.

Johnathan Sacks, sem er enskur rabbini leggur í bók sinni “The dignity of difference”  áherslu a að mynda siðferðilegt samfélag, sem byggir ekki á því að allir hafi saman sjálfskilning heldur sjái styrkleika sína í því að vera frábrugðin hvert öðru.  Þess vegna er svo mikilvægt að við leggjum áherslu á samtalið, að við hlustum hvert á annað og virðum sjónarmið hvers annars.   Það er ekki aðalatriði að við komum okkar sjónarmiðum á framfæri, heldur að við hlustum og sættumst á að vera ólík.  Það er að fylgja Jesú í raun.

 

 

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s