Aldarminning um ástkæra frænku

Aldarminning:  Solveig Kristbjörg Benediktsdóttir Sövik.

Á aðfangadag árið 1912 fæddist á Húsavík Solveig Kristbjörg Benediktsdóttir fv. organisti og skólastjóri Kvennaskólans á Blönduósi.   Í dag eru því liðin 100 ár frá fæðingu hennar og langar mig af því tilefni að minnast þessarar heiðurskonu.

Solveig var næstelst af börnum skólastjórahjónanna á Húsavík þeirra Margrétar Ásmundsdóttur og Benedikts Björnssonar.  Heimilið var mikið menningarheimili og á þeim árum sem þau ólu upp börn sín fór alda vakningar um hugi fólks í Þingeyjarsýslum. Solveigu Kristbjörgu voru gefin nöfn mæðra foreldra sinna.

Hún ólst upp á Húsavík og lauk þar unglingaskólanum og fór síðan á Húsmæðraskólann á Laugum í Reykjadal.  Þá fór hún til Noregs til náms í Húsmæðrakennaraskólanum í Stabekk.

Eftir heimkomuna varð hún skólastjóri Kvennaskólans hér á Blönduósi árin 1937-47, en árið 1948 varð hún kennari við unglingaskólann á Blönduósi til ársins 1953 og síðar kennari við Kvennaskólann um langt árabil þar til hann var lagður niður árið 1978.

Þann 5. september árið 1944 giftist Solveig Óskari Sövik rafvirkjameistara frá Veblungsnesi í Noregi.  Tók hún ættarnafn hans og kallaði sig Solveigu Kristbjörgu Benediktsdóttur Sövik.

Eignuðust þau eina dóttur Ragnheiði Guðveigu, sem gift er Arnóri Gunnarssyni og eiga þau tvo syni, Óskar og Atla Gunnar.

Auk kennslustarfa við skólana á Blönduósi sat Solveig lengi í skólanefndum skólanna þar af  í skólanefnd Kvennaskólans í 26 ár.

Þau ár sem hún starfaði við Kvennaskólann hafði hún djúpstæð áhrif á nemendur sína og lagði grundvöllinn að nýjungum í matargerð, geymslu matvæla og meðferð á hráefni.  Árið 1954 kom út kennslubók í matreiðslu sem Solveig samdi í samstarfi við Halldóru Eggertsdóttur.  Sú bók var um árabil kennslubók við Kvennaskólann og víðar um land enda kom þar fram ýmislegt nýtt um næringarfræðirannsóknir síðari ára.

Auk þessara starfa kom Solveig að stofnun Tónlistarskólans á Blönduósi og starfaði þar í 10 ár þar af í 7 ár sem skólastjóri. 

Sjálf kenndi hún á píanó og tók nemendur heim langt fram yfir sjötugt.

Þá naut kirkjan þjónustu hennar við orgelið og kórstjórn í gömlu kirkjunni á Blönduósi um áratugaskeið.  Auk þess spilaði hún við margar kirkjur í nágrenninu.  Þegar nýja kirkjan á Blönduósi var vígð árið 1993 lék Solveig á orgelið við upphaf vígslunnar.  Solveig var þekkt fyrir að leika á hljóðfærið og stjórna kirkjusöng með hógværð og mildi.

Hún starfaði með Kvenfélaginu Vöku og var formaður þess um tíma.  Hún átti sæti í stjórn Sambands Austur-Húnverskra kvenna og Sambands norðlenskra kvenna.

Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fékk hún þann 1. janúar árið

1973 fyrir störf sín að félags- og kennslumálum.

Matargerð og tónlist voru hennar náðargjafir.  Heimili hennar á Blönduósi var annálað fyrir einstakan mat, enda var mikill gestagangur þegar ættingjarnir voru á ferð suður eða norður, þá var alltaf komið við á Blönduósi og þegnar veitingar.  Við systurnar dvöldum þar oft langdvölum á sumrin og mér er í barnsminni að alltaf var Solveig komin út í matjurtagarðinn sinn áður en við vöknuðum.  Hún var mikill brautryðjandi í matjurtarækt, ræktaði ólýsanlega margar tegundir af grænmeti, kartöflur, rófur, gulrætur, næpur og hreðkur, hvítkál, grænkál og blómkál og salat auk ýmissa kryddtegunda eins og steinselju og dill.  Svo var það rifsið sólberin og jarðarberin og meira að segja ræktaði hún um tíma belgjabaunir og stikkilsber.  Allri þessari ræktun kynntist hún í Noregi. 

Hún elskaði garðinn og sumarið var hennar tími, en á veturna var hún útivinnandi við kennslu og organistastörf. 

Þó Solveig hafi sjálfsagt alla ævi haft mikinn bókmenntáhuga fékk hún ekki næði til að njóta hans fyrr en síðustu árin. Hún las mikið ljóð, ævisögur, heimspeki og  skáldsögur bæði á íslensku, ensku og norsku.

 Hún átti alla tíð einlæga trú og bað fyrir ættingjum sínum og fjölskyldu daglega. 

Solveig lést í hárri elli á Blönduósi þann 29. júlí 2010.

Ég minnist Solveigar föðursystur minnar á þessum tímamótum með virðingu og þökk.  Einnig stendur kirkjan í þakkarskuld við hana fyrir áratuga þjónustu við guðsþjónustur á helgum og hátíðum.

Guð blessi minningu heiðurskonunnar Solveigar Kristbjargar Benedikstsdóttur Sövik.

 

Solveig Lára Guðmundsdóttir

Vígslubiskup á Hólum.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s