Hólaræða Vilhjálms Egilssonar

Ræða á Hólahátíð 2013

 

Virðulegu gestir Hólahátíðar.

 

Auðmjúkur, glaður og stoltur stend ég hér í tilefni af þessari merkilegu hátíð sem er jafnan einn af helstu menningarviðburðum ársins.  Mikill heiður er  að fá að halda ræðu í þessari 250 ára gömlu kirkju á afmæli hennar en ég lærði á unga aldri að meta hana sem merkilegasta guðshús á Íslandi ef ekki víðar.  Ég er þakklátur forráðamönnum hátíðarinnar fyrir að trúa mér fyrir þessu hlutverki.  Hér í Hóladómkirkju fyllist ég alltaf lotningu fyrir mikilleik kristinnar trúar og kristinnar kirkju.  Því bið ég gesti að láta sér ekki bregða þótt ég bogni aðeins í hnjáliðunum við að standa hér í kirkjunni og tala í stað þess að sitja á kirkjubekk og hlusta eins og jafnan þegar ég kem hingað við athafnir.  (Það er líka vandasamt að tala hér eftir að Kristján Jóhannsson er búinn að syngja)

 

Hólar voru höfuðstaður Norðurlands um langleiðina í 500 ár eins og við öll þekkjum.  Hér bjuggu á tíðum hundruð manna og mikil samskipti voru út um allt, innan Skagafjarðar, við önnur héruð í Hólastifti og önnur lönd.  Hólar voru miðstöð valda og menningar í kaþólskum sið.  Við siðaskiptin og eflingu konungsvaldsins minnkaði hlutverk staðarins þótt um 250 ár liðu þangað til biskupsstóllinn var aflagður.

 

Nú gegnir Hólastaður nýju hlutverki bæði innan kirkjunnar og menntakerfisins.  Embætti vígslubiskups hefur verið að festast í sessi hér á Hólum og Hólaskóli hefur þróast á háskólastig.  Hér á Hólastað þarf bæði að rækta mikilvægt hlutverk í íslenskri menningu, trúarlífi og sögu og eins að leggja hönd á plóg á þremur vaxtarsviðum atvinnulífsins,  hestamennsku og tengdri starfsemi, fiskeldi og ferðamennsku.  Tilvera Hólastaðar í núverandi hlutverki er þó endalaus barátta og staðurinn hefur sannarlega þurft á stuðningi og velvilja að halda og ótrúlega margir hafa viljað leggja sitt af mörkum til að verja og efla þá starfsemi sem hér er.

 

Saga Hóla getur kennt okkur margt um hvernig vegur einstakra stofnana, staða, svæða eða landa rís og hnignar.  Hún segir okkur að við getum aldrei gengið að neinu vísu um velgengni eða undanhald.  Allt er breytingum undirorpið.  Þær verða bæði vegna utanaðkomandi tilverknaðar eða gerast af völdum okkar sjálfra og sjaldnast eru ástæðurnar einhlítar.  Við þurfum alltaf að vera á vaktinni og bregðast við þeim breytingum sem eru yfirvofandi.  Reyna að sjá þær fyrir og hvaða möguleikar eru til staðar.  Breytingarnar eru sumar til góðs en aðrar skapa vandamál.  Ákvarðanir okkar og aðgerðir hafa sumar hverjar afleiðingar til langs tíma til hins betra eða verra.

 

Allar ákvarðanir okkar eru líka mótaðar af hinni endalausu baráttu milli góðs og ills.  Hvenær verður heilbrigður metnaður okkar um betra líf að græðgi og sókn eftir óhófi?  Er tilgangur okkar sjálfra göfugur eða eru þær utanaðkomandi breytingar sem hafa áhrif á okkur árangur af vinnu heiðarlegs fólks?  Óteljandi svör eru sjálfsagt til við öllum þessum spurningum.

 

 Á nútímamáli tölum við um samkeppnishæfni.  Við tölum um hversu fyrirtæki, stofnanir, atvinnugreinar, samfélög, ríki eða þjóðir eru samkeppnishæf.  Það er eilíft viðfangsefni að viðhalda samkeppnishæfni.  Án metnaðar til þess að standa okkur í samkeppninni drögumst við aftur úr, fyrirtækið, stofnanirnar, samfélagið, þjóðin.  Við getum ákveðið fyrir okkur sjálf að allt eigi að vera eins og það var.  En við getum ekki ráðið yfir öðrum og komið í veg fyrir breytingar annars staðar sem hafa áhrif á okkur.

 

 Í fyrirtækjarekstri er beinlínis ætlast til að samkeppni ríki og fyrirtækin takist á samkvæmt leikreglum sem þeim eru settar.  Stjórnendur sem ekki ná að stýra rekstri fyrirtækja sinna í gegnum ólgusjó samfelldra breytinga þurfa oftast að horfa upp á þau veslast upp og jafnvel líða undir lok.  Við þurfum ekki að fletta lengi íslenskri atvinnusögu til að sjá hversu atvinnurekstur er hverfull.  Það eru ekki mörg íslensk fyrirtæki sem hafa náð 100 ára aldri þrátt fyrir að okkur hafi oft fundist að öflug fyrirtæki væru nánast ósigrandi fyrirbæri.  Við getum líka velt því fyrir okkur hversu mörg fyrirtæki eru eldri en 50 ára og hve mörg ná aldrei einu sinni að lifa í eitt ár.   En allt þetta ferli, samkeppnin, stofnun nýrra fyrirtækja, undanhald þeirra sem ekki ráða við breytingarnar,  baráttan um hylli viðskipavinanna, sífelld nýsköpun, getan til að taka ákvarðanir og áhættu, agi og eljusemi er það sem skilar velgengni í atvinnurekstri og samfélagi okkar áfram.  Við þurfum heilbrigðan metnað en græðgin er ótrúlega oft ástæða ófara í rekstri fyrirtækja.

 

En af hverju voru Hólar forystustaður á Norðurlandi um meira en 400 ára skeið?  Var það ekki vegna þess að kaþólska kirkjan var öflug og rík og stundaði umfangsmikinn atvinnurekstur samhliða kirkjulegu starfi?  Biskupsstóllinn var ekki bara í leiðandi hlutverki í trúarlegu tilliti heldur líka stærsta fyrirtækið á Norðurlandi.  Var ekki prentsmiðjan sem Jón Arason setti upp á Hólum fyrsta alvöru iðnfyrirtækið á Íslandi?  Og skilaði starfsemi prentsmiðjunnar ekki ómældum verðmætum fyrir íslenska menningu?  Kaþólska kirkjan er reyndar merkilegt fyrirbæri.  Hún er líklega elsta lifandi stofnun í heiminum, um 2000 ára gömul.  Hún er eldri en öll fyrirtæki og öll ríki.  Stórveldi hafa komið og farið, stofnanirnar og fyrirtækin líka, en kaþólska kirkjan hefur náð að lifa af allar þrengingar, mistök, misnotkun, afbrot, og allt annað sem úrskeiðis hefur farið í sögu hennar.  Eitthvað er kaþólska kirkjan að gera rétt innan um og saman við öll rangindin.

 

Helgustu munir Hóladómkirkju eru frá kaþólskum sið.  Við lítum á þá sem dýrgripi og mikilvægan þátt í menningararfi okkar.  Hversu margir kirkjugripir eða aðrir manngerðir hlutir á Íslandi eru svona gamlir og enn í fullri notkum?  Eflaust fáir ef nokkrir.  Kannski ættum við þó að nefna Öxarárfoss á Þingvöllum.  Þegar við veltum því fyrir okkur hvað það er sem gerir kaþólsku kirkjuna svona samkeppnishæfa að hún hafi lifað í 2000 ár, eða þess vegna kirkjuna okkar sem á sér yfir 500 ára sögu, er margt sem kemur í hugann.  Eitt er að kirkjan er ekki til fyrir sjálfa sig heldur fyrir Guð og fyrir fólkið.  Og í kirkjunni erum við ekki bara að þiggja heldur líka að gefa.  Hugsum okkur þessa bráðum 500 ára gömlu kirkjumuni og hvað mikið var í þá lagt á sínum tíma.  Kostnaðurinnn var sjálfsagt mældur í jarðarverðum.  Og það tók svo mikla fyrirhöfn að koma t.d. altarisbríkinni hingað að menn treystu sér ekki í að flytja hana burtu eftir siðaskiptin þegar eignir kaþólsku kirjunnar voru gerðar upptækar.    

 

Er þetta ekki einmitt dæmi um gjöf sem ein kynslóð á 16. öld færði komandi kynslóðum þannig að þær mættu nota og njóta og upplifa fegurð og mikilleik kristindómsins?  Er ekki Hóladómkirkja sjálf annað dæmi?  Gefin af kynslóð á 18. öldinni.  Er ekki saga kirkjunnar full af dæmum um slíkar gjafir?  Ekki bara gjöfum í formi bygginga, mannvirkja eða muna heldur líka óefnislegar gjöfum sem skipta óendalega miklu máli.  Er ekki kærleikurinn í kristinni trú kannski stærsta gjöfin?  Og er ekki kristin trú sem kirkjan byggir grunn sinn á alveg ótrúlega magnað sköpunarverk sem aldrei eyðist?  Og hefur kaþólska kirkjan ekki lifað í 2000 ár og okkar kirkja í meira en 500 ár vegna þess að kristin kirkja hefur æðri tilgang og allan tímann hefur trúað fólk og kirkjan sjálf verið að gefa af sér kærleika og veita stuðning í erfiðleikum?

 

Vissulega hefur kirkjan í allri sögu sinni þurft mikið til sín.  Og hversu oft höfum við ekki lesið að mörgum hafi þótt nóg um og gagnrýnt eða ásælst eignir kirkjunnar og séð ofsjónum yfir tekjum hennar?  En kirkjan lifir ekki án þess að fá eitthvað til sín og hún lifir heldur ekki án þess að vera að gera eitthvað sem er verðmætt fyrir trúað fólk og samfélagið.  Kaþólskan kirkjan hefur þannig, ef við notum nútímamálið, verið samkeppnishæf í 2000 ár.  Henni hefur almennt tekist að gefa af sér meira en hún hefur tekið til sín þrátt fyrir allar þær hremmingar sem hún hefur orðið fyrir, utan sem innan frá.

 

Við sem hér sitjum nú erum aðeins lítil peð í allri sögu kirkjunnar og sögu Hólastaðar.  Samt höfum við ætlað okkur hlutverk.  Við komum hér saman til þess að njóta hvers annars, staðarins sjálfs, umhverfisins og dagskráninnar.  Við erum líka að sýna samstöðu og stuðning og leggja okkar af mörkum til þess að skapa stemmingu og auka veg staðarins.  Hólar eru merkilegur staður og með því að koma hingað á Hólahátíð gerum við staðinn og okkur sjálf ennþá merkilegri. 

 

Við veltum líka fyrir okkur framtíð Hólastaðar.  Hólar eiga stórt pláss í hjörtum okkar en verður starfsemin hér og mannlífið samkeppnisfært á næstu árum?  Hvað mun ráða því?  Á sínum tíma var biskupsstóllinn aflagður vegna þess að forystumönnum landsins þótti starfsemin ekki vera að skila þeim verðmætum sem réttlætti kostnaðinn við reksturinn.  Þegar uppbygging staðarins var hafin á ný með stofnun Bændaskólans á Hólum höfðu forystumenn þess tíma þá von að sú fjárfesting skilaði sér til samfélagsins til lengri tíma.  Bændaskólinn hefur nú breyst í Háskólann á Hólum og verkefnin eru allt önnur en þau voru við stofnun skólans.  Skólinn hefur þannig leitast við að þróast og skapa verðmæti fyrir samfélagið sem réttlæta það sem til hans er lagt.  Embætti vígslubiskups á Hólum var líka þáttur í endurreisn staðarins.  Og framtíð Hóla á mikið undir því að vígslubiskupi takist að skapa starfi sínu þann sess innan kirkjunnar og í samfélaginu að forystumenn kirkjunnar telji ástæðu til þess að styrkja það og efla

 

Við lifum nú mikla aðhaldstíma í opinberum fjármálum og ekki er við því að búast að því ástandi linni á næstunni.  Meðan fjárfesting í íslensku atvinnulífi er í lágmarki og markviss framgangur útflutningsstarfsemi dregst á langinn verður erfitt að afla þeirra skatttekna sem þarf til að veita opinberu fé til nýrrar uppbyggingar hvort heldur er hér á Hólum, í Skagafirði eða annars staðar.  Reyndar hefur verið tekið saman að yfir 100 opinber störf hafa horfið úr Skagafirði á undanförnum árum.  Þau störf eru ekkert endilega á leiðinni til baka á næstu misserum jafnvel þótt menn beiti sér stíft við velviljaða ráðamenn.   Því þarf ný ráð til þess að sækja fram hér á Hólum og spá í það hvernig hægt er að skapa nýjar tekjur fyrir þá þjónustu sem hér er veitt og hvernig hægt er að byggja upp þjónustu sem sækir tekjur til annarra en ríkissjóðs Íslands.  Að þessu leyti eru Hólar í sömu stöðu og fjölmargar opinberar stofnanir og aðilar sem sæka sér tekjur til ríkisins.  Þegar upp er staðið snýst málið um hvernig til tekst við að þrauka og skjóta nýjum stoðum undir framtíðarstarfsemi.

 

Þýðing friðar og sátta er eitt af því merkilega sem við getum lært af sögu Hóla.  Veldi Hólastaðar hneig einmitt eftir deilur og ófrið.  Slík örlög hefur margur staðurinn mátt þola.  Í umhverfi sátta og samlyndis þrífast viðskipti og velmegun.  Bæði þarf að huga að innri sátt í samfélaginu sem friði milli þjóða og ríkja. 

 

Átökin í kringum siðaskiptin og aftakan á Jóni Arasyni biskup og sonum hans tveimur vekja upp margar tilfinningar og gefa tilefni til margvíslegra hugsana um sögu okkar og þá vegferð sem við erum á.  Við sem erum alin upp hér í Skagafirðinum og myndað sterk tilfinningaleg tengsl við Hólastað og söguna horfum stundum með miklum trega til þessara atburða sem urðu til þess að mikilvægi Hóla fór minnkandi.  Þær stundir koma vissulega sem okkur finnst að Jóns Arasonar og sona hans hafi enn ekki verið hefnt sem skyldi.  Örugglega voru mörg okkar sem upplifðum þjóðhátíðina hér á Hólum sumarið 1974 fyrir tæpum 40 árum og horfðum á uppfærslu Þjóðleikhússins á leikritinu um Jón Arason fullviss um að Guð væri með okkur í liði. 

 

Manntjónið á Íslandi í kringum siðaskiptin var þó hverfandi miðað við þann skaða sem átök milli trúarhópa hafa oft verið í sögunni.  Við þurfum ekki annað en horfa á nágranna okkar á Norður Írlandi eða til Balkansskagans til þess að spá í það sem er hendi næst.  Ef við viljum líta lengra þá kraumar múslimaheimurinn af átökum milli einstakra fylkinga.  Við getum endalaust rifjað upp sögu átaka og skelfilegra atburða vegna átaka milli trúarhópa. 

 

Almennt finnst okkur líklega að friðsælt sé í kringum okkur og vissulega höfum við sem búum á Íslandi og í Vestur Evrópu lifað lengsta tímabil friðar og framfara síðan á mektardögum Rómarveldis.  Við erum farin að líta á friðinn í okkar heimshluta sem sjálfsagðan og gerum ekki ráð fyrir öðru en að hann haldist.  Samt segir sagan okkur að það er aldrei hægt að taka friðinn sem gefinn og á þetta minna atburðirnir í kringum siðaskiptin okkur.

 

Orsakir ófriðar eru óteljandi og í gegnum söguna hafa margar þjóðir, ríki eða hópar þurft að berjast fyrir rétti sínum, lífsháttum, menningu eða tilveru.  Því skyldi enginn halda því fram að stríð sé ónauðsynlegt og óverjandi undir öllum kringumstæðum.  Þess vegna eru flestar friðelskandi þjóðir með varnarviðbúnað og við Íslendingar værum örugglega í þeim hópi ef við teldum okkur hafa efni á því.  Ófriður og átök hafa hins vegar alltaf tjón og mannlegar hörmungar í för með sér.  Hjá því verður aldrei komist.

 

En meginviðfangsefni okkar hlýtur að vera að hlúa að friðnum og skapa áfram skilyrði fyrir hagsæld og velferð.  Þetta er líka hlutverk okkar sem hér sitjum þrátt fyrir að skipta litlu máli þegar kemur að þeim atburðum sem við lesum um í heimsféttunum.   Við þurfum að líta í eigin barm og skoða hvernig hugsunarháttur okkar og viðhorf þróast.  Erum við umburðarlynd eða fordómafull?  Viljum við vinna með öðrum eða lokum við okkur af?  Viljum við breyast eða ætlum við að reyna að hanga endalaust á því sem við höfum?  Hugsum við aðeins um að forðast ófrið við aðrar þjóðir en gætum ekki að innri friði í samfélaginu?

 

Ég nefndi að stundum læðist að okkur Skagfirðingum að Jóns Arasonar sé ekki enn fullhefnt.  Slíkt viðhorf hjápar okkur hins vegar ekki fram á veginn og við munum aldrei með nokkru móti geta látið það stjórna gerðum okkar.  Við skulum bara horfa í kringum okkur og hugsa til nágranna okkar í ýmsum Evrópulöndum þar sem fjölskyldur urðu fyrir tjóni og hörmungum kynslóð fram af kynslóð af völdum ófriðar og átaka.  Hvað verður leyst með endalausum hefndum fyrir fyrri misgjörðir?  Horfum til Balkansskagans og átakanna þar fyrir 20 árum.  Horfum núna til Arabaheimsins og illvirkjanna þar.    

 

Við skulum líka taka eftir því og þakka fyrir það að ótrúlega margt hefur farið til betri vegar hjá okkur í þessum efnum á undanförnum áratugum.  Við erum orðin miklu opnari og umburðarlyndari en við vorum.  Á þeim tíma sem ég var að alast upp á Króknum þótti sjálfsagt að uppnefna fólk og endalaust voru sagðar sögum af þeim sem þóttu ekki eins og fólk er flest.  Stríðni eða at í fólki þótti ekki tiltökumál heldur gengust menn frekar upp í slíku.  Stundum rifja ég upp í gamni að á þessum tíma þótti það slæmt ef stúlka af Sjálfstæðisheimili giftist Framsóknarmanni en miklu verra þótti ef hún giftist Hofsósingi.  Nú er þetta allt liðin tíð og markvisst unnið gegn einelti og stríðni.  Gott fólk er í öllum stjórnmálaflokkum og Hofsósingar hafa víða látið að sér kveða og getið sér gott orð.

 

Verkefnin sem við þurfum að leysa eru mörg ef við viljum hlúa að friðnum og ná árangri.  Við þurfum sérstaklega að gæta að umburðarlyndi gagnvart mismunandi trúarbrögðum og fólki af erlendum uppruna.  Ísland framtíðarinnar þarf á innflytjendum að halda og við verðum að nýta krafta þeirra og gera þá að góðum Íslendingum.  Við skulum líka hafa í huga að vel meinandi og umburðarlynt fólk af mismunandi trúarbrögðum á svo margt sameiginlegt og það á ekki samleið með öfgasinnuðu fólki sem býr sér til óvini á grundvelli trúar, þjóðernis eða mismunandi menningar. 

 

Ef við tölum um múslima sérstaklega er það staðreynd að þeir eru fólk sem er upp til hópa friðelskandi og velviljað.  Mér finnst oft að trúað fólk af mismunandi trúarbrögðum og þjóðernum eigi í raun miklu meira sameiginlegt innbyrðis en fólk af sama þjóðerni sem er ýmist trúað eða trúlaust og allt þar á milli.  Snýst þetta ekki um þegar upp er staðið hvort við teljum okkur þurfa á Guði að halda eða ekki?  Teljum við okkur þurfa að biðja Faðir vorið eða ekki?    

 

Í Faðir vorinu eru fimm línur sem snúa að okkur sjálfum og hafa verið óbreyttar í 2000 ár.  Þar af eru fjórar óskir okkur til handa og eitt heit sem við vinnum.  Við biðjum Guð um að gefa okkur hið daglega brauð.  Kannski eru einhverjir svo öruggir um sinn efnahag að þeir þurfi ekki að nefna þetta?  Viljum við ekki flest ná endum saman af okkar daglega striti og jafnvel skilja eitthvað eftir okkur til komandi kynslóða?  Viljum við ekki uppskera af heilbrigðum metnaði okkar en forðast græðgina? Við biðjum Guð um að fyrirgefa okkur vorar skuldir.  Eru einhverjir svo syndlausir að þurfa aldrei neina fyrirgefningu eða telja sig alltaf eiga rétt á því að ganga á hlut annarra?  Við vinnum það heit í Faðirvorinu að fyrirgefa þeim sem gera á okkar hlut.  Er það vænlegt að fyrirgefa aldrei neitt?  Hvað verður þá um friðinn meðal þjóðanna, innan samfélagsins, í fjölskyldunum og á heimilunum? Já, við Skagfirðingar þurfum jafnvel að fyrirgefa þeim sem létu höggva Jón Arason.  Það er ýmislegt sem við þurfum að leggja á okkur fyrir trúna. Við biðjum Guð um að leiða okkur ekki í freistni.  Hver er svo sterkur að falla aldrei fyrir freistingunum?  Eða telja menn kannski að allt sé leyfilegt og ekkert skilgreint sem freistingar sem ætti að forðast?  Og svo biðjum við Guð um að frelsa okkur frá illu.  Hver þarf ekki á vernd að halda gagnvart hinu illa sem ýmist getur búið innra með manni sjálfum eða komið utan frá?

 

Ég held því fram að góður múslimi og sjálfsagt gott fólk af öllum helstu trúarbrögðum heimsins hafi svipaða afstöðu gagnvart tilverunni og okkur kristnum er kennt að við eigum að lifa eftir samkvæmt Faðir vorinu.  Þess vegna við eigum að  ekki efna til óvináttu við slíkt fólk á trúarlegum forsendum.  Við eigum ekki að búa til óvini úr fólki sem getur verið vinir okkar.  Við eigum að geta verið saman í stjórnmálaflokkum og unnið sameiginlega að landsins gagni og nauðsynjum.

 

Við þurfum líka að forðast að láta hrífast um of með tískusveiflum innan kirkjunnar og þess vegna annarra trúarbragða.  Þessar sveiflur geta verið frá argasta ofstæki að óhóflegu agaleysi og nýjum kenningum er ætlað að vera grunnur að leiðbeiningum um hvernig við eigum að hafa lífi okkar.  Margir vilja leggja hönd á plóg við að þróa nýjar trúarkenningar og við höfum sannarlega verið vitni að því innan kristinnar kirkju og þurfum jafnvel ekkert að leita út fyrir landsteinanna í þeim efnum.  Við skulum hins vegar spyrja okkur um líftíma hinna ýmsu trúarkenninga og skýringa á kristinni trú.  Við þurfum að halda ró okkar og gæta þess að halda okkur sem mest við Faðirvorið, hið 2000 ára gamla akkeri.  Nýjar trúarkenningar og ályktanir af þeim þurfa alltaf að flútta við Faðirvorið.  Annars verða þær ekki langlífar.

 

Hólar áttu fyrr á öldum í miklum viðskiptum og samskiptum út fyrir landsteinana eins og fornleifagröftur í hinum forna hafnarbæ, Kolkuósi, sýnir.  Ég held því fram að framgangur Hóla og þess vegna Skagafjarðar eða landsbyggðarinnar í heild muni fara eftirþví hvernig til tekst við að byggja upp og efla starfsemi í útflutningi vöru eða þjónustu til annarra landa.  Við skulum rifja upp að það eru ekki bara Hólar sem hafa tapað fornri frægð.  Skagfirðingar voru í kringum 4500 manns um miðja 19. öld sem er svipaður fjöldi og býr hér í héraðinu nú.  Við ættum að vera nú með a.m.k. 25 þúsund íbúa í Skagafirðinum ef héraðið hefði haldið stöðu sinni.  Ný störf hafa ekki skapast í nægilegum mæli fyrir þau sem hafa horfið vegna breyttra atvinnuhátta og þeirrar stefnu sem ríkt hefur allan þennan tíma að byggja upp höfuðborgarsvæðið á kostnað landsbyggðarinnar.  Segja má að lykilákvörðunin í uppbyggingu höfuðborgarsvæðisins hafi verið tekin strax þegar Fjölnismenn og fleiri urðu undir í þeirri baráttu sinni að endurreisa Alþingi á Þingvöllum í stað Reykjavíkur.

 

Hvorki Hólar né Skagafjörður munu eflast og ná fyrri stöðu nema það takist að efla útflutningsframleiðslu og utanríkisviðskipti í héraðinu.  Þess vegna þurfa Skagfirðingar og Hólamenn að vera opnir gagnvart öllu samstarfi og samskiptum við aðrar þjóðir sem geta stutt við þá þróun.  Við þurfum líka að læra að nýta okkur alla innflytjendurna til þess að skapa viðskipta tengsl við fyrri heimkynni þeirra.

 

Friðarboðskapur kristinnar trúar og allt annað sem hún innrætir okkur um kærleika, umhyggju og velferð samfélagsins alls er engin andstæða framfara og velmegunar heldur þvert á móti.  Þetta er sérstaklega vert að hafa í huga hér á Hólum í þessari kirkju þar sem við finnum svo vel fyrir nálægð Guðs almáttugs og sjáum sögu okkar sjálfra ljóslifandi fyrir okkur.

 

Hvaða hugsanir um framtíð Hóla spretta upp úr þessum jarðvegi?  Væri það ekki göfug hugsjón fyrir framtíðina að Hólar verði eins konar akademía friðar og framfara?  Og eflist ekki bara sem íslensk menntastofnun heldur hasli sér völl á alþjóðlegum vettvangi.  Og standi fyrir rannsóknum á þýðingu og mótun fjölmenningarlegs samfélags á Íslandi og taki auk þess ríkan þátt í menntun og eflingu þekkingar fyrir atvinnulíf landsbyggðarinnar.  Ég tel að það þurfi að tengja sterkt saman boðskap kristinnar trúar og framfarir og velgengni í atvinnulífi.  Mikið er nú fjallað um nauðsyn á bættu siðferði í atvinnulífinu en það vantar að byggja þá umfjöllun á hinum trúarlega grunni kristninnar.  Á Hólum getur starfsemi kirkjunnar og skólans eflst saman og staðurinn öðlast nýja frægð víða um heim.   

 

Ágætu gestir Hólahátíðar.

 

Mér hefur orðið tíðrætt um atburði liðinnar tíðar hér á Hólum, uppgang, hnignun og endurreisn staðarins, nauðsyn þess að horfa fram á veginn og aðlagast breytingum, þýðingu friðarins og okkar hlutverk hvers og eins í þeim efnum.  Það er lán kristinna manna að friður og sátt meðal manna skapar jarðveg fyrir efnahagslegar framfarir og velgengni.

 

Við lifum á tímum þar sem iðulega er reynt að gera lítið úr trú og trúuðu fólki.  Stundum finnst mér eins og fólk vilji laga trúna að sjálfu sér og ófullkomleika sínum.  Kemur þetta ekki fyrir okkur sjálf?  Þetta er ekki nýtt í sögunni.  Við getum huggað okkur við það.  Við verðum þó alltaf að gæta umburðarlyndis og viðurkenna að hver og einn einstaklingur getur þurft að velja sér sína leið í trú sinni.  

 

Við sem hér erum nú í hinni gömlu Hóladómkirkju, já, jafnvel inni í sjálfri Íslandssögunni, skulum virða og þakka þá staðreynd að kristin kirkja hefur lifað í 2000 ár vegna þess að grunnboðskapur hennar og meginhlutverk hafa ekki breyst.  Við skulum þakka fyrir það leiðarljós sem trúin á Guð er okkur mönnunum og sýna henni virðingu.  Það er vænlegra að leitast við að breyta eftir vilja Guðs heldur en að reyna að beygja hann undir okkur.   Það verður alltaf líklegast til árangurs í lífi og starfi.  Slíka leiðsögn þurfum við héðan frá Hólum.

 

      

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s