Prestur í 30 ár

Í dag 12. júní árið 2013 eru nákvæmlega 30 ár síðan ég vígðist til prests í Dómkirkjunni í Reykjavík.  Þá lagði herra Pétur Sigurgeirsson heitinn ásamt vígsluvottum hönd á höfuð mér og eftir það var ég orðinn prestur.  Ég hélt samt áfram að vera ég sjálf og engin umbreyting varð á mér sem manneskju.  Samt var allt breytt.  Ég var að hefja krefjandi starf sem prestur í Þjóðkirkjunni og þar hef ég starfað allar götur síðan.

Þessi dagur fyrir 30 árum var sólríkur, en kaldur.  Með mér vígðust sr. Flóki Kristinsson sóknarprestur á Hvanneyri og sr. Bjarni Th. Rögnvaldsson, sem hefur látið af störfum.  Eftir vígsluna í Dómkirkjunni buðu foreldrar mínir fjölskyldu, vinum og vígsluvottum til hádegisverðar á Reynistað. 

Um kvöldið buðu herra Pétur og frú Sólveig nafna mín gestum í kvöldverð heim í biskupsgarð.  Allt var þetta ógleymanlegt og dásamlegt.  Ég held að aldrei hvorki fyrr né síðar hafi verið sagt eins oft við mig og þennan dag: Guð blessi þig.

Og það hefur svo sannarlega Guð gert.  Guð hefur blessað mig óendanlega mikið í starfi mínu.  Ég hef þurft að ganga erfið spor og gleðispor með sóknarbörnum mínum í borg og í sveit.  Ég hef alltaf fundið fyrir nærveru Guðs og blessun við það allt saman.  Ég hef fundið mig veika og ég hef fundið mig sterka, en án Guðs hefði ég ekki gert neitt. 

Mér þykir óendanlega vænt um kirkjuna mina.  Henni hef ég helgað líf mitt.  Stundum finnst mér ég hafa helgað henni allt líf mitt þannig að ég hef oft vanrækt fjölskyldi mina og látið starfið ganga fyrir.  Prestsstarfið er nefnilega ekki eins og önnur störf þar sem við förum í vinnuna og förum úr vinnunni.  Við fáum það oft á tilfinninguna að við séum alltaf í vinnunni.  Ég var búin að vera prestur í mörg ár, ég man ekki hvað mörg, þegar ég áttaði mig á mikilvægi þess að gera greinarmun á þessu og læra að takmarka mig.  Samt á ég ennþá svolítið erfitt með það.

Þegar ég horfi yfir farinn veg og hugsa:  Hvað er það mikilvægasta sem ég hef gert á þessum 30 árum, þá þarf ég ekki að hugsa mig um.  Allra, allra mikilvægasta starf prestsins er barna- og unglingastarf.  Alls staðar hef ég lagt höfuðáherslu á það, í Bústaðakirkju, Seltjarnarneskirkju og á Möðruvöllum.

Og nú þegar ég er komin til Hóla og hef tækifæri til að tala í söfnuðum víða um norður- og austurland þreytist ég ekki á því að tala um mikilvægi þessa starfs.  Á þessu sviði á fagmennska okkar að njóta sín best.

Í dag 12. júní árið 2013 horfi ég um öxl, en ég horfi líka fram á veginn bjartsýn fyrir hönd kirkjunnar eins og ég hef alltaf verið.

Auglýsingar

Við höfum frelsi til að skapa okkar eigin guðfræði. Predikun á guðfræðidögum á Hólum.

Kæru vinir!

Það er gott að koma saman til guðfræðidaga á Hólum að vori til á þessum dásamlega degi þegar sólin skin fram eftir kvöldum, fuglarnir farnir að syngja, grasið farið að grænka og blómin að springa út.  Ég er búin að hlakka til þessara daga í allan vetur þegar snjórinn lá yfir með öllum sínum þunga alveg frá því í október og þar til í síðustu viku.

Já, það er gott að koma saman og fá brýningu frá Marteini Lúter í erindunum sem dr. Gunnar Kristjánsson hefur flutt okkur hér á þessum guðfræðidögum.

Þó ég hafi ferðast með Gunnari og Önnu konu hans á Lútersslóðir þá hefur verið svo gott að fá þessa djúpu innsýn inn í guðfræði Lúters.

Þegar við vorum á Lútersslóðum kom mér mest á óvart að finna fyrir því hve jarðvegurinn var tilbúinn fyrir boðskap hans og hvað fólk fékk að heyra nákvæmlega það sem það þurfti að heyra og því var fylgið við hugmyndir hans svo mikið og hreyfing hans barst svo fljótt út.

Þess vegna þurfum við að skoða vel hver jarðvegurinn er í dag.  Við þurfum að spyrja okkur að því hvað það er sem þjóðin þarf að heyra og hvað þjóðin vill heyra.  Hvað er það sem brennur á börnum og unglingum?  Hvað er það sem þau þrá að heyra?

Þetta er meðal þeirra góðu spurning sem hafa vaknað með okkur þegar við höfum íhugað siðbótina.  Við þurfum að vera vakandi fyrir því að skoða þetta sérstaklega allt til ársins 2017, þegar við höldum fimm alda siðbótarafmælið.  Siðbótarafmælið á nefnilega ekki að vera aðeins eitt minningarár, heldur þurfum að við að vera með siðbótarprógram í gangi öll þessi ár eins og þekkist í nágrannalöndunum.

Það er hollt að lesa gagnrýni Marteins Lúters, sem birtist í bók hans: Til hins kristna aðals.

Það er gott að læra af honum gagnrýna hugsun.  Við höfum mikið rætt um frelsið í umræðum okkar.  Við þurfum að vita að við höfum frelsi til að skapa okkar eigin guðfræði.  Það gerum við reyndar þegar við predikum.  Við erum að skapa okkar eigin guðfræði í hverri einustu predikun, þegar við túlkum Guðs orð út frá okkar eigin trú og tjáum eigin trú og trúarreynslu.  Við eigum að mega tjá miðmunandi trú og það höfum við gert hér og það er dásamlegt að finna það frelsi.

Ef Marteinn Lúter væri hér gætum við spurt okkur að því að hverju gagnrýni hans myndi beinast.  Myndi hún beinast að okkur prestunum eða sóknarnefndarfólki eða kirkjuþingi og kirkjuráði? Myndi hún beinast gangvart biskupnum eða okkur vígslubiskunum?  Við þurfum að þora að spyrja okkur slíkra spurning og við þurfum að þora að taka þann slag.

Við þurfum að hugsa vel um greinarnar 95, sem Lúter hengdi á dyr hallarkirkjunnar í Wittenberg.  Við þurfum að spyrja okkur að því um hvað þær myndu snúast í dag.  Það er mikilvægt að hvert og eitt okkar skrifi sínar eigin 95 greinar.

En þá er komið að guðspjalli dagsins, guðspjalli síðasta sunnudags sem var þrenningarhátíðin og þessi orð sem ég las áðan, skírnarskipunin, höfum við öll lesið svo oft.  Við kunnum þau utanað og ætlumst jafnvel til að fermingarbörnin okkar kunni þau utanað.  Við förum með þau við hverja einustu skírn.  En hvað eru orð skírnarskipunarinnar að segja okkur?

Þau eru að segja okkur að fara út, skíra og kenna.  Hér er áherslan á boðun, skírn og kennslu.

Það er skoðun mín að núna sé mikilvægast fyrir okkur að kenna.

Trúararfurinn er ekki drukkinn með móðurmjólkinni eins og var hér áður fyrr og ekki fá börnin trúararfinn í skólakerfinu.  Þess vegna gengur það ekki lengur að það viðgangist að í mörgþúsund manna söfnuðum séu aðeins 15-20 börn í sunnudagaskólanum eins og kom frá í umræðum hér í dag.

Við þurfum að setja barna- og unglingastarf í algeran forgang í kirkjunni.  Barna- og unglingastarf er gríðarlega mikilvægt, langmikilvægasta starfið sem við vinnum í kirkjunni.

Og svo er það annað:  Við eigum að boða trú við jarðarfarir.  Þá er fólk opið fyrir því að heyra kristinn boðskap.  Þá hlustar fólk mjög vel og þarf á því að halda að heyra okkur boða upprisuboðskapinn.  Það á ekki að þekkjast að upprisan sé ekki boðuð í hverri einustu jarðarför, upprisuboðskapurinn um að Kristur er upprisinn með okkur í öllu lífinu og tekur við okkur að loknu þessu lífi.

Það er gott að vera hér með ykkur á þessum guðfræðidögum þar sem ríkir vinátta og kærleikur þrátt fyrir  opin skoðanaskipti.  Þegar við förum héðan þá bið ég þess að við finnum fyrir handleiðslu Guðs í lífi okkar og störfum.

Við höfum öll nú í vor upplifað páskahátíðina þar sem við boðuðum upprisuna, við höfum lifað gleðidagana og nýlega haldið hvítasunnuna hátíðlega, hátíð heilags anda.  Við þurfum að finna fyrir leiðsögn heilags anda í lífi okkar og störfum fyrir Guðs ríkið.

Til þess eru guðfræðidagar að fylla á tankinn.  Við erum svo oft tóm eftir langan vetur og þá er svo gott að koma saman og endurnærast í samfélagi hvert við annað.  Þannig verðum við betur í stakk búin undir áframhaldandi starf.

Guð blessi okkur öll í því í Jesú nafni. Amen.

Mikilvægt að læra af mistökum

Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum, fundaði í gær með Sighvati Karlssyni, sóknarpresti á Húsavík, þar sem farið var yfir aðkomu hans að máli Guðnýjar Jónu Kristjánsdóttur. Að loknum þeim fundi átti vígslubiskup fund með sóknarnefnd og sóknarpresti. Á þeim fundi las  sr. Sighvatur yfirlýsingu sem hann sendi fjölmiðlum eftir fundinn.

 

Þar viðurkennir sr. Sighvatur að hafa gert mistök í þessu máli. Hann segir jafnframt frá því að hann hafi haft samband við Guðnýju Jónu og beðist fyrirgefningar.

 

Sr. Solveig Lára sagði í samtali við kirkjan.is að sóknarpresturinn hefði gert mistök sem hann hafi lært af. Þar sem hann gerðist ekki brotlegur í starfi muni kirkjan ekki aðhafasta frekar í málinu. Í framhaldinu verður lögð áhersla á að skerpa verkferla sem varða það hvernig brugðist sé við ofbeldismálum sem komi inn á borð til presta. Verkferlarnir voru ekki nógu skýrir á sínum tíma en hafa verið bættir síðan.

 

Hún sagði einnig að á fundinum hefði komið fram að sóknarnefnd og sóknarprestur hefðu ríkan vilja til að leggja sitt af mörkum til að græða sárin í samfélaginu á Húsavík.

 

Hún tók jafnframt undir það sem Agnes M. Sigurðardóttir sagði í tilefni af þessu máli á þriðjudaginn var: Kirkjan hefur einsett sér að vera fyrirmyndarstofnun þegar kemur að viðbrögðum við kynferðisbrotum. Þegar mistök eru gerð í viðbrögðum kirkjunnar þarf að leiðrétta þau og læra af þeim. Þannig ætlar kirkjan að vinna.

 

Yfirlýsing Sighvats Karlssonar, sóknarprests á Húsavík

 

„Í tilefni af viðtali við Guðnýju Jónu Kristjánsdóttur í Kastljósi mánudagskvöldið 8. apríl vil ég taka fram eftirfarandi:

 

Ég hef haft samband við Guðnýju Jónu og beðið hana afsökunar á því að hafa ekki mætt henni með þeim stuðningi sem hún þurfti í kjölfar nauðgunar. Hugur minn stóð aldrei til þess að fá hana til að draga kæru sína til baka. Mér er nú ljóst mikilvægi þess að tala mjög skýrt í málum sem þessum.

 

Í kjölfar þessa alvarlega atburðar fór af stað erfið umræða innan samfélagsins á Húsavík. Ég gerði það sem í mínu valdi stóð til að koma í veg fyrir að undirskriftalisti til stuðnings gerandanum yrði birtur í Skránni. Ég reyndi  einnig að lægja öldurnar með yfirlýsingu sem birt var í Skránni. Af henni má ráða mína afstöðu sem var að réttvísin ætti að leiða þetta mál til lykta.

 

Í mínum huga er nauðgun mjög alvarlegur glæpur, sem ber að taka á sem slíkum. Það er skýlaus réttur þolandans að kæra slíkan verknað og að réttvísin fái að hafa sinn framgang. Í dag hika ég ekki við að hvetja þolendur til að leggja fram kæru í kynferðisbrotamálum og leita þeirrar aðstoðar fagaðila sem nú er í boði. Við verðum öll að draga lærdóm af þessu máli. Mistök sem þessi mega ekki endurtaka sig.“

 

Húsavík 10. apríl 2013,

Sighvatur Karlsson

Verkferli í Húsavíkurmálinu

Mér hefur verið falið af biskupi Íslands að skoða aðkomu prestsins á Húsavík í máli Guðnýjar Jónu, sem kom fram í Kastljósi í fyrrakvöld.  Fundur hefur verið boðaður með sóknarprestinum og sóknarnefnd á Húsavík í dag síðdegis.

Eftir þá skoðun mun ég skýra út hvernig aðkoma presta á að vera þegar skjólstæðingar hafa orðið fyrir ofbeldi.  Þeir minnispunktar fara hér á eftir:

  1. Það á aldrei að vera hlutverk presta að vera neins konar sáttargjörðaraðili milli þolenda og gerenda í ofbeldismálum.
  2. Prestur er sálusorgari í þeim skilningi að hann eða hún hlustar á alla og sýnir þeim skilning og veitir þeim styrk.
  3. Það er mikilvægt að þolendum ofbeldis sé trúað og þeim veitt sú faglega hjálp og stuðningur sem viðkomandi þarf á að halda.
  4. Gerendur geta líka leitað til presta og þau hlusta á alla, en taka aldrei afstöðu með ofbeldismönnum.
  5. Þegar um ofbeldissambúð er að ræða eiga prestar ekki að leita sátta, heldur hjálpa þolandanum út úr ofbeldissambúðinni.
  6. Prestar veita sálgæslu í fangelsum meðal dæmdra sakamanna, en samþykkja aldrei glæpinn sem framinn hefur verið af sér.
  7. Þegar klofningur verður í samfélögum er hlutverk prestsins á hlusta á einstaklinga, en ekki hópa.  Það er síðan vettvangur predikunarstólsins að boða sátt í samfélaginu, ekki með því að ágreiningurinn sé þaggaður niður heldur að hver og einn fái umhugsunarefni til að taka afstöðu til.
  8. Það er mikilvægt að setja sig ekki í dómarasæti hvorki yfir þolenda né gerenda.  Þolandi á rétt á því að fá stuðning samfélagsins, en gerandinn fær sinn dóm frá dómstólum.

Lærdómur:  Mikilvægt frá kirkjunnar hálfu að allir prestar geri sér grein fyrir þessum grundvallaratriðum.

Kristur er upprisinn

Predikun í Hóladómkikrju á páskadag 2013

 

Ná sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

 

Síðast liðið miðvikudagskvöld sat ég hér uppi í kór kirkjunnar og tók þátt í bænastund sem er hér alla miðvikudaga kl. 18:00.  Þetta eru yndislegar stundir, taka stuttan tíma en eru ákaflega dýrmætar og innihaldsríkar stundir.  Síðast liðið miðvikudagskvöld, kvöldið fyrir skírdag var ég sérstaklega hugsi.  Ég íhugaði atburðarás, bænadaganna og páskanna og hugsaði um píslarsöguna.  Ég hugsaði um þessa merku atburði sem gerðust eftir að Jesús stóð upp frá hinni síðustu kvöldmáltíð með lærisveinum sínum og þau gengu út í garðinn Getsemane.  Ég hugsaði um það þegar hann var handtekinn og leiddur bæði fyrir Pílatus og Heródes og var dæmdur til dauða á krossi.

Ég hugsaði þar sem ég sat þarna að ég vissi ekkert hvað næstu dagar myndu bera í skauti sér fyrir mig.  Ég vissi ekkert um komandi daga, annað en það sem ég var búin að skipuleggja, en hvernig allt myndi verða vissi ég ekki af því lífið er alger óvissa.  Við getum ekki vitað hvað kemur fyrir í lífi okkar.

Sum okkar eiga þá lífreynslu að hafa lent í miklum áföllum, sorg og veikindum.  Þau okkar sem þekkja áföllin vita að stundum sest að okkur kvíði.  Kvíði hefur stundur verið skilgreindur sem ótti við að eitthvað hræðilegt gerist.  Við þekkjum öll þessa tilfinningu því kvíði er eitthvað sem við finnum öll fyrir, er sammannleg tilfinning.

Inn í óvissuástand lífsins talar páskaboðskapurinn.

Kristur er upprisinn.  Páskaboðskapurinn eru mestu gleðifréttir allra tíma.  Kristur er upprisinn.  Í upphafi kristni notaði fólk þessa kveðju þegar það heilsaðist.  Kristur er upprisinn.  Og því var svarað:  Kristur er sannarlega upprisinn.

Setjum okkur í spor vina Jesú þegar þau komu að krossi Jesú.  Við getum ímyndað okkur vonbrigðin, uppgjöfina, sorgina og algert ráðaleysi gangvart þessum hræðilegum aðstæðum sem krossdauði Jesú var.  Við getum reynt að ímynda okkur hve hörmulegur hann var með því að horfa á hinn forna róðukross sem hangir hér í Hóladómkirkju og krossfestingarmyndina á altarisbríkinni. 

Inn í þessar aðstæður talar páskaboðskapurinn. 

Kristur er upprisinn. 

Það er alveg óhætt að segja að á föstudaginn langa hafa vinir Jesú ekki getað ímyndað sér hvað myndi gerast á þriðja degi, jafnvel þó hann hafi verið búinn að segja þeim frá því að það myndi gerast, þá áttu þau ekki von á því að þessi undur og stórmerki myndu gerast.  Konurnar koma að gröfinni og hún er tóm. 

Jesús er upprisinn.  Setjum okkur í spor þeirra.

En hvaða merkingu skyldi upprisuboðskapurinn hafa fyrir okkur núna í dag, á þessari hátíð og í hversdagslífinu sem við við lifum alla jafnan?

Upprisa Jesú segir okkur tvennt:

Í fyrsta lagi segir hún okkur að Jesús er lifandi með okkur alla daga í lífinu sem við erum að lifa, í erfiðleikum, í sorg og í gleði.

Í öðru lagi segir hún okkur að Jesús tekur við okkur þegar við deyjum.  Þegar augu okkar lokast í síðasta sinn og hjartað okkar hættir að slá, þá mun Jesús standa hjá okkur með opinn faðminn og taka á móti okkur inn í ljósið sitt, kærleikann sinn og friðinn sinn.

Páskaguðspjallið er lesið oftar í kirkjunni en á páskum.  Það er ólíkt jólaguðspjallinu sem aðeins er lesið á jólum.  Páskaguðspjallið er lesið við útfarir.  Það er góð tilfinning að tala við útfarir með páskaboðskapinn að veganesti.  Það er gott að geta miðlað þeirri trú að látinn lifir hjá Guði og það er gott að fá að heyra þann boðskap þegar við kveðjum okkar nánustu.

Við skulum láta upprisutrúna móta líf okkar.  Við skulum láta hana móta allt okkar líf og hafa áhrif á allt sem við gerum og segjum.  Það er gott að vakna á morgnana þegar við vitum að hinn lifandi upprisni Kristur er með okkur og fer með okkur inn í daginn.

Það er gott að signa sig að morgni dags og biðja Guð að leiða sig.  Það er gott að signa sig að kvöldi dags og biðja Guð að vaka yfir sér yfir nóttina.

Lífið er óvissa.  Við vitum ekkert hvað gerist á morgun.  Ekki frekar en ég vissi á miðvikudagskvöldið hvað myndi gerast í mínu lífi næstu fjóra daga.

Lífið er óvissa.  Allt er óvissa nema það eitt að Kristur er upprisinn og hann vill leiða þig og styðja í hverju sem kemur fyrir þig og reisa þig við.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda.  Svo sem var í upphafi er og verður um alder alda.  Amen.

Austurlandspistill

Að vera vígslubiskup hefur í för með sér ýmsar og fjölbreyttar starfsskyldur, sem útheimta mikil ferðalög, enda nær umdæmi mitt frá Prestsbakka í Hrútfirði til Hofs í Álftafirði sunnan við Djúpavog.  Skálholtsbiskupsdæmi nær frá Lóni í Skaftafellssýslu yfir allan syðri helming landsins og alla Vestfirði.

Auk ferðalaga um stiftið eru oft fundir í Reykjavík af ýmsu tilefni, sem ég ætla ekki að ræða um í þessum pistli.

Ferðir mínar um stiftið fyrir jól voru mest af hátíðlegum tilefnum, kirkjuafmæli og æskulýðsmót.  Eftir jólin hefur verið rólegra á því sviði svo ég hef notað tímann og ekið á milli presta og átt við þau góð samtöl um starfið og líðan í starfi.

Heimsóknir til sóknarnefnda eru líka afar mikilvægar því það eru þær sem bera starfið í söfnuðum sínum uppi undir forystu sóknarprestanna.

Nú er ég nýkomin heim til Hóla eftir eina slíka gefandi ferð.  Ég var boðuð á fund formanna sóknarnefnda á Héraði þar sem störf kirkjunnar voru rædd opinskátt og einlægt.  Það er svo endurnærandi að hitta fólk úr öllum stéttum samfélagsins sem hefur brennandi áhuga á kirkjustarfi, hugsar vel um kirkjurnar sínar og hefur lagt metnað sinn í að halda þeim vel við.  Það er líka sérstaklega áberandi á Austurlandi hve barna- og unglingastarf er þar í miklum blóma.  Það er það sem skiptir aðalmáli í starfinu okkar –barna- og unglingastarfið og það var gaman að heyra hversu áhugasöm börnin úr sveitunum í kringum Egilsstaði eru áhugasöm að koma í starfið sem er inni í bænum, bæði í hinu glæsilega safnaðarheimili við Egilsstaðakirkju og í hið rúmgóða og þægilega Krikjusel í Fellabæ.  Það er stórkostlegt að sjá hvað kirkjan beggja megin Fljótsins hefur komið sér upp góðri starfsaðstöðu.  Eftir að hafa hitt sóknarnefndarfólk á Héraði á mánudagkvöld og fengið þessa fínu gistingu hjá sr. Jóhönnu Sigmarsdóttur sat ég héraðsnefndarfund á þriðjudagsmorgninum þar sem farið var yfir metnaðarfulla fjárhagsáætlun sem leggja á fyrir héraðsfund þann 7. apríl.n.k. Það sem mér fannst athyglisverðast var að öll áhersla héraðssjóðs er á því að styrkja barna- og æskulýðsstarf í prófastsdæminu, halda mót og styrkja ferðir.  Það er afar mikilvægt í þessum landsfjórðungi þar sem börnin búa dreift og ótrúlegar fjarlægðir á milli staða þó göng séu komin á milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar.

Þriðji fundur minn í þessari fundalotu var að sitja stjórnarfund Kirkjumiðstöðvarinnar á Austurlandi, sem er á Eiðum.  Í Kirkjumiðstöðinni eru haldnar einu sumarbúðir Þjóðkirkjunnar á landinu.  Þegar ég var að alast upp voru sumarbúðir á vegum Þjóðkirkjunnar víðs vegar um allt land og var ég m.a. fimm sumur í röð í sumarbúðum og má segja að þar hafi verið lagður grunnurinn að kirkjuáhuga mínum.  Sumarbúðunum í Kirkjumiðstöðinni á Austurlandi hefur verið haldið lifandi af mikilli elju þeirra sem að þeim hafa staðið og má þar helst nefna sr. Jóhönnu Sigmarsdóttur og Kristjönu Björnsdóttur auk prófastsins sr. Davíðs Baldurssonar. Nú hefur verið valinn nýr forstöðumaður Kirkjumiðstöðvarinnar og er það sr. Þorgeir Arason héraðsprestur.

Eftir þessa stuttu ferð á Hérað, er ég mun fróðari um kirkjustarfið í Austurlandsprófastdæmi og hét því að koma þangað fljótt aftur.

Æskulýðsdagur Þjóðkirkjunnar – Hendur Guðs okkar hendur.

Æskulýðsdagur Þjóðkirkjunnar hefur verið haldinn fyrsta sunnudag í marsmánuði um árabil.  Á fyrstu árunum voru þetta miklar hátíðir þar sem heilu bæjarfélögin voru undirlögð af hátíðahöldum.

Í fjölbreytileika samfélagsins hefur æskulýðsdagurinn fengið nýja mynd.

Nú er mikil virkni í söfnuðum landsins meðal fermingarbarna á þessum degi.  Fermingarbörn lesa gjarnan ritningarlestra, eða hafa samið bænir og helgileiki sem þau flytja sjálf.  Auk þess hafa æskulýðsfélög þar sem þau eru starfandi lagt deginum lið.

Starf meðal unglinga í söfnuðum landsins gengur í bylgjum eins og gengur með allt æskulýðsstarf hvort sem það er á vettvangi íþrótta, lista eða kirkjunnar.

Nú er mikill uppgangur í æskulýðsstarfi kirkjunnar og var ég þeirrar ánægju aðnjótandi s.l. haust að vera þátttakandi í Landsmóti æskulýðsfélaganna, sem haldið var á Egilsstöðum.  Þar voru saman komnir um 600 unglingar af öllu landinu.  Dagskráin var þétt, bæði með uppbyggilegum erindum og hópastarfi, en að sjálfsögðu miklu af skemmtilegheitum inn á milli.

Unglingarnir gleymdu ekki kjarna kristindómsins, sem er kærleikur, og notuðu mótið til að safna fyrir brunnum í Malaví, en ungmenni frá Malaví voru einmitt gestir á mótinu.

Þó slík mót séu afar mikilvæg til að treysta vináttuböndin og finna fyrir samkennd þá er mikilvægasta starfið unnið heima í söfnuðunum.  Þess vegan er æskulýðsdagur Þjóðkirkjunnar svo mikilvægur heima hjá hverjum og einum og þar fá börn og unglingar að njóta sín. 

Í ár er yfirskrift æskulýðsdagsins: Hendur Guðs – hendur okkar.  Með þessari yfirskrift er mint á þá staðreynd að við erum öll kölluð með kostum okkar og göllum til að vinna verk Guðs hér á jörðu með þeim höndum sem Guð gaf okkur. Við skulum skoða hvernig haldið verður upp á æskulýðsdaginn í okkar söfnuði og standa svo saman um að efla og hann og styrkja í framtíðinni.