Austurlandspistill

Að vera vígslubiskup hefur í för með sér ýmsar og fjölbreyttar starfsskyldur, sem útheimta mikil ferðalög, enda nær umdæmi mitt frá Prestsbakka í Hrútfirði til Hofs í Álftafirði sunnan við Djúpavog.  Skálholtsbiskupsdæmi nær frá Lóni í Skaftafellssýslu yfir allan syðri helming landsins og alla Vestfirði.

Auk ferðalaga um stiftið eru oft fundir í Reykjavík af ýmsu tilefni, sem ég ætla ekki að ræða um í þessum pistli.

Ferðir mínar um stiftið fyrir jól voru mest af hátíðlegum tilefnum, kirkjuafmæli og æskulýðsmót.  Eftir jólin hefur verið rólegra á því sviði svo ég hef notað tímann og ekið á milli presta og átt við þau góð samtöl um starfið og líðan í starfi.

Heimsóknir til sóknarnefnda eru líka afar mikilvægar því það eru þær sem bera starfið í söfnuðum sínum uppi undir forystu sóknarprestanna.

Nú er ég nýkomin heim til Hóla eftir eina slíka gefandi ferð.  Ég var boðuð á fund formanna sóknarnefnda á Héraði þar sem störf kirkjunnar voru rædd opinskátt og einlægt.  Það er svo endurnærandi að hitta fólk úr öllum stéttum samfélagsins sem hefur brennandi áhuga á kirkjustarfi, hugsar vel um kirkjurnar sínar og hefur lagt metnað sinn í að halda þeim vel við.  Það er líka sérstaklega áberandi á Austurlandi hve barna- og unglingastarf er þar í miklum blóma.  Það er það sem skiptir aðalmáli í starfinu okkar –barna- og unglingastarfið og það var gaman að heyra hversu áhugasöm börnin úr sveitunum í kringum Egilsstaði eru áhugasöm að koma í starfið sem er inni í bænum, bæði í hinu glæsilega safnaðarheimili við Egilsstaðakirkju og í hið rúmgóða og þægilega Krikjusel í Fellabæ.  Það er stórkostlegt að sjá hvað kirkjan beggja megin Fljótsins hefur komið sér upp góðri starfsaðstöðu.  Eftir að hafa hitt sóknarnefndarfólk á Héraði á mánudagkvöld og fengið þessa fínu gistingu hjá sr. Jóhönnu Sigmarsdóttur sat ég héraðsnefndarfund á þriðjudagsmorgninum þar sem farið var yfir metnaðarfulla fjárhagsáætlun sem leggja á fyrir héraðsfund þann 7. apríl.n.k. Það sem mér fannst athyglisverðast var að öll áhersla héraðssjóðs er á því að styrkja barna- og æskulýðsstarf í prófastsdæminu, halda mót og styrkja ferðir.  Það er afar mikilvægt í þessum landsfjórðungi þar sem börnin búa dreift og ótrúlegar fjarlægðir á milli staða þó göng séu komin á milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar.

Þriðji fundur minn í þessari fundalotu var að sitja stjórnarfund Kirkjumiðstöðvarinnar á Austurlandi, sem er á Eiðum.  Í Kirkjumiðstöðinni eru haldnar einu sumarbúðir Þjóðkirkjunnar á landinu.  Þegar ég var að alast upp voru sumarbúðir á vegum Þjóðkirkjunnar víðs vegar um allt land og var ég m.a. fimm sumur í röð í sumarbúðum og má segja að þar hafi verið lagður grunnurinn að kirkjuáhuga mínum.  Sumarbúðunum í Kirkjumiðstöðinni á Austurlandi hefur verið haldið lifandi af mikilli elju þeirra sem að þeim hafa staðið og má þar helst nefna sr. Jóhönnu Sigmarsdóttur og Kristjönu Björnsdóttur auk prófastsins sr. Davíðs Baldurssonar. Nú hefur verið valinn nýr forstöðumaður Kirkjumiðstöðvarinnar og er það sr. Þorgeir Arason héraðsprestur.

Eftir þessa stuttu ferð á Hérað, er ég mun fróðari um kirkjustarfið í Austurlandsprófastdæmi og hét því að koma þangað fljótt aftur.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s