Þar sem sólin á heima.

Predikun í Sólheimakirkju sunnudaginn 14. júlí 2013.

Náð sé með okkur öllum og friður frá Guði og  Drottni Jesú Kristi.

 

Kæru vinir!

Mikið er ánægjulegt að vera með ykkur öllum á þessum hátíðisdegi og til hamingju með kirkjuhátíðina ykkar.  Það er alltaf gaman að koma hingað að Sólheimum, hitta ykkur íbúana og gesti hér í þessu fallega umhverfi.  Ég er búin að vera á miklu ferð og flugi þetta sumarið bæði innan lands og utan og að koma til ykkar er eins og að koma heim…heim til Sólheima.

Síðast liðinn sunnudag predikaði ég í lútersku kirkjunni í miðborg Budapest í Ungverjalandi.  Í messunni var skírð lítil stúlka sem fékk nafnið Helia.  Það var glampandi sól í borginni, sumarhiti og mikil hátíðastemmning.  Nafnið, sem stúlkan fékk, Helia, er gríska og þýðir sól.

Presturinn talaði fallega til foreldranna og sagði að Helia litla væri mikill sólargeisli í lífi þeirra og hafi fært þeim mikla birtu og gleði.  Svo ávarpaði hann foreldrana og sagði:  Í hvert sinn sem Helia, litla sólin ykkar, gleður ykkur er Guð að minna ykkur á þá gjöf sem hún er til ykkar.  Litla sólin ykkar er eins og ljós Guðs sem birtist okkur í Jesú Kristi. Þetta fundust mér falleg orð.

 Jesús Kristur talaði um sjálfan sig sem ljós þegar hann sagði: 

Ég er ljós heimsins.  Sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins.  Þegar Jesús sagði þessi orð, þá var hann ekki að tala um vetrarmyrkrið eða næturmyrkrið, sem stundum hrjáir okkur hér á norðurslóðum.  Nei, hann var að tala um myrkrið sem stundum getur verið hérna innra með okkur og gerir okkur leið, vonsvikin og jafnvel reið.  Jesús vill vera ljós inn í það myrkur.

Jesús sagði svo margar fallegar setningar, sem gefa okkur djúpa næringu inn í daglegt líf okkar.  Ein af þessum fallegu setningum er í guðspjalli dagsins í dag, sem lesið var hér áðan. 

Þar segir Jesús:

„Ég er brauð lífsins. Þann mun ekki hungra sem til mín kemur og þann aldrei þyrsta sem á mig trúir.

Jesús er sem sagt ljós og brauð……sól og matur……þessar nauðþurftir okkar sem við þurfum alltaf á að halda.

 

Það var áreiðanlega ekki tilviljun að þessi staður sem við nú erum á ber nafn sólarinnar, Sólheimar, enda er áhrifarík lýsing Seselju Sigmundsdóttur á því þegar hún verður fyrir trúarlegri upplifun í Kaupmannahöfn þegar hún var ung stúlka. 

Dásamlegir ljósgeislar streymdu niður allt í kringum hana og hún stóð sjálf í ljómandi birtugeisla.  Í þessum ljósgeisla birtist Kristur henni sjálfur og sagði:

“Það sem þú nú sérð er ljós Krists og ef þú gætir þess ætíð að fylgja þessu ljósi, þarft þú aldrei að hræðast að þú finnir ekki rétta leið”.

 

Eftir þessa reynslu hét hún því að fylgja Kristi.

 

Slíka upplifun köllum við handleiðslu.  Við getum upplifað hana á mjög misnunandi hátt.  Ekki er víst að við upplifum öll handleiðslu Guðs á eins sterkan hátt og Sesselja gerði í Kaupmannahöfn, en við finnum samt hvernig Guð leiðir okkur frá einu skrefi til annars, dag eftir dag og æviskeið eftir æviskeið ef við virkilega höfum eyru okkar og augu opin.

Nú má vera að spurning vakni innra með þér um það hvernig við getum leitað þessarar handleiðslu og hvernig við verðum vör við hann í lífi okkar.  Svarið við því er einfalt.

 

Það er Biblían, bænin og brotning brauðsins.

 

Ef við sækjumst eftir því að leita handleiðslu Guðs er afar mikilvægt að lesa Biblíuna.  Sumum finnst hún of mikið torf og erfitt að byrja að lesa hana, en ég segi við ykkur:

Lesið einfaldar frásagnir guðspjallanna…lesið orð Jesú…þau eru einföld, auðlærð og veita mikla leiðsögn. 

Eitt af því sem ég geri daglega er að velja mér mannakorn að morgni dags á biblian.is og setja það inn á facebook síðuna mína….þar geta allir vinir mínir lesið það og ótrúlega mörgum líkar það vel og segja mér að orðið hafi einmitt talað beint inn í aðstæður þeirra.

Annað er bænin.  Hún þarf ekki að vera flókin.  Bæn þarf ekki að vera bæn um eitthvað, heldur miklu heldur að biðja Guð um vernd og leiðsögn.  Biðja Guð að leiða sig áfram og þá sýnir hann okkur tákn og merki ef við höfum eyru og augu opin fyrir því.

 

Þriðja atriðið er brotning brauðsins.  Jesús Kristur stofnaði hina heilögu kvöldmáltíð þegar hann borðaði í síðasta sinn með lærisveinum sínum.  Þá sagði hann að þetta skyldum við gera í hvert sinn sem við kæmum saman til að minnast hans.  Í kvöldmáltíðinni upplifum við samfélag við Jesú og samfélag hvert við annað.  Við sitjum til borðs með Jesú….hann er við borðsendann í himnaríki og við erum hér þessum heimi og upplifum nærveru hans á sérstakan hátt í brauði og víni.

Við fáum að njóta þessarar athafnar hér í dag.  Við minnumst Jesú með brotningu brauðsins og hugsum vel um orðin hans. 

Hann er brauð lífsins. 

Ef við eigum yndislegt samfélag við hann alla daga þá er hann eins og brauð fyrir þann sem er svangur.  Við þekkjum öll þá tilfinningu að vera svöng…er það ekki?  Það er ekki gott, þá líður okkur ekki vel og langar í góðan mat. 

Ef við lifum í þessum heimi og þekkjum ekki Jesú og allt það góða sem hann gerir fyrir okkur þá líður okkur jafnilla og þegar við erum svöng.  Þess vegna er svo gott að minna sig á samfélagið við Jesú á hverjum degi…..byrja á því að signa sig og segja svo við Jesú:  viltu vera með mér í allan dag.  Viltu vera ljós í myrkrinu mínu og viltu vera brauð í hungrinum mínu.

Og svo er gott að minna sig á þetta af og til yfir daginn og segja við okkur sjálf.  “Já, Jesús er með mér”  og þá finnum við hvað allt verður gott. 

Þetta er trúin, en allri trú fylgir efi.  Og svo ég vitni aftur í Sesselju Sigmundsdóttur þá spurði hún sig jafnan: Hvað er trú án efa?

Fyrir henni var þessi spurning jafn sjálfsögð og spurningin um það hvað matur væri án salts.  Efinn gerir trúna bragðsterkari.  Hún sagði að hinar raunverulegu spurningar spryttu úr efanum.

Vegna efans þurfum við sífellt að leita leiðsagnar Guðs.  Einn liður í þeirri leit er að koma til kirkju og það höfum við gert í dag.  Guði sé lof og þökk fyrir það.  Guð gefi að þegar við göngum héðan úr kirkjunni í dag, þá höfum við veganesti til lífsins sem bíður okkar í komandi viku.

Höfum líka í huga að hann er það ljós sem lýsir okkur áfram skref fyrir skref dag eftir dag.  Þess vegna er svo dýrmætt að hafa kertin ykkar logandi, bæði á altari Guðs og annars staðar þar sem við höfum þau nálæg.  Þau minna okkur í senn á borð síðustu kvöldmáltíðarinnar og eilífa lífið sem við eigum í vændum að loknu þessu lífi því Jesús sem er ljós heimsins og brauð lífsins er líka upprisan og lífið og í trú að hann munum við lifa þótt við deyjum.  Guð gefi að minnumst þess ávallt.

Guð blessi ykkur öll í Jesú nafni. Amen.

 

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s