Greinasafn | apríl 2013

Mikilvægt að læra af mistökum

Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum, fundaði í gær með Sighvati Karlssyni, sóknarpresti á Húsavík, þar sem farið var yfir aðkomu hans að máli Guðnýjar Jónu Kristjánsdóttur. Að loknum þeim fundi átti vígslubiskup fund með sóknarnefnd og sóknarpresti. Á þeim fundi las  sr. Sighvatur yfirlýsingu sem hann sendi fjölmiðlum eftir fundinn.

 

Þar viðurkennir sr. Sighvatur að hafa gert mistök í þessu máli. Hann segir jafnframt frá því að hann hafi haft samband við Guðnýju Jónu og beðist fyrirgefningar.

 

Sr. Solveig Lára sagði í samtali við kirkjan.is að sóknarpresturinn hefði gert mistök sem hann hafi lært af. Þar sem hann gerðist ekki brotlegur í starfi muni kirkjan ekki aðhafasta frekar í málinu. Í framhaldinu verður lögð áhersla á að skerpa verkferla sem varða það hvernig brugðist sé við ofbeldismálum sem komi inn á borð til presta. Verkferlarnir voru ekki nógu skýrir á sínum tíma en hafa verið bættir síðan.

 

Hún sagði einnig að á fundinum hefði komið fram að sóknarnefnd og sóknarprestur hefðu ríkan vilja til að leggja sitt af mörkum til að græða sárin í samfélaginu á Húsavík.

 

Hún tók jafnframt undir það sem Agnes M. Sigurðardóttir sagði í tilefni af þessu máli á þriðjudaginn var: Kirkjan hefur einsett sér að vera fyrirmyndarstofnun þegar kemur að viðbrögðum við kynferðisbrotum. Þegar mistök eru gerð í viðbrögðum kirkjunnar þarf að leiðrétta þau og læra af þeim. Þannig ætlar kirkjan að vinna.

 

Yfirlýsing Sighvats Karlssonar, sóknarprests á Húsavík

 

„Í tilefni af viðtali við Guðnýju Jónu Kristjánsdóttur í Kastljósi mánudagskvöldið 8. apríl vil ég taka fram eftirfarandi:

 

Ég hef haft samband við Guðnýju Jónu og beðið hana afsökunar á því að hafa ekki mætt henni með þeim stuðningi sem hún þurfti í kjölfar nauðgunar. Hugur minn stóð aldrei til þess að fá hana til að draga kæru sína til baka. Mér er nú ljóst mikilvægi þess að tala mjög skýrt í málum sem þessum.

 

Í kjölfar þessa alvarlega atburðar fór af stað erfið umræða innan samfélagsins á Húsavík. Ég gerði það sem í mínu valdi stóð til að koma í veg fyrir að undirskriftalisti til stuðnings gerandanum yrði birtur í Skránni. Ég reyndi  einnig að lægja öldurnar með yfirlýsingu sem birt var í Skránni. Af henni má ráða mína afstöðu sem var að réttvísin ætti að leiða þetta mál til lykta.

 

Í mínum huga er nauðgun mjög alvarlegur glæpur, sem ber að taka á sem slíkum. Það er skýlaus réttur þolandans að kæra slíkan verknað og að réttvísin fái að hafa sinn framgang. Í dag hika ég ekki við að hvetja þolendur til að leggja fram kæru í kynferðisbrotamálum og leita þeirrar aðstoðar fagaðila sem nú er í boði. Við verðum öll að draga lærdóm af þessu máli. Mistök sem þessi mega ekki endurtaka sig.“

 

Húsavík 10. apríl 2013,

Sighvatur Karlsson

Auglýsingar

Verkferli í Húsavíkurmálinu

Mér hefur verið falið af biskupi Íslands að skoða aðkomu prestsins á Húsavík í máli Guðnýjar Jónu, sem kom fram í Kastljósi í fyrrakvöld.  Fundur hefur verið boðaður með sóknarprestinum og sóknarnefnd á Húsavík í dag síðdegis.

Eftir þá skoðun mun ég skýra út hvernig aðkoma presta á að vera þegar skjólstæðingar hafa orðið fyrir ofbeldi.  Þeir minnispunktar fara hér á eftir:

  1. Það á aldrei að vera hlutverk presta að vera neins konar sáttargjörðaraðili milli þolenda og gerenda í ofbeldismálum.
  2. Prestur er sálusorgari í þeim skilningi að hann eða hún hlustar á alla og sýnir þeim skilning og veitir þeim styrk.
  3. Það er mikilvægt að þolendum ofbeldis sé trúað og þeim veitt sú faglega hjálp og stuðningur sem viðkomandi þarf á að halda.
  4. Gerendur geta líka leitað til presta og þau hlusta á alla, en taka aldrei afstöðu með ofbeldismönnum.
  5. Þegar um ofbeldissambúð er að ræða eiga prestar ekki að leita sátta, heldur hjálpa þolandanum út úr ofbeldissambúðinni.
  6. Prestar veita sálgæslu í fangelsum meðal dæmdra sakamanna, en samþykkja aldrei glæpinn sem framinn hefur verið af sér.
  7. Þegar klofningur verður í samfélögum er hlutverk prestsins á hlusta á einstaklinga, en ekki hópa.  Það er síðan vettvangur predikunarstólsins að boða sátt í samfélaginu, ekki með því að ágreiningurinn sé þaggaður niður heldur að hver og einn fái umhugsunarefni til að taka afstöðu til.
  8. Það er mikilvægt að setja sig ekki í dómarasæti hvorki yfir þolenda né gerenda.  Þolandi á rétt á því að fá stuðning samfélagsins, en gerandinn fær sinn dóm frá dómstólum.

Lærdómur:  Mikilvægt frá kirkjunnar hálfu að allir prestar geri sér grein fyrir þessum grundvallaratriðum.