Greinasafn | desember 2012

Bjargaði Lalla frænka honum Andrési? Predikun í Hóladómkirkju á jóladag.

Predikun í Hóladómkirkju á jóladag 2012

Jólin eru full af andstæðum.

Fyrst er til að nefna andstæður ljóss og myrkurs, en á þessum dimmu skammdegisdögum sjáum við ekki sólina hér á Hólastað í tvo mánuð frá 20. nóvember til 20. janúar, en nú er daginn farið að lengja og við vitum af sólinni á bakvið fjöllin og njótum birtu hennar þó hún sé ósýnileg.  Þannig er það líka með nærveru Guðs. Við finnum fyrir nálægð hans þó við sjáum hann ekki berum augum.

Jólin bera líka með sér andstæður góðs og ills.  Það þekkjum við vel úr íslenskum þjóðsögum þar sem fyrir koma jólasveinar, tröll og grýlur og hvernig ljós jólanna rekur á brott alla illa vætti.

Jólin bera með sér andstæður gleði og sorgar því aldrei er sorgin eins sár og á jólum og við söknum á jólum ennþá meira en aðra daga þeirra sem við syrgjum og eru ekki lengur á meðal okkar.

Það er stórkostleg upplifun fyrir mig að vera hér á Hólum í Hjaltadal á jólum og heyra kirkjuklukkunum hringt.  Lítil frænka mín spurði pabba sinn um daginn:

Er það Lalla frænka (en ég er kölluð Lalla) sem bjargaði honum Andrési?  Þetta fannst mér gaman að heyra því barnið skynjaði að sá sem hringir kirkjuklukkunum hér á Hólum bægir burtu tröllunum sem eru vond og bjarga Andrési, sem sennilega er góði kallinn í þessu gamla jólasveinalagi.

Það hafa annars verið undarlegir dagar núna fyrir jólin fyrir okkur sem fylgst höfum með fréttum að fylgjast með örlögum strokufangans frá Litla-Hrauni.  Sjálfsagt hefur fólk fylgst misjafnlega vel með, en á okkar heimili var fylgst með fréttum á klukkutíma fresti til að fregna af fanganum.  Þetta hefur næstum verið eins og í bíómynd, en ef við hugsum grant út í þessar fréttir, þá eru þær fyrst og fremst um ógæfusaman dreng, sem gæti verið sonur okkar, bróðir okkar eða barnabarn.  Það var því mikil gleði og léttir þegar fréttir bárust af því á aðfangadagsmorgunn, að drengurinn var kominn fram. En svo skall á andstæða gleðinnar þegar fréttir bárust af því að ungi maðurinn var settur í einagrun.  Og svo var það í fréttum í hádeginu í dag að hann hafi verið hræddur við samfanga sína. Hræddur.

Það er mikið talað um ótta og hræðslu í jólaboðskapnum.  Í báðum sálmunum sem við erum búin að syngja í dag er sungið um ótta og hræðslu, bæði í sálminum: Í dag er glatt í döprum hjörtum og sálminum: Sjá himins opnast hlið.

Og í jólaguðspjallinu er líka talað um hræðslu.  Engillinn segir: Verið óhrædd.

Við þurfum ekki að vera hrædd af því Jesús er kominn í heiminn.  Jesús er fæddur í Betlehem.  Jesús er alltaf með okkur.

Já, andstæðurnar birtast svo sannarlega líka í jólaguðspjalinu sjálfu:

Þar er fátækt fólk á ferð.  Ekkert pláss er fyrir þau neins staðar og þau eiga hvergi höfði sínu að halla.  Þau eignast barn við ömurlegar aðstæður innan um dýr í fjárhúsi.  Þó dýrðarljómi sé yfir þessu í huga okkar þá hafa þetta ekki verið skemmtilegar aðstæður til að eignast sitt fyrsta barn.  Andstæðan við þessar ömurlegu aðstæður er englakórinn sem birtist hirðunum á Betlehemsvöllum.  Hirðarnir fá að upplifa himneskan söng, fá að upplifa nærveru Guðs á sérstakan hátt og fá að boða hinum nýbökuðu foreldrum gleðitíðindi.  Andstæðurnar sem birtast í þessu öllu saman sameinast í Jesú Kristi.

Fyrir mér er jólaboðskapurinn fyrst og fremst boðskapur Jesú Krists.

Boðskapur Jesú um frið og kærleika.

Allt sem Jesús sagði.

Allt sem Jesús gerði.

Allt sem Jesús var og er ennþá.

Við þurfum öll á Jesú að halda.  Við höfum öll gengið í gegnum einhverja erfiðleika.  Spyrjum okkur: Hvað hjálpaði þá?

Við eigum öll eftir að glíma við einhvern vanda.  Við skulum undirbúa okkur undir þann vanda með því að rækta samfélag okkar við Jesú.  Þannig gerum við okkur viðbúin undir þann vanda og tilbúnari til að takast á við hann.

Það kann að vera að við séum einmitt núna að glíma við eitthvað sem virðist óleysanlegt.  Þá skulum við hugsa til þess að Jesús er með okkur tilbúinn til að senda okkur hjálp, styrk og kraft.

Jólin boða okkur andstæður myrkurs og ljóss.  Því skulum við alltaf hafa það í huga að í þeirri baráttu sigrar myrkrið ekki því eitt af því sem Jesús sagði er:

Ég er ljós heimsins. Hver sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífisins.  Í þessum orðum er Jesús ekki að tala um skammdegismyrkrið hér úti, heldur myrkrið sem stundum er innra með okkur.  Myrkrið sem lætur okkur líða illa innra með okkur.  Inn í þetta myrkur kemur Jesús með ljósið sitt og hjálpar okkur til að líða betur.

Jólin boða okkur að hið illa sigrar ekki hið góða því tröllin og Grýla flýja þegar kirkjuklukkunum er hringt.  Því skulum við koma til kirkju í hvert sinn sem við heyrum í kirkjuklukkum.

Jólin boða okkur að sorgin sigrar ekki gleðina.  Þær eru systur þessar tvær, sorgin og gleðin og haldast í hendur því við syrgjum það sem var gleði okkar.

Í Betlehem gerðist Guð maður.  Guð vildi sýna okkur hver hann er og það sýndi hann okkur í Jesú Kristi.  Það sem var ósýnilegt  varð sýnilegt.

Og Jesús Kristur kom í þennan heim til að sigra dauðann og gefa okkur eilíft líf með sér.

Það eru gleðifréttir jólanna.

Auglýsingar

Aldarminning um ástkæra frænku

Aldarminning:  Solveig Kristbjörg Benediktsdóttir Sövik.

Á aðfangadag árið 1912 fæddist á Húsavík Solveig Kristbjörg Benediktsdóttir fv. organisti og skólastjóri Kvennaskólans á Blönduósi.   Í dag eru því liðin 100 ár frá fæðingu hennar og langar mig af því tilefni að minnast þessarar heiðurskonu.

Solveig var næstelst af börnum skólastjórahjónanna á Húsavík þeirra Margrétar Ásmundsdóttur og Benedikts Björnssonar.  Heimilið var mikið menningarheimili og á þeim árum sem þau ólu upp börn sín fór alda vakningar um hugi fólks í Þingeyjarsýslum. Solveigu Kristbjörgu voru gefin nöfn mæðra foreldra sinna.

Hún ólst upp á Húsavík og lauk þar unglingaskólanum og fór síðan á Húsmæðraskólann á Laugum í Reykjadal.  Þá fór hún til Noregs til náms í Húsmæðrakennaraskólanum í Stabekk.

Eftir heimkomuna varð hún skólastjóri Kvennaskólans hér á Blönduósi árin 1937-47, en árið 1948 varð hún kennari við unglingaskólann á Blönduósi til ársins 1953 og síðar kennari við Kvennaskólann um langt árabil þar til hann var lagður niður árið 1978.

Þann 5. september árið 1944 giftist Solveig Óskari Sövik rafvirkjameistara frá Veblungsnesi í Noregi.  Tók hún ættarnafn hans og kallaði sig Solveigu Kristbjörgu Benediktsdóttur Sövik.

Eignuðust þau eina dóttur Ragnheiði Guðveigu, sem gift er Arnóri Gunnarssyni og eiga þau tvo syni, Óskar og Atla Gunnar.

Auk kennslustarfa við skólana á Blönduósi sat Solveig lengi í skólanefndum skólanna þar af  í skólanefnd Kvennaskólans í 26 ár.

Þau ár sem hún starfaði við Kvennaskólann hafði hún djúpstæð áhrif á nemendur sína og lagði grundvöllinn að nýjungum í matargerð, geymslu matvæla og meðferð á hráefni.  Árið 1954 kom út kennslubók í matreiðslu sem Solveig samdi í samstarfi við Halldóru Eggertsdóttur.  Sú bók var um árabil kennslubók við Kvennaskólann og víðar um land enda kom þar fram ýmislegt nýtt um næringarfræðirannsóknir síðari ára.

Auk þessara starfa kom Solveig að stofnun Tónlistarskólans á Blönduósi og starfaði þar í 10 ár þar af í 7 ár sem skólastjóri. 

Sjálf kenndi hún á píanó og tók nemendur heim langt fram yfir sjötugt.

Þá naut kirkjan þjónustu hennar við orgelið og kórstjórn í gömlu kirkjunni á Blönduósi um áratugaskeið.  Auk þess spilaði hún við margar kirkjur í nágrenninu.  Þegar nýja kirkjan á Blönduósi var vígð árið 1993 lék Solveig á orgelið við upphaf vígslunnar.  Solveig var þekkt fyrir að leika á hljóðfærið og stjórna kirkjusöng með hógværð og mildi.

Hún starfaði með Kvenfélaginu Vöku og var formaður þess um tíma.  Hún átti sæti í stjórn Sambands Austur-Húnverskra kvenna og Sambands norðlenskra kvenna.

Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fékk hún þann 1. janúar árið

1973 fyrir störf sín að félags- og kennslumálum.

Matargerð og tónlist voru hennar náðargjafir.  Heimili hennar á Blönduósi var annálað fyrir einstakan mat, enda var mikill gestagangur þegar ættingjarnir voru á ferð suður eða norður, þá var alltaf komið við á Blönduósi og þegnar veitingar.  Við systurnar dvöldum þar oft langdvölum á sumrin og mér er í barnsminni að alltaf var Solveig komin út í matjurtagarðinn sinn áður en við vöknuðum.  Hún var mikill brautryðjandi í matjurtarækt, ræktaði ólýsanlega margar tegundir af grænmeti, kartöflur, rófur, gulrætur, næpur og hreðkur, hvítkál, grænkál og blómkál og salat auk ýmissa kryddtegunda eins og steinselju og dill.  Svo var það rifsið sólberin og jarðarberin og meira að segja ræktaði hún um tíma belgjabaunir og stikkilsber.  Allri þessari ræktun kynntist hún í Noregi. 

Hún elskaði garðinn og sumarið var hennar tími, en á veturna var hún útivinnandi við kennslu og organistastörf. 

Þó Solveig hafi sjálfsagt alla ævi haft mikinn bókmenntáhuga fékk hún ekki næði til að njóta hans fyrr en síðustu árin. Hún las mikið ljóð, ævisögur, heimspeki og  skáldsögur bæði á íslensku, ensku og norsku.

 Hún átti alla tíð einlæga trú og bað fyrir ættingjum sínum og fjölskyldu daglega. 

Solveig lést í hárri elli á Blönduósi þann 29. júlí 2010.

Ég minnist Solveigar föðursystur minnar á þessum tímamótum með virðingu og þökk.  Einnig stendur kirkjan í þakkarskuld við hana fyrir áratuga þjónustu við guðsþjónustur á helgum og hátíðum.

Guð blessi minningu heiðurskonunnar Solveigar Kristbjargar Benedikstsdóttur Sövik.

 

Solveig Lára Guðmundsdóttir

Vígslubiskup á Hólum.

Koma einelti og mansal jólunum við – aðventuhugleiðing á Hvammstanga

Það er gott að koma í Miðfjörðinn á aðventu og það er gott að koma hingað á Hvammstanga.  Hingað hef ég allt of sjaldan komið þó ekki hafi ég tölu á þeim ferðum sem ég hef ekið um Miðfjörðinn.  Meðan tengdafaðir minn Jón Helgason frá Hnausakoti var á lífi hringdum við alltaf í hann þegar við ókum um Miðfjörðinn.  Honum fannst gott að finna fyrir okkur á sínum æskuslóðum.

Reyndar eigum við hjónin bæði ættir okkar að rekja í Miðfjörðinn því langafi minn Jón Þórarinsson, síðar fræðslumálastjóri í Reykjavík var fæddur á Melstað.  Hann var sonur sr. Þórarins Böðvarssonar prests á Melstað sem síðar varð prófastur á Görðum á Álftanesi.  Í barnæsku minni var gjarnan farið með vísu þegar farið var framhjá Melstað sem mig minnir að sé eftir Jakob Hafstein frænda minn.  Hún er svona:

Heim að Melstað mænir sjón

magnast hugarljóri.

Þarna fæddist fyrrum Jón

fræðslumálastjóri.

Enn á ný erum við komin hingað og nú á aðventu.  Stef aðventunnar er:  Sjá, konungur þinn kemur til þín.  Við fáum að heyra guðspjallið um innreið Jesú inn í Jerúsalem, guðspjall sem okkur finnst tilheyra pálmasunnudegi og páskum frekar en jólum og aðventu.  En í upphafi aðventu skreytum við hús okkar með grænum greinum.  Við klippum niður greinar eins og fólkið í Jerúsamlem þegar það fagnaði komu Jesú inn í borgina.  Og það var einstök upplifun að koma hér inn í bæinn í kvöld og sjá hvað bærinn er fallega skreyttur með jólaljósum á hverju heimili.  En nú þegar jólaundirbúningurinn hefst þurfum við að íhuga til hvers við erum að undirbúa þetta allt saman.  Hver er tilgangur jólanna í okkar lífi?

Ég hef núna undanfarnar vikur verið að fóta mig á nýjum stað og í nýju starfi.  Það var einstaklega ánægjulegt að fyrsti hópurinn sem ég tók á móti heima á Hólum var hópur aldraðra héðan frá Hvammstanga og úr Miðfirði.  Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka ykkur fyrir síðast.  Það var ánægjulegt á fá ykkur í heimsókn.  Síðan þá hef ég verið að heimsækja söfnuði og er það mikil gæfa að fá að fylgjast með öllu því góða starfi sem er veriða að vinna í kirkjum landsins.

Það eru nefnilega margir sem velta því fyrir sér hvað vígslubiskupar geri eiginlega.  Hlutverk mitt er að vera í góðu sambandi við presta, sóknarnefndir og starfsfólk kirkjunnar í stiftinu sem nær allt frá Hrútafirði til Djúpvogs, koma í heimsóknir og leysa úr vanda ef einhver er.

Eitt af því eftirminnilegast sem ég  hef tekið þátt í var Landsmót æskulýðsfélaganna, sem haldið var á Egilsstöðum síðustu helgina í október. Þetta er einn stærsti kirkjulegi viðburður ársins. Þar voru saman komnir 600 unglingar alls staðar að af landinu.  Einstaklega gott og vel skipulagt mót.  Þangað komu 25 unglingar héðan með sr. Magnúsi og vil ég þakka ykkur krakkar sem voruð á landsmótinu líka kærlega fyrir síðast. Það er stórkostlegt að finna hvað hér er vel haldið utan um barna- og unglingastarf.  Barna- og unglingastarf er lang mikilvægasta starfið sem unnið er í kirkjunni.  Og ég vil leyfa mér að nota þetta tækifæri til að hrósa ykkur hér á Hvammstanga hvað þið hafið haldið vel á lofti merkjum barna- og æskulýðsstarfs þrátt fyrir sílækkandi sóknargjöld.

Önnur eftirminnileg stund sem ég hef upplifað undanfarnar vikur var þegar kirkjuklukkunum var hringt á degi gegn einelti.  Þá komu börnin úr Grunnskólanum á Hólum að kirkjunni og við hringdum kirkjuklukkunum í sjö mínútur, eina mínútu fyrir hvern dag vikunnar.  Því þið munið, krakkar, einelti á ekki að viðgangast nokkurn dag vikunnar, ekki frekar á laugardegi frekar en miðvikudegi.  Hér þurfum við öll að leggjast á eitt, bæði börn og fullorðnir að útrýma þessum vágesti sem einelti er.  Að hringja kirkjuklukkum þennan dag er líka mikilvægt samstarfsverkefni kirkju og skóla.

Annað sem einkennir aðventuna er 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi.  Við höfum fyrir nokkrum árum lyft hulunni af heimilisofbeldi.  Við erum farin að ræða kynferðislega misnotkun og nú þurfum við að fara að ræða um mansal í alvöru því það er ekki bara eitthvað sem gerist úti í hinum stóra heimi heldur líka hérna hjá okkur.  Okkar er að uppræta það.  Því ef við gerum það ekki, þá gerir enginn það.

Annað sem tengist aðventu er söfnun Hjálparstarfs kirkjunnar. Jólasöfnunin er hafin og við sem höfum eitthvað á milli handanna ættum að láta eitthvað af hendi rakna til þeirra sem eru þurfandi.

En þá kem ég aftur að fyrr spurningu minni:  Hvaða merkingu hafa jólin fyrir okkur og hvaða merkingu hafa jólin fyrir þau málefni sem ég hef hér bryddað uppá?

Jólin merkja:  Guð er með okkur.  Guð kom til okkar í litlu barni til að vera með okkur.  Guð kom til okkar í Jesú til að gefa okkur kraft og styrk og til að sýna okkur kærleika.

Það verður gott að aka um Miðfjörðinn í framtíðinni og eiga í huganum minninguna um þessa hátíðlegu stund hér í kvöld.  Guð gefi ykkur innihaldsríka  aðventu og gleðiríka jólahátíð.

120 ára afmæli Sauðárkrókskirkju

Í dag er fyrsti sunnudagur kirkjuársins.  Við fögnum nýju kirkjuári á fyrsta sunnudegi í aðventu.  Síðast liðinn sunnudagur fyrir viku var því síðasti sunnudagur kirkjuársins eða gamlársdagur kirkjunnar eins og við nefnum hann oft.  Í kvöldguðsþjónustu hér í Sauðárkrókskirkju þetta kvöld  hélt sóknarpresturinn hér á Sauðárkróki  sr. Sigríður Gunnarsdóttir hlýja hugvekju um tímann, þetta óræða ósýnilega fyrirbæri sem hefur svo sterk áhrif á okkur öll.

Hún ræddi um tímann sem flýgur frá okkur og tímann sem svo gott er að nýta vel og njóta

Messunni lauk með því að Íris Olga Lúðvíksdóttir söng þessi fleygu orð um tímann:

Tíminn flýgur áfram og hann teymir mig á eftir sér
og ekki fæ ég miklu ráðið um það hvert hann fer.

En ég vona bara að hann hugsi svolítið hlýlega til mín
og leiði mig á endanum aftur til þín.

Ég sjálf hef verið afar hugsi yfir tímanum að undanförnu og finnst stundum eins og hann sé að gera grín að mér.  Ég held og er reyndar alveg viss um að þetta fylgi aldrinum.

Mér finnst allir vera svo ungir miðað við mig sjálfa.

Ég fór til dæmis á sinfóníutónleika um daginn í Hörpunni í Reykjavík og komst að því þegar ég rýndi með gleraugunum í skrána að bæði hljómsveitarstjórinn og einleikarinn á píano hefðu getað verið synir mínir og einsöngvararnir með Mótettukórnum voru öll rétt af barnsaldri.

Mér létti því stórum þegar ég fór að sjá hið sprenghlægilega leikrit, Ég var einu sinni frægur, sem nú er sýnt á Akureyri af því að í þessu leikriti er einmitt verið að gera grín að fólki eins og mér sem finnst allir læknar, tannlæknar þjónustufulltrúar í bönkum og háskólakennarar vera nýfermdir.

En hvað kemur tíminn og vangaveltur mínar um hann ræðuefni dagsins við?

Jú, við erum hér saman komin á ákveðnum tímamótum.  Og tímamót koma tímanum við.  Við erum að halda afmælishátíð.

120 ár eru að verða liðin frá því að Sauðárkrókskirkja var vígð, en hún var vígð rétt fyrir jólin árið 1892.  Um kirkjuna má vel halda því fram að hún sé bæði gömul og ung.  Hún hefur upplifað þrjár aldir, síðustu ár nítjándu aldar, alla tuttugustu öldina og nú hina nýbyrjuðu tuttugustu og fyrstu öld.

En hún er ung í þeim skilningi að hún er vel ern, því fyrir tuttugu árum voru gerðar á henni gagngerar endurbætur, sem mikill sómi er að.

Ég hóf orð mín hér á vangaveltum um tímann.  Þar sem ég er komin yfir miðja sextugsaldurinn man ég vel eftir því þegar amma mín Soffía Claessen bauð mágkonum sínum reglulega til sín að spila lomber, þetta var fyrir um það bil 50 árum.  Mágkonur hennar voru systur afa míns Eggerts Claessen þær Ingibjörg Þorláksson, María Thoroddsen og Anna Briem, allar dætur Valgerðs Claessen langafa míns sem tók af miklum dug þátt í uppbyggingu kirkjunnar hér fyrir 120 árum.  Barninu mér fannst gaman að hlusta á gamlar konur tala saman.  Þær töluðu um staðina hér fyrir norðan eins og það væru þeirra staðir, enda höfðu formæður þeirra og feður búið á þessum stöðum.  Komu þá helst við sögu Möðruvellir í Hörgárdal, Laufás og Grund í Eyjafirði, Reynistaður í Skagafirði og svo Sauðárkrókur.  Mest samband var haft við Krókinn og kirkjuna hér enda tengslin sterk.

Þegar þær voru að tala saman fyrir um 50 árum voru þær að tala um eitthvað sem gerst hafði 50 til 60 árum þar á undan og því er heil öld ekki langur tími, þegar við lítum þannig á það.

Það sem þær mundu vel var hvernig staðið var að kirkjubyggingunni hér á Sauðárkróki og var þeim alla tíð hlýtt til hennar og báru hag hennar sér fyrir brjósti.   Faðir þeirra var gjaldkeri sóknarnefndar þegar hún var byggð.   Dönsku kaupmennirnir hér á Sauðárkróki, Ludvig Popp  og Valgarð Claessen voru stórhuga menn sem byggðu kirkju, skóla og sjúkrahús, en það eru einmitt þessir þrír þættir sem mest áhersla er lögð á þegar kristniboðar koma á akurinn.

Kirkjan varð brátt miðstöð menningarlífsins.  Fólkið tók kirkju sinni vel og hér hafa þjónað margir góðir prestar.   Aðeins góðir prestar hafa verið hér eins og sóknarnrefndarformaðurinn orðaði það svo fallega við mig.  Þeir hafa allir fengið góð embætti eftir að hafa verið hér.  Því er sérstaklega ánægjulegt að svo margir fyrrverandi sóknarprestar hér á Sauðárkróki skuli vera hér í dag á þessum tímamótum.

Hér í þessari kirkju hafa verið haldnar margar aðventur og mörg jól.  Hér hafa allar núlifandi kynslóðir verið skírðar og fermdar í sinni fallegu kirkju.  Hér hafa ástvinir verið kvaddir og fólk heitið hvort öðru tryggðum.

Kirkja er Guðs hús.  Hér er boðað fagnaðarerindið um Jesú Krist og á fyrsta sunnudegi í aðventu fáum við að heyra svolítið sérstakt guðspjall, um innreið Jesú inn í Jerúsalem.  Oft vaknar spurningin á þessum degi hvort þetta guðspjall tilheyri ekki páskum frekar en aðventu?

Ástæða þess að þetta guðspjall er lesið nú, er sú að aðventan markar upphaf jólaundirbúningsins.  Nú förum við að klippa niður greinar í kransana okkar og bíða komu frelsarans eins og fólkið í Jerúsalem klippti sínar greinar niður þegar þau biður frelsarans.  Og það er ánægjulegt að sjá að kirkjan hefur verið skreytt hér í dag með niðurklipptum greinum.

Nú tekur undirbúningurinn við af fullum krafti.  Á aðventunni skulum við muna eftir því þegar við vinnum hvert verk að það er gert til undirbúnings komu frelsarans.  Sjá, konungur þinn kemur til þín, sjá hann stendur við dyrnar og knýr á.  Hann ryðst ekki inn til okkar, enda er aðeins hurðarhúnn að innan verðu.  Það erum við sem verðum að opna fyrir honum.

Það gerum við þegar við eigum hljóða stund með honum milli verka.  Það gerum við þegar við hlustum á fallega tónlist sem vekja hjá okkur ljúfar minningar og góðar tilfinningar.  Það gerum við þegar við gleðjum aðra með gjöfum okkar og jólakortum sem við skrifum til þeirra sem okkur þykir vænst um.

Fyrir 120 árum gaf kaupmaður hér í bæ ljósin í þessa kirkju.  Það var táknræn gjöf, gjöf ljóssins.  Enginn á betri gjöf að gefa en ljós af sjálfum sér til annarra.  Þau þóttu mikilfengleg þessi ljós, sem eru reyndar enn þau sömu og þegar kirkjan var vígð, þó nú hafi verið leitt í þau rafmagn.  Það er því táknrænt líka að afkomandi Ludvigs Popps sé hingað kominn til að bera kyndilinn áfram til næstu kynslóðar því Inge Lise Popp mun tendra flóðlýsinguna hér á eftir.

Það er líka ánægjulegt að afkomendur Valgarðs Claessen langafa míns skulu vera hér í dag, öll þrjú barnabörn hans sem á lífi eru Valgarð Briem og Kristín og Laura Claessen, auk langafabarnanna Ólafs Egilssonar og gunnlaugs Briem.  Og það er sérstaklega ánægjulegt fyrir mig afkomenda hans að standa í þessum ræðustól í dag.  Í dag eru þessar ættir tengdar saman á ný í kirkju Guðs, afkomendur manna sem létu gott af sér leiða fyrir samfélagið og voru sannir lærisveinar Krists. Þó erlendir væru þá einangruðu þeir sig ekki frá fólki hér, heldur lögðu kapp á að gera heiminn betri í kringum sig.  Það er stórkostlegt að fá tækifæri til að breyta samfélagi sínu.  Það gerðu þeir þessir tveir menn og það höfum við öll tækifæri til að gera þó ekki sé allt með sýnilegum hætti.  Við getum öll tekið þátt í að gera heiminn örlítið betri í dag en hann var í gær.  Við getum öll haft kærleikann að leiðarljósi í því sem við tökum okkur fyrir hendur hvort sem er á hátíðum eða í hversdagslífinu.

Sjá, konungur þinn kemur til þín, sjá hann stendur við dyrmar og knýr á.  Í honum er ekki neinn tími.  Hann er í dag og í gær um aldir sá sami, sem á sama erindi við okkur öll, tímalaust erindi um kærleika Guðs til okkar mannanna og þegar við höfum meðtekið þann kærlieika þá kallar hann okkur til að vera farvegur fyrir þann kærleika til meðbræðra okkar og systra.  Boðskapur Jesú Krists er nefnilega fyrst og fremst kærleiksboðskapur, boðskapur um eilífa nærveru hans í öllu þeim erfiðleikum sem lífið kann að bera með sér, en líka er hann tilbúinn að njóta með okkur gleðistundanna eins og þessari sem við erum að upplifa hér í dag á þessum miklu tímamótum.

Þegar aðventunni lýkur munum við sjá ljós, ljós jólanna sem skín frá himni, en kemur líka til okkar í litlu barni, sem vekur með okkur hlýja strauma.  Á jólum upplifum við tvennt í einu tímaleysi boðskaparins, en um leið tímann í minningu gamalla jóla, sem ævinlega koma upp í hugann á slíkum stemmningsstundum.  Þá getum við sagt með þjóðskaldinu frá Fagraskógi:

Sjá, dagar koma, ár og aldir líða,

og enginn stöðvar tímans þunga nið.

Í djúpi andans duldir kraftar bíða. –

Hin dýpsta speki boðar líf og frið.

Í þúsund ár bjó þjóð við nyrstu voga.

Mót þrautum sínum gekk hún, djörf og sterk,

í hennar kirkjum helgar stjörnur loga,

og hennar líf er eilíft kraftaverk.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda.  Svo sem var í upphafi, er og verður um alder alda. Amen.