Samtal við hádegisverðarborð

Hann settist hjá okkur við hádegisverðarborðið síðasta daginn á Evrópuþingi kirkna sem haldið var í Budapest 3.-8. júlí s.l.

Fyrst sátum við þegjandi, en svo sagði hann okkur að hann væri að vinna við upptökur á þinginu.  Ég hafði ekki talað við hann áður.  Hann byrjaði að tala:

“Pabbi minn var prestur.  Hann kynntist finnskum kristniboðum á fjórða áratugnum sem styrktu hann til að læra guðfræði.  Hann varð svo prestur í litlu þorpi hér rétt fyrir norðan Budapest.”

Ég spurði: “Hvernig var að alast upp á prestsheimili hér á kommúnistatímanum?”

Ég var nefnilega enn að hugsa um hana Agnesi sem túlkaði predikunina mína deginum áður í lútersku kirkjunni í miðborg Budapest, en hún sagði mér að mamma hennar hefði fengið gamla konu sem bjó í nágrenninu til að fara með hana í sunnudagaskólann þegar hún var lítil.  Það var of hættulegt fyrir mömmu hennar að fara með hana sjálf því hún hefði getað misst vinnuna.  Hún vann hjá hernum. 

“En hvernig var þá að alast upp á prestsheimili?”  Þetta fannst mér áhugaverð spurning í ljósi þess hve fjölskylda Agnesar þurfti að fara leynt með trú sína.

Maðurinn við hádegiverðarborðið brosti og sagði: “Eftir 1956 breytti pabbi kirkjunni í leikhús og rak þar “skemmtanir” og  “samkomur”.  Þegar hann hafði leikið þennan leik í 10 ár komust stjórnvöld að því að hann var ekki menntaður á sviði leikhúsmála heldur var guðfræðimenntaður.  Þá lokuðu þeir leikhúsinu.  Pabbi keypti sér þá segulbandstæki og tók upp biblíulestra og predikanir og dreifði leynilega meðal þorpsbúa. 

“Og á hverju lifðu þið?” spurði ég full aðdáunar. 

“Við lifðum af landinu.  Pabbi var bóndi, en á veturna voru rólegir tímar og þá gat hann unnið við upptökurinar.”

Ég sagði honum frá því að uppreisnina í Budapest hafi oft borið á góma í barnæsku minni, en hún var í október árið 1956.  Ég sagði honum að ég væri fædd í nóvember 1956.  “Pabbi fór á samkomu í Gamla bíói til að mótmæla aðgerðum Sovétmanna, en mamma fékk ekki að fara með honum því það þótti ekki við hæfi að konur sem voru komnar átta mánuði á leið færu á slíkar samkomur.” 

Þegar ég sagði honum þetta horfði hann undrandi á mig og sagði svo:  “Ég er fæddur í janúar 1957 og mamma mín sagði að ég hefði grátið í heilt ár eftir að ég fæddist og taldi hún að ég hefði fengið áfall í móðurkviði þremur mánuðum fyrir fæðinguna þegar hörmungarnar riðu yfir Budapest.”

Við komum frá ólíkum heimum, en tengingin var sterk.  Bæði höfðum við upplifað uppreisnina í Budapest í móðurkviði á sama tíma.

Ég lauk samtalinu með því að segja:  “Og nú heldur þú áfram starfi pabba þíns með því að taka upp, miðla kirkjulegu efni og sjá um heimsíðu lútersku kirkjunnar í Ungverjalandi.  Hann kinkaði kolli brosandi og mér sýndist honum vökna um augu.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s