120 ára afmæli Sauðárkrókskirkju

Í dag er fyrsti sunnudagur kirkjuársins.  Við fögnum nýju kirkjuári á fyrsta sunnudegi í aðventu.  Síðast liðinn sunnudagur fyrir viku var því síðasti sunnudagur kirkjuársins eða gamlársdagur kirkjunnar eins og við nefnum hann oft.  Í kvöldguðsþjónustu hér í Sauðárkrókskirkju þetta kvöld  hélt sóknarpresturinn hér á Sauðárkróki  sr. Sigríður Gunnarsdóttir hlýja hugvekju um tímann, þetta óræða ósýnilega fyrirbæri sem hefur svo sterk áhrif á okkur öll.

Hún ræddi um tímann sem flýgur frá okkur og tímann sem svo gott er að nýta vel og njóta

Messunni lauk með því að Íris Olga Lúðvíksdóttir söng þessi fleygu orð um tímann:

Tíminn flýgur áfram og hann teymir mig á eftir sér
og ekki fæ ég miklu ráðið um það hvert hann fer.

En ég vona bara að hann hugsi svolítið hlýlega til mín
og leiði mig á endanum aftur til þín.

Ég sjálf hef verið afar hugsi yfir tímanum að undanförnu og finnst stundum eins og hann sé að gera grín að mér.  Ég held og er reyndar alveg viss um að þetta fylgi aldrinum.

Mér finnst allir vera svo ungir miðað við mig sjálfa.

Ég fór til dæmis á sinfóníutónleika um daginn í Hörpunni í Reykjavík og komst að því þegar ég rýndi með gleraugunum í skrána að bæði hljómsveitarstjórinn og einleikarinn á píano hefðu getað verið synir mínir og einsöngvararnir með Mótettukórnum voru öll rétt af barnsaldri.

Mér létti því stórum þegar ég fór að sjá hið sprenghlægilega leikrit, Ég var einu sinni frægur, sem nú er sýnt á Akureyri af því að í þessu leikriti er einmitt verið að gera grín að fólki eins og mér sem finnst allir læknar, tannlæknar þjónustufulltrúar í bönkum og háskólakennarar vera nýfermdir.

En hvað kemur tíminn og vangaveltur mínar um hann ræðuefni dagsins við?

Jú, við erum hér saman komin á ákveðnum tímamótum.  Og tímamót koma tímanum við.  Við erum að halda afmælishátíð.

120 ár eru að verða liðin frá því að Sauðárkrókskirkja var vígð, en hún var vígð rétt fyrir jólin árið 1892.  Um kirkjuna má vel halda því fram að hún sé bæði gömul og ung.  Hún hefur upplifað þrjár aldir, síðustu ár nítjándu aldar, alla tuttugustu öldina og nú hina nýbyrjuðu tuttugustu og fyrstu öld.

En hún er ung í þeim skilningi að hún er vel ern, því fyrir tuttugu árum voru gerðar á henni gagngerar endurbætur, sem mikill sómi er að.

Ég hóf orð mín hér á vangaveltum um tímann.  Þar sem ég er komin yfir miðja sextugsaldurinn man ég vel eftir því þegar amma mín Soffía Claessen bauð mágkonum sínum reglulega til sín að spila lomber, þetta var fyrir um það bil 50 árum.  Mágkonur hennar voru systur afa míns Eggerts Claessen þær Ingibjörg Þorláksson, María Thoroddsen og Anna Briem, allar dætur Valgerðs Claessen langafa míns sem tók af miklum dug þátt í uppbyggingu kirkjunnar hér fyrir 120 árum.  Barninu mér fannst gaman að hlusta á gamlar konur tala saman.  Þær töluðu um staðina hér fyrir norðan eins og það væru þeirra staðir, enda höfðu formæður þeirra og feður búið á þessum stöðum.  Komu þá helst við sögu Möðruvellir í Hörgárdal, Laufás og Grund í Eyjafirði, Reynistaður í Skagafirði og svo Sauðárkrókur.  Mest samband var haft við Krókinn og kirkjuna hér enda tengslin sterk.

Þegar þær voru að tala saman fyrir um 50 árum voru þær að tala um eitthvað sem gerst hafði 50 til 60 árum þar á undan og því er heil öld ekki langur tími, þegar við lítum þannig á það.

Það sem þær mundu vel var hvernig staðið var að kirkjubyggingunni hér á Sauðárkróki og var þeim alla tíð hlýtt til hennar og báru hag hennar sér fyrir brjósti.   Faðir þeirra var gjaldkeri sóknarnefndar þegar hún var byggð.   Dönsku kaupmennirnir hér á Sauðárkróki, Ludvig Popp  og Valgarð Claessen voru stórhuga menn sem byggðu kirkju, skóla og sjúkrahús, en það eru einmitt þessir þrír þættir sem mest áhersla er lögð á þegar kristniboðar koma á akurinn.

Kirkjan varð brátt miðstöð menningarlífsins.  Fólkið tók kirkju sinni vel og hér hafa þjónað margir góðir prestar.   Aðeins góðir prestar hafa verið hér eins og sóknarnrefndarformaðurinn orðaði það svo fallega við mig.  Þeir hafa allir fengið góð embætti eftir að hafa verið hér.  Því er sérstaklega ánægjulegt að svo margir fyrrverandi sóknarprestar hér á Sauðárkróki skuli vera hér í dag á þessum tímamótum.

Hér í þessari kirkju hafa verið haldnar margar aðventur og mörg jól.  Hér hafa allar núlifandi kynslóðir verið skírðar og fermdar í sinni fallegu kirkju.  Hér hafa ástvinir verið kvaddir og fólk heitið hvort öðru tryggðum.

Kirkja er Guðs hús.  Hér er boðað fagnaðarerindið um Jesú Krist og á fyrsta sunnudegi í aðventu fáum við að heyra svolítið sérstakt guðspjall, um innreið Jesú inn í Jerúsalem.  Oft vaknar spurningin á þessum degi hvort þetta guðspjall tilheyri ekki páskum frekar en aðventu?

Ástæða þess að þetta guðspjall er lesið nú, er sú að aðventan markar upphaf jólaundirbúningsins.  Nú förum við að klippa niður greinar í kransana okkar og bíða komu frelsarans eins og fólkið í Jerúsalem klippti sínar greinar niður þegar þau biður frelsarans.  Og það er ánægjulegt að sjá að kirkjan hefur verið skreytt hér í dag með niðurklipptum greinum.

Nú tekur undirbúningurinn við af fullum krafti.  Á aðventunni skulum við muna eftir því þegar við vinnum hvert verk að það er gert til undirbúnings komu frelsarans.  Sjá, konungur þinn kemur til þín, sjá hann stendur við dyrnar og knýr á.  Hann ryðst ekki inn til okkar, enda er aðeins hurðarhúnn að innan verðu.  Það erum við sem verðum að opna fyrir honum.

Það gerum við þegar við eigum hljóða stund með honum milli verka.  Það gerum við þegar við hlustum á fallega tónlist sem vekja hjá okkur ljúfar minningar og góðar tilfinningar.  Það gerum við þegar við gleðjum aðra með gjöfum okkar og jólakortum sem við skrifum til þeirra sem okkur þykir vænst um.

Fyrir 120 árum gaf kaupmaður hér í bæ ljósin í þessa kirkju.  Það var táknræn gjöf, gjöf ljóssins.  Enginn á betri gjöf að gefa en ljós af sjálfum sér til annarra.  Þau þóttu mikilfengleg þessi ljós, sem eru reyndar enn þau sömu og þegar kirkjan var vígð, þó nú hafi verið leitt í þau rafmagn.  Það er því táknrænt líka að afkomandi Ludvigs Popps sé hingað kominn til að bera kyndilinn áfram til næstu kynslóðar því Inge Lise Popp mun tendra flóðlýsinguna hér á eftir.

Það er líka ánægjulegt að afkomendur Valgarðs Claessen langafa míns skulu vera hér í dag, öll þrjú barnabörn hans sem á lífi eru Valgarð Briem og Kristín og Laura Claessen, auk langafabarnanna Ólafs Egilssonar og gunnlaugs Briem.  Og það er sérstaklega ánægjulegt fyrir mig afkomenda hans að standa í þessum ræðustól í dag.  Í dag eru þessar ættir tengdar saman á ný í kirkju Guðs, afkomendur manna sem létu gott af sér leiða fyrir samfélagið og voru sannir lærisveinar Krists. Þó erlendir væru þá einangruðu þeir sig ekki frá fólki hér, heldur lögðu kapp á að gera heiminn betri í kringum sig.  Það er stórkostlegt að fá tækifæri til að breyta samfélagi sínu.  Það gerðu þeir þessir tveir menn og það höfum við öll tækifæri til að gera þó ekki sé allt með sýnilegum hætti.  Við getum öll tekið þátt í að gera heiminn örlítið betri í dag en hann var í gær.  Við getum öll haft kærleikann að leiðarljósi í því sem við tökum okkur fyrir hendur hvort sem er á hátíðum eða í hversdagslífinu.

Sjá, konungur þinn kemur til þín, sjá hann stendur við dyrmar og knýr á.  Í honum er ekki neinn tími.  Hann er í dag og í gær um aldir sá sami, sem á sama erindi við okkur öll, tímalaust erindi um kærleika Guðs til okkar mannanna og þegar við höfum meðtekið þann kærlieika þá kallar hann okkur til að vera farvegur fyrir þann kærleika til meðbræðra okkar og systra.  Boðskapur Jesú Krists er nefnilega fyrst og fremst kærleiksboðskapur, boðskapur um eilífa nærveru hans í öllu þeim erfiðleikum sem lífið kann að bera með sér, en líka er hann tilbúinn að njóta með okkur gleðistundanna eins og þessari sem við erum að upplifa hér í dag á þessum miklu tímamótum.

Þegar aðventunni lýkur munum við sjá ljós, ljós jólanna sem skín frá himni, en kemur líka til okkar í litlu barni, sem vekur með okkur hlýja strauma.  Á jólum upplifum við tvennt í einu tímaleysi boðskaparins, en um leið tímann í minningu gamalla jóla, sem ævinlega koma upp í hugann á slíkum stemmningsstundum.  Þá getum við sagt með þjóðskaldinu frá Fagraskógi:

Sjá, dagar koma, ár og aldir líða,

og enginn stöðvar tímans þunga nið.

Í djúpi andans duldir kraftar bíða. –

Hin dýpsta speki boðar líf og frið.

Í þúsund ár bjó þjóð við nyrstu voga.

Mót þrautum sínum gekk hún, djörf og sterk,

í hennar kirkjum helgar stjörnur loga,

og hennar líf er eilíft kraftaverk.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda.  Svo sem var í upphafi, er og verður um alder alda. Amen.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s