Greinasafn | júlí 2013

Hvatning til kirkna Evrópu.

Þjóðkirkjan á aðild að þrennum alþjóðlegum samtökum, Alkirkjuráðinu WCC, Lúterska Heimssambandinu LWF og Kirknasambandi Evrópu CEC, sem eru eins og WCC samkirkjuleg samtök, sem vinna að einingu á milli hinna mismunandi kirkjudeilda í Evrópu.

Undirrituð fór nýlega á þing CEC, sem haldið var í Budapest ásamt sr. Gylfa Jónssyni og sr. Maríu Águstsdóttur.

Á þinginu var samþykkt ný stjórnarskrá samtakanna, sem á að miða að því að einfalda regluverkið og gera stjórnina skilvirkari með því að fækka stjórnarfólki úr 40 í 20.  Í þessu greinarkorni mun ég ekki fara nánar út í að skýra hver munurinn er á gömlu og nýju stjórnarskránni, en mig langar miklu fremur að koma á framfæri skýrslu sem þjóðmálanefnd samtakanna kom á framfæri á þinginu og var samþykkt í lok þess.

Skýrslan er í  sjö liðum og mun ég leitast við að koma sem flestu til skila sem þar stendur.

  1. Evrópa á krepputímum.

Heimskreppan hefur haft gríðarleg áhrif í samfélög Evrópu, sérstaklega í suður-, austur- og mið-Evrópu. Fjöldi fólks hefur misst vinnuna og hækkandi verðlag og lækkandi laun hafa mikil áhrif á líf margra.  Félagslega kerfið er undir miklu álagi og sparnaður og lífeyrir er ekki lengur tryggður.  Bilið milli ríkra og fátækra breikkar stöðugt í ríkjum Evrópu.

Ríkisstjórnir víða um Evrópu eiga erfitt  með að komast að sameiginlegri niðurstöðu og ábyrgð er ekki tekin eða sett yfir á aðra. Stjórnir ríkjanna hafa í auknum mæli misst traust og þar með hafa öfgahópar vaxið í mörgum Evrópulöndum.

Afleiðing þessarar þróunar er kynþáttahatur og spenna og eru afleiðingarnar þær að þeim sem eru  á félagslega jaðrinum er ýtt til hliðar.

Kirkjur Evrópu hafa leitast við að takast á við þessar aðstæður með því að hvetja sitt fólk til að vera vakandi gangvart umhverfinu, spara orku og vatn og stunda heiðarleg viðskipti, fletta ofan af vinnuþrælkun og mansali.  Margar kirkjur í Evrópu eru með sérstaka áætlun um félagslega þjónustu, veita menntun og stunda heilsugæslu. Með samstilltu átaki benda kirkjurnar á gildi hverrar manneskju.

CEC þingið hvetur allar aðildakirkjur sínar til að standa vörð um þau sem eru á jaðri samfélagsins og hvetur þær til samtals við stjórnmálamenn um lausn þeim til handa sem þjást vegna kreppunnar.

  1. Ungt fólk í Evrópu.

CEC þingið hefur veitt því athygli að efnahagskreppan hefur náð til allra hópa samfélagsins, sérstaklega ungs fólks sem finnst enginn von vera í framtíðinni og sviptir sig lífi.  Efnahagskreppan hefur nú staðið í fimm ár.  Árið 2012 jókst enn atvinnuleysi í Evrópu. Þetta hefur gríðarleg áhrif á ungt fólk.  Vegna atvinnuleysis ungs fólks í Evrópu þá eru unglingar innflytjenda í meiri hættu á að verða” týnda kynslóðin” en ungt fólk úr öðrum hópum samfélagsins.  Að vera atvinnulaus á unga aldri hefur áhrif á sjálfsmynd unga fólksins, dregur úr sjálfsvirðingu þeirra og sviptir þau von um framtíðina.

CEC þingið hvetur allar aðildakirkjur sínar til að styðja ungt fólk sem er í atvinnuleit.  Kirkjurnar geta glætt von hjá ungu fólki þegar þau sjá ekki framtíðina fyrir sér og við skorum á allar kirkjur að byggja upp von í lífi ungs fólks.  Kirkjurnar ættu að skilgreina hlutverk hinna ungu í því að sigrast á fátækt ungs fólks og vekja með þeim réttlætiskennd og samstöðu.

3.  Rómarfólk í Evrópu.

CEC þingið 2009 hvatti ríkisstjórnir og kirkjur til að standa vörð um réttindi Rómarfólks, Sinti fólks og annarra þjóða sem ferðast um.

CEC þingið í ár gleðst yfir því sem áunnist hefur s.l. fjögur ár.  Samt sem áður ítrekum við fyrra ákall vegna þess að lagaleg staða Rómarfólks er enn veik í mörgum Evrópulöndum.  Því mælum við með því að kirkjurnar hvetji til þess að unnið sé gegn fordómum og misrétti gagnvart þeim.

CEC þingið biður ríkisstjórnir um að hafa í gildi áætlun um að bæta aðstæður Rómarfólks, Sinti fólks og annarra þjóða sem ferðast um þegar þeim tekst ekki að mennta börnin sín eins og þau vilja, og aðstoða þau við að fá húsnæði og vinnu.

Auk þess hvetur CEC þingið kirkjurnar til að boða trú meðal Rómarfólks og vinna gegn fordómum, misrétti og vanrækslu meðal kirkna.

4. Verndun flóttafólks í Evrópu.

CEC þingið lítur með velþóknun á öll jákvæð skref sem tekin eru í átt til þess að skapa pólitískt hæli fyrir flóttafólk. Kirkjur Evrópu vekja athygli á því að ekki má mismuna fólki þegar pólitískt hæli er veitt.  Því hvetja kirkjurnar til þess að Evrópuþingið, Evrópuráðið og ríkisstjórnir Evrópu skoði þann ójöfnuð sem orðið hefur í þessari þróun, sérstaklega eftir að kreppan skall á og þjóðir Suður Evrópu hafa fengið fleiri hælisleitendur en áður.

CEC þingið syrgir öll þau sem hafa týnt lífi sínu á leiðinni til frekara öryggis.

Þess vegan hvetur þingið kirkjur Evrópu til að minnast allra þeirra sem látið hafa lífið á hættulegri ferð sinni til Evrópu.

Auk þess hvetur það ríkisstjórnir Evrópu til að setja það í forgang að bjarga bátum með flóttafólki sem eru í hættu.

5.  Miðausturlönd og Norður-Afrika.

a. CEC þingið vekur athygli á “arabiska vorinu” og fulltrúar þingsins þekkja von þjóðanna um lýðræði, stöðugleika og betra líf sem þjóðir þessa heimshluta bera í brjósti.

Evrópskar kirkjur tjá samstöðu með bræðrum og systrum, kristnum og muslimum, sem búa í þessum löndum og við berum virðingu fyrir viðleitni þeirra til lýðræðis og stöðugleika auk vilja þeirra til að byggja upp samfélag þar sem mannréttindi eru virt í samræmi við alþjóðasamninga.

Við hvetjum aðildarkirkjurnar til að biðja fyrir friði, stöðugleika og hagsæld við Miðjarðarhafið og hvetjum þær til að þróa og styrkja samstarf sína á milli.

b. Sýrland

CEC þingið hefur miklar áhyggjur af ástandinu í Sýrlandi þar sem spenna og ofbeldi eykst með hverjum deginum.  Borgarastríðið hefur nú þegar kostað marga lífið og hefur valdið því að fjöldi fólks er á flótta í nágrannalöndunum.  Við hvetjum alla aðila sem í hlut eiga, svo og Sameinuðu þjóðirnar og alþjóðasamfélgaið allt , að koma á samtali  milli aðila,  hvetja til friðar í Sýrlandi og tryggja varðveislu hinna miklu menningarverðmæta í Sýrlandi þar sem ólíkir menningarstraumar mætast.  Við skorum á þau sem halda föstum Metropolitan Yohann Ibrahim í Aleppo, Metropolitan Boulos Yazigi í Aleppo og ALexandrette í grísk-orþodoxu kirkjunni í Antiokkiu að láta þá tafarlaust lausa.

CEC þingið tjáir samstöðu með öllu kristnu fólki sem statt er í Sýrlandi með því að senda samstöðubréf til yfirmanna kirkjunnar.

c. Staðan í Egyptalandi

CEC þingið fylgdist með nýjustu fréttum frá Egyptalandi á meðan á þinginu stóð.  Eftir fjölmenn mótmæli þar sem milljónir tóku þátt tók herinn völdin.  Því miður hefur ofbeldi aukist og fólk hefur týnt lífi.

CEC þingið tjáir egyptskum borgurum samúð og samstöðu sem eru að reyna að vinna að þvi að finna stöðuga lausn í átt að lýðræði og réttlátari skiptingu auðsins.

Við hryggjumst yfir ofbeldi í Egyptalandi og hvetjum alla til að láta af því.  Við hvetjum alla í egyptsku samfélagi til að vinna að auknu lýðræði.  Við hvetjum sérstaklega til friðsamlegrar lausnar milli flokka samfélagsins og hvetjum kirkjur Evrópu til að styðja slíkar lausnir.

Við hvetjum aðildarkirkjurnar til að biðja fyrir friði og stöðugu réttlæti í Egyptalandi.  Sem kristnar kirkjur finnum við fyrir samkennd með koptísku kirkjunni í Egyptalandi og öðrum kristnum kirkjum, kristnum bræðrum og systrum sem búa í Egyptalandi og heitum því að vera í góðum tengslum við þau.  Við styðum við alla viðleitni þeirra til kristnar-muslimskrar samvinnu.  Við biðjum fyrir þeim og sannfærum þau um elsku okkar.

d. Staðan í Marokkó.

Flóttafólk frá stríðhrjáðum svæðum í Afríku hefur mikil áhrif á Evrópu.  Margt flóttafólk strandar í Marokkó, þar sem lítil sem enginn stuðningur kemur frá stjórninni. Og fólk býr við örbirgð.  Kirkjurnar vinna gott starf á þessum slóðum við að færa flóttafólkinu mat og veita þeim ráðgjöf.

CEC þingið hvetur aðildarkirkjurnar til að biðja fyrir þessu fólki og styðja kirkjur sínar við störf þeirra á þessu erfiða svæði.

6. Tjáningarfrelsi

CEC þingið lýsti gleði sinni yfir því frelsi sem miðlunartækni nútímans leiðir af sér. Um leið vill það leggja áherslu á að tjáningarfrelsi er forsenda trúfrelsins.

7. Trúfrelsi

CEC þingið leggur áherslu á að menningararfur Evrópu sé mikilvægur fyrir sjálfsmynd Evrópu. Vernda þarf kristna helgidóma og þeir þurfa að vera opnir til tilbeiðslu.  Þingið lýsir áhyggjum sínum yfir því að kirkjur hafa verið afhelgaðar s.l. 20 ár. Ef ekki er hægt að halda kristnum kirkjum við, þarf að breyta þeim í söfn sem allir hafa aðgang að og hægt er að nota til tilbeiðslu.

CEC þingið viðurkennir þau skref sem stjórnvöld í Tyrklandi hafa tekið varðandi trúfrelsi.  Samt sem áður vill þingið vekja athygli á því að að fjöldi tyrkneskra kirkna hefur verið breytt í moskur.

8. Handtaka H.E. Jovan erkibiskups í Ohrid og Metropolitansins í Skopje í serbnesku orþódoxu kirkjunni í fyrrum Júgóslavíu.

CEC þingið hefur fregnað af handtöku erkibiskups Jovan og álítur að að hún sé vegna baráttu hans fyrir mannréttindum og trúfrelsi.

CEC þingið staðfestir ákall WCC til Mannréttindasviðs Sameinuðu þjóðanna um að rannsaka trúfrelsi varðandi þetta mál.

CEC þingið ákallar mannréttindaráð Evrópu til að skoða þetta mál.   Sérstaklega óskar CEC þingið eftir því að stofnanirnar skoði sérstaklega hvort farbann þeirra séu í samræmi við reglur Evrópuráðsins.

Við hvetjum aðildakirkjur CEC til að sameinast í bæn og samstöðu með Jovan erkibiskupi með því að senda mótmælabréf til þeirra stjórnvalda sem bera ábyrgð á málinu.

Auglýsingar

Þar sem sólin á heima.

Predikun í Sólheimakirkju sunnudaginn 14. júlí 2013.

Náð sé með okkur öllum og friður frá Guði og  Drottni Jesú Kristi.

 

Kæru vinir!

Mikið er ánægjulegt að vera með ykkur öllum á þessum hátíðisdegi og til hamingju með kirkjuhátíðina ykkar.  Það er alltaf gaman að koma hingað að Sólheimum, hitta ykkur íbúana og gesti hér í þessu fallega umhverfi.  Ég er búin að vera á miklu ferð og flugi þetta sumarið bæði innan lands og utan og að koma til ykkar er eins og að koma heim…heim til Sólheima.

Síðast liðinn sunnudag predikaði ég í lútersku kirkjunni í miðborg Budapest í Ungverjalandi.  Í messunni var skírð lítil stúlka sem fékk nafnið Helia.  Það var glampandi sól í borginni, sumarhiti og mikil hátíðastemmning.  Nafnið, sem stúlkan fékk, Helia, er gríska og þýðir sól.

Presturinn talaði fallega til foreldranna og sagði að Helia litla væri mikill sólargeisli í lífi þeirra og hafi fært þeim mikla birtu og gleði.  Svo ávarpaði hann foreldrana og sagði:  Í hvert sinn sem Helia, litla sólin ykkar, gleður ykkur er Guð að minna ykkur á þá gjöf sem hún er til ykkar.  Litla sólin ykkar er eins og ljós Guðs sem birtist okkur í Jesú Kristi. Þetta fundust mér falleg orð.

 Jesús Kristur talaði um sjálfan sig sem ljós þegar hann sagði: 

Ég er ljós heimsins.  Sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins.  Þegar Jesús sagði þessi orð, þá var hann ekki að tala um vetrarmyrkrið eða næturmyrkrið, sem stundum hrjáir okkur hér á norðurslóðum.  Nei, hann var að tala um myrkrið sem stundum getur verið hérna innra með okkur og gerir okkur leið, vonsvikin og jafnvel reið.  Jesús vill vera ljós inn í það myrkur.

Jesús sagði svo margar fallegar setningar, sem gefa okkur djúpa næringu inn í daglegt líf okkar.  Ein af þessum fallegu setningum er í guðspjalli dagsins í dag, sem lesið var hér áðan. 

Þar segir Jesús:

„Ég er brauð lífsins. Þann mun ekki hungra sem til mín kemur og þann aldrei þyrsta sem á mig trúir.

Jesús er sem sagt ljós og brauð……sól og matur……þessar nauðþurftir okkar sem við þurfum alltaf á að halda.

 

Það var áreiðanlega ekki tilviljun að þessi staður sem við nú erum á ber nafn sólarinnar, Sólheimar, enda er áhrifarík lýsing Seselju Sigmundsdóttur á því þegar hún verður fyrir trúarlegri upplifun í Kaupmannahöfn þegar hún var ung stúlka. 

Dásamlegir ljósgeislar streymdu niður allt í kringum hana og hún stóð sjálf í ljómandi birtugeisla.  Í þessum ljósgeisla birtist Kristur henni sjálfur og sagði:

“Það sem þú nú sérð er ljós Krists og ef þú gætir þess ætíð að fylgja þessu ljósi, þarft þú aldrei að hræðast að þú finnir ekki rétta leið”.

 

Eftir þessa reynslu hét hún því að fylgja Kristi.

 

Slíka upplifun köllum við handleiðslu.  Við getum upplifað hana á mjög misnunandi hátt.  Ekki er víst að við upplifum öll handleiðslu Guðs á eins sterkan hátt og Sesselja gerði í Kaupmannahöfn, en við finnum samt hvernig Guð leiðir okkur frá einu skrefi til annars, dag eftir dag og æviskeið eftir æviskeið ef við virkilega höfum eyru okkar og augu opin.

Nú má vera að spurning vakni innra með þér um það hvernig við getum leitað þessarar handleiðslu og hvernig við verðum vör við hann í lífi okkar.  Svarið við því er einfalt.

 

Það er Biblían, bænin og brotning brauðsins.

 

Ef við sækjumst eftir því að leita handleiðslu Guðs er afar mikilvægt að lesa Biblíuna.  Sumum finnst hún of mikið torf og erfitt að byrja að lesa hana, en ég segi við ykkur:

Lesið einfaldar frásagnir guðspjallanna…lesið orð Jesú…þau eru einföld, auðlærð og veita mikla leiðsögn. 

Eitt af því sem ég geri daglega er að velja mér mannakorn að morgni dags á biblian.is og setja það inn á facebook síðuna mína….þar geta allir vinir mínir lesið það og ótrúlega mörgum líkar það vel og segja mér að orðið hafi einmitt talað beint inn í aðstæður þeirra.

Annað er bænin.  Hún þarf ekki að vera flókin.  Bæn þarf ekki að vera bæn um eitthvað, heldur miklu heldur að biðja Guð um vernd og leiðsögn.  Biðja Guð að leiða sig áfram og þá sýnir hann okkur tákn og merki ef við höfum eyru og augu opin fyrir því.

 

Þriðja atriðið er brotning brauðsins.  Jesús Kristur stofnaði hina heilögu kvöldmáltíð þegar hann borðaði í síðasta sinn með lærisveinum sínum.  Þá sagði hann að þetta skyldum við gera í hvert sinn sem við kæmum saman til að minnast hans.  Í kvöldmáltíðinni upplifum við samfélag við Jesú og samfélag hvert við annað.  Við sitjum til borðs með Jesú….hann er við borðsendann í himnaríki og við erum hér þessum heimi og upplifum nærveru hans á sérstakan hátt í brauði og víni.

Við fáum að njóta þessarar athafnar hér í dag.  Við minnumst Jesú með brotningu brauðsins og hugsum vel um orðin hans. 

Hann er brauð lífsins. 

Ef við eigum yndislegt samfélag við hann alla daga þá er hann eins og brauð fyrir þann sem er svangur.  Við þekkjum öll þá tilfinningu að vera svöng…er það ekki?  Það er ekki gott, þá líður okkur ekki vel og langar í góðan mat. 

Ef við lifum í þessum heimi og þekkjum ekki Jesú og allt það góða sem hann gerir fyrir okkur þá líður okkur jafnilla og þegar við erum svöng.  Þess vegna er svo gott að minna sig á samfélagið við Jesú á hverjum degi…..byrja á því að signa sig og segja svo við Jesú:  viltu vera með mér í allan dag.  Viltu vera ljós í myrkrinu mínu og viltu vera brauð í hungrinum mínu.

Og svo er gott að minna sig á þetta af og til yfir daginn og segja við okkur sjálf.  “Já, Jesús er með mér”  og þá finnum við hvað allt verður gott. 

Þetta er trúin, en allri trú fylgir efi.  Og svo ég vitni aftur í Sesselju Sigmundsdóttur þá spurði hún sig jafnan: Hvað er trú án efa?

Fyrir henni var þessi spurning jafn sjálfsögð og spurningin um það hvað matur væri án salts.  Efinn gerir trúna bragðsterkari.  Hún sagði að hinar raunverulegu spurningar spryttu úr efanum.

Vegna efans þurfum við sífellt að leita leiðsagnar Guðs.  Einn liður í þeirri leit er að koma til kirkju og það höfum við gert í dag.  Guði sé lof og þökk fyrir það.  Guð gefi að þegar við göngum héðan úr kirkjunni í dag, þá höfum við veganesti til lífsins sem bíður okkar í komandi viku.

Höfum líka í huga að hann er það ljós sem lýsir okkur áfram skref fyrir skref dag eftir dag.  Þess vegna er svo dýrmætt að hafa kertin ykkar logandi, bæði á altari Guðs og annars staðar þar sem við höfum þau nálæg.  Þau minna okkur í senn á borð síðustu kvöldmáltíðarinnar og eilífa lífið sem við eigum í vændum að loknu þessu lífi því Jesús sem er ljós heimsins og brauð lífsins er líka upprisan og lífið og í trú að hann munum við lifa þótt við deyjum.  Guð gefi að minnumst þess ávallt.

Guð blessi ykkur öll í Jesú nafni. Amen.

 

Samtal við hádegisverðarborð

Hann settist hjá okkur við hádegisverðarborðið síðasta daginn á Evrópuþingi kirkna sem haldið var í Budapest 3.-8. júlí s.l.

Fyrst sátum við þegjandi, en svo sagði hann okkur að hann væri að vinna við upptökur á þinginu.  Ég hafði ekki talað við hann áður.  Hann byrjaði að tala:

“Pabbi minn var prestur.  Hann kynntist finnskum kristniboðum á fjórða áratugnum sem styrktu hann til að læra guðfræði.  Hann varð svo prestur í litlu þorpi hér rétt fyrir norðan Budapest.”

Ég spurði: “Hvernig var að alast upp á prestsheimili hér á kommúnistatímanum?”

Ég var nefnilega enn að hugsa um hana Agnesi sem túlkaði predikunina mína deginum áður í lútersku kirkjunni í miðborg Budapest, en hún sagði mér að mamma hennar hefði fengið gamla konu sem bjó í nágrenninu til að fara með hana í sunnudagaskólann þegar hún var lítil.  Það var of hættulegt fyrir mömmu hennar að fara með hana sjálf því hún hefði getað misst vinnuna.  Hún vann hjá hernum. 

“En hvernig var þá að alast upp á prestsheimili?”  Þetta fannst mér áhugaverð spurning í ljósi þess hve fjölskylda Agnesar þurfti að fara leynt með trú sína.

Maðurinn við hádegiverðarborðið brosti og sagði: “Eftir 1956 breytti pabbi kirkjunni í leikhús og rak þar “skemmtanir” og  “samkomur”.  Þegar hann hafði leikið þennan leik í 10 ár komust stjórnvöld að því að hann var ekki menntaður á sviði leikhúsmála heldur var guðfræðimenntaður.  Þá lokuðu þeir leikhúsinu.  Pabbi keypti sér þá segulbandstæki og tók upp biblíulestra og predikanir og dreifði leynilega meðal þorpsbúa. 

“Og á hverju lifðu þið?” spurði ég full aðdáunar. 

“Við lifðum af landinu.  Pabbi var bóndi, en á veturna voru rólegir tímar og þá gat hann unnið við upptökurinar.”

Ég sagði honum frá því að uppreisnina í Budapest hafi oft borið á góma í barnæsku minni, en hún var í október árið 1956.  Ég sagði honum að ég væri fædd í nóvember 1956.  “Pabbi fór á samkomu í Gamla bíói til að mótmæla aðgerðum Sovétmanna, en mamma fékk ekki að fara með honum því það þótti ekki við hæfi að konur sem voru komnar átta mánuði á leið færu á slíkar samkomur.” 

Þegar ég sagði honum þetta horfði hann undrandi á mig og sagði svo:  “Ég er fæddur í janúar 1957 og mamma mín sagði að ég hefði grátið í heilt ár eftir að ég fæddist og taldi hún að ég hefði fengið áfall í móðurkviði þremur mánuðum fyrir fæðinguna þegar hörmungarnar riðu yfir Budapest.”

Við komum frá ólíkum heimum, en tengingin var sterk.  Bæði höfðum við upplifað uppreisnina í Budapest í móðurkviði á sama tíma.

Ég lauk samtalinu með því að segja:  “Og nú heldur þú áfram starfi pabba þíns með því að taka upp, miðla kirkjulegu efni og sjá um heimsíðu lútersku kirkjunnar í Ungverjalandi.  Hann kinkaði kolli brosandi og mér sýndist honum vökna um augu.